Viðtal við heimspekikennara: Guðrún Hólmgeirsdóttir

Ritstjórn heimspekitorgsins tók stutt viðtal við Guðrúnu Hólmgeirsdóttur, heimspekikennara við Menntaskólann í Hamrahlíð. Hér að neðan segir hún frá kennslunni sinni og sýn á heimspekikennslu almennt.

Spurning 1: Hvar ert þú að kenna heimspeki? Hvernig er heimspeki byggð inn í skólastarfið? Hvaða áfangar eru kenndir? Er heimspeki valgrein eða skylda á ákveðnum brautum?

Guðrún: Ég kenni í Menntaskólanum við Hamrahlíð og hef gert í rúma tvo áratugi. Hefð fyrir heimspeki í skólanum nær langt aftur fyrir það og hér ríkir velvilji gagnvart heimspekinni.

Nemendur á félagsfræðibraut hafa lengi getað valið heimspeki sem hluta af kjarna og í nokkur ár hefur heimspeki verið kennd sem kjörsvið. Í haust tókum við upp nýja námskrá þar sem nemendum gefst áfram kostur á að velja heimspeki. Það á eftir að sjá hvernig heimspeki reiðir af. Ég myndi óska þess að fleiri af náttúrufræðibraut kæmu í heimspeki vegna þess hve heimspekilegur hugsunarháttur liggur öllum greinum til grundvallar. Heimspeki er mikilvæg ungu fólki sem er að móta hugmyndir sínar um lífið. Stundum koma fyrrum nemendur til mín og segja mér af örlæti sínu hvað heimspekin hafi verið opnandi áfangi á sínum tíma. Það er merkilegt að nemendur skynji að heimspekinám tengist mikilvægu andartaki á þroskabrautinni.

Ég kenni þrjá heimspekiáfanga. Inngangur að heimspeki er alltaf í boði og undanfarið hafa þrír hópar tekið hann á hvorri önn. Þekkingarfræði er síðan á haustin og siðfræði á vorin. Á næstu önn verð ég í fyrsta sinn með óperuáfanga í samvinnu við sögukennara. Markmiðið er að opna heim óperunnar og dýpka námið með því að læra meira um söguna, tengja við bókmenntir heimspekinnar og auðvitað, eins og venjulega, að takast á við allar stóru spurningarnar. Mér finnst það spennandi nálgun að kenna heimspeki í tengslum við efnislegan veruleika og menningu.

Spurning 2: Hvaða markmið setur þú nemendum í heimspekináminu? Er áherslan á að kynnast ákveðnum spurningum/hugmyndum eða á hugarfærni/sköpun/vinnubrögð? Er kennt um ákveðna heimspekinga og/eða kenningar?

Guðrún: Hér erum við komnar að aðalspurningunni. Hvað erum við að kenna og til hvers? Ég lít á það sem mitt meginhlutverk að skapa aðstæður til að nám megi fara fram. Það þarf aga. Það þarf líka frelsi. Of mikið af öðru getur orðið á kostnað hins. Það þarf hvetjandi andrúmsloft þar sem krökkunum líður vel og þau treysta hvert öðru um leið og þau vinna og leggja á sig.

Námið er ofið úr þremur þáttum: Spurningum heimspekinnar, sögu hugmyndanna og lestri á frumtextum. Markmiðin eru:

  1. Hugsa um heiminn, spyrja spurninga og hugleiða svör.
  2. Kynnast heimspeki.
  3. Þjálfast í heimspekilegri orðræðu

Leiðarstefin eru:

  • AÐ fremur en HVAÐ (Það skiptir meira máli að þú lærir en hvað)
  • Hafa gaman
  • Markviss tjáning – virk hlustun

Til að virkja áhuga nemenda nota ég fjölbreytt verkefni sem reyna á lestur og þekkingu, hugsun, sköpun, miðlun og samvinnu.

Heimspeki í umhverfinu er dæmi um verkefni sem þau vinna í pörum. Umfjöllunarefni velja þau útfrá einhverju sem þau hafa vit á eða hug á að kynna sér betur. Það getur verið kvikmynd, ljósmynd, fræðileg kenning, ljóð, bara hvað sem er. Það eru ótrúlegustu hugmyndir sem þau hafa fengið. Viðfangsefni sitt eiga þau síðan að tengja við heimspekilegar spurningar og einnig við hugmyndir heimspekings sem við höfum verið að fjalla um. Síðan búa þau til kynningu fyrir bekkinn. Þetta verkefni slær alltaf í gegn. Þau vinna sjálfstætt, eru virk og lifandi, sýna frumkvæði, gera fræðilegar tengingar og ná að skapa fjörlegar umræður í bekknum.

Í siðfræðinni höfum við stundum haldið siðfræðiráðstefnu sem er opin öllum nemendum skólans. Hér hafa nemendur brugðið sér í ýmis líki. Kant mætir alltaf, Jesús Kristur birtist einu sinni með eftirminnilegum hætti berfættur með sítt hár og þyrnikórónu, Súperman flaug hjá, frummenn hafa stigið dans. . . Þótt sterku hlutverkin séu yfirleitt karlkyns þá ljá stelpurnar þeim líka rödd sína. Á síðustu ráðstefnu tókum við fyrir Watchmen eftir Alan Moore þar sem siðfræðikenningarnar eiga sér hliðstæðu í hinum ýktu karakterum.

Verkefni sem mig dreymir um að hrinda í framkvæmd er að láta nemendur í framhaldsáföngum föndra bók, fagran grip sem geymir hugsun þeirra og þau taka með sér.

