Námskeið með Emma og Peter Worley

Félag heimspekikennara í samstarfi við The Philosophy Foundation heldur námskeiðið HEIMSPEKI MEÐ BÖRNUM Í LEIK-, GRUNN- OG FRAMHALDSSKÓLA dagana 9.-10. ágúst 2018. Um tveggja daga vinnustofu er að ræða og allir eru velkomnir.

Staðsetning: Garðaskóli, Garðabæ
Tími: 9.-10. ágúst 2018, kl. 9-16 báða daga
Námskeiðsgjald: 32.000 krónur

Um námskeiðið:

Emma og Pete Worley frá The Philosophy Foundation koma til Íslands og halda tveggja daga „Stage 1“ námskeið þar sem farið er á dýptina í fræðum og framkvæmd heimspekilegrar samræðu með börnum og ungmennum. Námskeiðið er skemmtilegt og innihaldsríkt og hentar öllum kennurum, bæði þeim sem þegar hafa reynslu af kennslu í heimspeki og samræðu og algjörum byrjendum á þessu sviði. Námskeiðið er fyrir þá sem hafa áhuga á að kynnast og þróa færni sína í stjórnun heimspekilegrar samræðu. Continue reading Námskeið með Emma og Peter Worley

7. norræna ráðstefnan um heimspekilega ráðgjöf

Norræn samtök um heimspekilega ráðgjöf héldu sjöundu ráðstefnu sína í samstarfi við félag heimspekikennara í Íslandi vorið 2017. Ráðstefnan fór fram í Landakotsskóla auk þess sem hún teygði anga sína út á Reykjanesskagann. Dagskráin var nærandi og gestir sammála um að ráðstefnan hefði boðið til einstaklega gefandi samræðu.

Einn ráðstefnugesta var hin sænska Miriam van der Valk sem segir frá ferð sinni til Íslands og ráðstefnunni í afar skemmtilegu bloggi: http://www.filoprax.com/2017/06/25/7th-nordic-conference-on-philosophical-practice/.

Aðalfundur 16. nóvember 2017

Aðalfundur félags heimspekikennara verður haldinn í Hannesarholti, Grundarstíg 10 í Reykjavík, fimmtudaginn 16. nóvember kl. 20-22.

Dagskrá fundarins:

  1. Heimspekikennsla á tímum tækninnar. Atli Harðarson og Ragnar Þór Pétursson flytja hugleiðingar. Samræða í kjölfarið.
  2. Hefðbundin aðalfundarstörf. Skýrsla stjórnar og reikningar verða lagðir fram. Stjórnin öll býður sig fram til áframhaldandi starfs en kallar eftir aðkomu fleiri félaga í ritstjórn Heimspekitorgsins.

Við hvetjum félagsmenn og aðra áhugasama til að mæta og taka þátt í mikilvægri ígrundun um heimspeki og menntun. Hannesarholt er opið frá hádegi og fram til kl. 22 á fimmtudögum. Fundurinn fer fram í veitingasal og gestir geta verslað í veitingasölunni.

Niðurfelling styrkja

Haustið 2015 tilkynnti Mennta- og menningarmálaráðuneytið að styrkir til fagfélaga yrðu alfarið felldir niður. Fulltrúar fagfélaga innan Kennarasambands Íslands komu saman síðastliðið vor og mótmæltu niðurfellingunni harðlega.

Ákvörðun ráðuneytisins var einhliða og með henni var fjárhagslegum grundvelli margra fagfélaga kippt í burtu. Félag heimspekikennara er í þessum hópi enda er félagið fámennt og hefur aldrei innheimt skráningargjöld. Mikið hefur gengið á sjóði félagsins og ljóst er að huga þarf betur að umsóknum um aðra styrki til að halda uppi námskeiðum og annarri starfsemi.

Geðshræringar, skapgerð, sjálf og frelsi: Ráðstefna um heimspekileg viðfangsefni Kristjáns Kristjánssonar, 29. apríl

Ráðstefna um heimspekileg viðfangsefni Kristjáns Kristjánssonar, 29. apríl 2017
Ráðstefna um heimspekileg viðfangsefni Kristjáns Kristjánssonar, 29. apríl 2017

Staður: Háskóli Íslands, stofa 101 í Odda

Tími: 29. apríl 2017, kl. 9:30-18:00

Ráðstefna verður haldin við Háskóla Íslands um heimspekileg viðfangsefni Kristjáns Kristjánssonar prófessors við Háskólann í Birmingham þann 29. apríl 2017. Fjallað verður um ólíka þætti í heimspeki Kristjáns, efni sem tengjast henni eða efni í siðfræði eins og fagmennsku eða siðfræði menntunar.