Önnur verkefni eru margvísleg eins og gengur. Umræður, spurningar úr textum, ljósmyndaverkefni, skriflegar hugleiðingar, útdrættir, leikþættir, leikir. Framundan er að setja valin verkefni fram og deila þeim á Heimspekitorginu. Kannski geta þau orðið öðrum heimspekikennurum til gagns og innblásturs.

Spurning 3: Hvaða námsefni notar þú?

Guðrún: Sú leið sem ég fer alltaf er að velja textabúta eftir gömlu heimspekingana og leggja fyrir. Þetta er ekki það auðveldasta sem nemendur gera til að frétta af frægum hugmyndum. Þeim finnast textarnir erfiðir. En ég hef trú á því að með því að reyna á sig eignist þau þekkinguna á betri hátt. Og þegar þau horfa til baka lifir það lengst með þeim að hafa lesið hina upprunalegu framsetningu klassískra hugmynda. Síðan er ég með heimspekibókasafnið mitt í kennslustofunni og hvet nemendur til að kynna sér meira. Mörg þeirra gera það. Verða heilluð af heimspekibókum. Ná sambandi við andlegan heim hugmynda. Mér finnst gott að vita af þeim þar.

Ég hef prófað ýmislegt annað aukaefni. Við lásum t.d. Draumalandið eftir Andra Snæ Magnason þegar hún var nýútkomin. Það tókst vel. Hin fræga bók Zen og listin að viðhalda vélhjólum eftir Pirsig, í frábærri þýðingu Sigurðar A. Magnússonar, var aukabók í þekkingarfræði. Mér tókst ekki að kveikja neina stemmningu í kringum þá bók. Þó kom til mín nemendi núna í vor, tveimur árum eftir hina misheppnuðu tilraun, upphafinn á dimmisjón, lofaði bókina í löngu máli og færði mér þakkir fyrir að hafa látið sig lesa hana. Þessi saga minnir á að fræin eru lengi að spíra og uppskera náms kemur enn síðar. Í þekkingarfræðinni læt ég þau velja sér grein í Hugi og gera útdrátt úr henni. Ég held þau hafi svolítið gott af því verkefni.

Spurning 4: Hver er virkni nemenda? Hvernig vinna þeir í heimspekitímum?

Guðrún: Það skapast oft eftirminnilegasta stemmningin þegar allur hópurinn talar saman. En auðvitað vill það brenna við að ákveðnir nemendur verði meira ráðandi og því reyni ég líka að búa til smærri umræðuhópa og virkja sem flesta. Ég er samt á því að þótt nemendur taki ekki allir til máls þá geti þeir engu að síður verið virkir í hugsun sinni. Stundum vinna þau eitt og eitt að verkefnum í kringum texta. Þetta er bara allaveganna. Dagsformið er misjafnt og ég reyni að spila verkefnin þannig að það sé gaman í tímum en samt krefjandi og reyni á ólíka þætti. En ég verð að segja að það er mjög mikið álag sem fylgir auknum hópastærðum sem eru afleiðing af sparnaði í skólakerfinu. Það er 31 nemandi í nánast hverjum hópi. Þótt ég reyni að láta starfsgleðina létta mér starfið þá eru þessir stóru hópar þungt ok að bera. Þannig er nú bara það. Og ég held að það sé farið að koma niður á gæðum kennslunnar. Úthald kennarans minnkar, verkefnum til að fara yfir fjölgar, áreiti í tímunum er meira. Það er álag fyrir nemendur líka.

Spurning 5: Hvernig er heimspekinámið metið? Er gefin einkunn? Próf/verkefni/samræða? Annað sem metið er?

Guðrún: Nemendur fá lokaeinkunn sem byggist á vinnu á önninni, verkefnum og prófum. Það er kannski gamaldags, en ég hef trú á lokaprófum. Að fara aftur yfir efni sem maður hefur lært, koma skipulagi á hugmyndir og skila frá sér. Nemendur í menntaskóla eiga að afla sér efnislegrar þekkingar. Lesa. Læra. Kunna eitthvað dálítið. En færni í að vinna með hugmyndir skiptir auðvitað miklu máli. Skrifleg verkefni, kynningar, þátttaka í samræðum eru hluti af námsmati. Upp á síðkastið er ég farin að telja árangur í minni verkefnum. Gef 10 fyrir skil en skrifa umsögn um innihald í stað einkunnar. Læt mætingu líka gilda. Námsmat er eitt af því sem kennarar eru stöðugt að velta fyrir sér og leita rökstuðnings fyrir hvaða árangur eigi að mæla og með hvaða hætti best sé lagt mat á markmið námsins.

Spurning 6: Annað sem þú vilt taka fram um heimspekikennslu?

Guðrún: Í heimspekikennslu er verið að opna glugga með ungu fólki. Skoða og skyggnast um. Það eru merkilegar stundir þegar ungt fólk gerir uppgötvanir. Ástundun heimspeki felst í sköpun, leit að sannleika, merkingu lífsins, samhengi hlutanna. Nú þegar vorið er að koma þá er gróðurlíkingin mér hugstæð. Að hugsa um næringarefnin í moldinni fyrir fræin, vökva, reita suman gróður frá. Veita ungum plöntum stuðning og skjól, hugsa um fegurð og jafnvægi og njóta ljóma frá ljósgrænum skrúða. Hlakka til framtíðar. Venjulegur kennari reynir eins og hann er búinn til að leggja sitt af mörkum. Vona hið góða.