Kristján hefur skrifað mest um siðfræði frá því að hann hóf störf sem lektor í heimspeki við Háskólann á Akureyri árið 1991 og verið mjög afkastamikill. Hann hefur gefið út þrjú ritgerðasöfn á íslensku og sjö bækur á ensku. Fyrsta bók hans á ensku fjallaði um stjórnmálaheimspeki og sú nýjasta um skapgerðamennt Aristótelesar. Fjórar þeirra eru um geðshræringar og tilfinningar með ólíkum hætti. Ein þeirra segir frá jákvæðri sálfræði og setur  hann fram hófsama gagnrýni á hana.

Í heimspeki Kristjáns eru margir þættir. Hann skrifaði snemma mikilvæga ritgerð um nytjastefnu á íslensku og síðar beitti hann nytjastefnu til að fjalla um geðshræringar. Hluthyggja hefur verið þáttur í heimspeki Kristjáns frá upphafi og hann hefur alltaf beitt þeirri aðferð í heimspeki sem hefur verið nefnd rökgreining. Á seinni árum hefur hann mest fjallað um Aristóteles og kenningu hans um dygðir og skapgerð. Það er óhætt að segja að hann sé orðinn leiðandi í heiminum í túlkun skapgerðarkenningar Aristótelesar með nýjustu bók sinni frá árinu 2015.

Ráðstefnan verður haldin á vegum Siðfræðistofnunar, Háskólans á Akureyri og Menntavísindasviðs.

Dagskrá ráðstefnunar má sjá hér til hliðar og opna á PDF-sniði hér.

Ný stjórn félagsins

Félag heimspekikennara_webAðalfundur Félags heimspekikennara var haldinn í Garðabæ laugardaginn 8. október. Átta félagar mættu á fundinn. Jón Thoroddsen, heimspekikennari í Laugalækjarskóla, sagði stuttlega frá nýútkominni bók og ný stjórn bauð sig fram. Í henni sitja Brynhildur Sigurðardóttir (formaður), Ragnheiður Eiríksdóttir (gjaldkeri) og Jón Thoroddsen (ritari). Fráfarandi stjórn gerði grein fyrir verkum sínum og Arnar Elísson og Skúli Pálsson fá þakkir fyrir sín störf fyrir félagið. Reikningar voru ekki lagðir fram vegna tæknilegra erfiðleika en verða sendir félagsmönnum í tölvupósti til samþykktar eins fljótt og auðið er.

Ný stjórn sér fram á nokkur verkefni á komandi starfsári:
1. Halda málþing um nýtt kennsluefni í heimspekikennslu á hausti
2. Halda norræna ráðstefnu um hagnýta heimspeki að vori
3. Lobbíera vegna skertra möguleika á styrkjum
4. Vinna að því að gera félagið virkara og sýnilegra en undanfarið.

Heimsókn til heimspekikennara

johann_bjornssonFélag heimspekikennara býður í heimsókn til heimspekikennara. Jóhann Björnsson kennari við Réttarholtsskóla ætlar að segja frá því sem hann gerir í heimspekikennslu með 8. – 10. bekkingum. Í skólanum er heimspeki skylda í 8. bekk og val í 9. og 10. bekk. Jóhann hefur gefið út skemmtilegt og afar hagnýtt námsefni á síðustu misserum og upplýsingar um það má t.d. lesa á bloggsíðu hans: http://heimspekismidja.wordpress.com/

 

Tími: fimmtudagurinn 6. nóvember 2014 kl. 20-22

Staður: Réttarholtsskóli við Réttarholtsveg í Reykjavík.

Til hvers heimspeki? Aftanspjall…

philosophyshirt2-300x300Aftanspjall Félags áhugamanna um heimspeki  verður haldið þann 22. október. Samræðan hefst klukkan 19:30 og mun fara fram á veitinga- og skemmtistaðnum Bast, Hverfisgötu 20 (á móti Þjóðleikhúsinu).

Frummælendur verða Börkur Gunnarsson, Salvör Nordal og Brynhildur Sigurðardóttir sem munu leitast við að svara spurningu kvöldsins: Til hvers heimspeki? Öll eru þau heimspekimenntuð en hafa valið sér ólíkan starfsvettvang og fáum við þau til að deila með áheyrendum hvernig heimspekinámið hefur nýst þeim í þeirra störfum. Hvert telja þau hlutverk heimspekinnar vera eða geta orðið fyrir utan hið fræðilega svið.

Jakob Guðmundur Rúnarsson, doktorsnemi í heimspeki, stýrir fundinum . Continue reading Til hvers heimspeki? Aftanspjall…