Innleiðing á Íslandi

Innleiðing heimspekikennslu á Íslandi

Í umfjöllun um innleiðingu heimspekikennslu á Íslandi er mikilvægt að hafa í huga að heimspeki er nú þegar kennd sem námsgrein í grunn- og framhaldsskólum og nýtt sem aðferðafræði í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Þrátt fyrir það hefur ekki verið hægt að læra að verða „heimspekikennari“ hér á landi, líkt og ensku- eða stærðfræðikennari. Það hefur verið vegna þess að heimspekikennsla hefur ekki verið tilgreind í Aðalnámskrá sem sérstök námsgrein. Tilurð heimspekikennslu á Íslandi á því alfarið rætur sínar í frumkvöðlastarfi og áhuga kennara og skólastjórnenda þar sem hún hefur verið kennd.

 

Heimspekikennarar á framhaldsskólastigi hafa oftar en ekki lokið heimspekikenntun af háskólastigi og öðlast kennsluréttindi. Hins vegar, frá og með haustinu 2012, hefur verið hægt að mennta sig sérstaklega sem heimspekikennara á framhaldsskólstigi við Háskóla Íslands en námið er samstarf sagnfræði- og heimspekideildar og kennaradeildar. Á grunnskólastigi er heimspeki, samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla, ásamt siðfræði ein af undirgreinum samfélagsfræði. Umfjöllun um heimspekikennslu kennaranámi grunnskólakennara fellur því fyrst og fremst undir þá sem hyggjast kenna samfélagsgreinar. Heimspeki sem aðferðafræði í kennslu almennt, og sem samofin öðrum námsgreinum, er hins vegar að ryðja sér til rúms í auknum mæli. Það má rekja til nýs framsetningarmáta nýrrar Aðalanámskrár skólastiganna þriggja.

Ný menntastefna

Árið 2011 gaf mennta- og menningarmálaráðuneytið út nýa Aðalnámskrá fyrir skólastigin þrjú, leik-, grunn- og framhaldsskóla. Þá er um að ræða almennan hluta námskrárinnar en sérstök greinanámskrá fyrir grunnskólastigið var gefin út vorið 2013. Þá hafa einnig verið gefin út sérstök þemahefti um sex grunnþætti menntunar sem sú menntastefna sem námskráin boðar byggir á.  Með nýju menntastefnunni var í fyrsta sinn gerð tilraun til að skapa heildstæða skólastefnu sem næði jafnt til allra skólastiga.[1] Þannig verður menntastefnan heimspekilegri en oft áður þar sem markmið hennar er að fanga með heildrænum hætti hlutverk menntunar í lífi einstaklingsins. Sú nálgun birtist einna helst í áherslum á breytta kennsluhætti og þverfaglega nálgun á námsgreinar og viðfangsefni námsins. Hana má einnig finna í námsmati og með grunnþáttum menntunar. En með grunnþáttum menntunar er reynt að fanga þá þætti sem eru sameiginlegir öllum skólastigum.[2]

Grunnþættir menntunar

Grunnþættirnir sex eru læsi, sjálfbærni, sköpun, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi, heilsa og velferð. Markmið þeirra er að fléttast inn í almennt skólastarf og eru þeir þannig undirstaða menntunar; gegnumgangandi þemu sem eiga að finnast í öllum ólíkum hliðum skólastarfsins. Umfjöllun um, og vinnan með, grunnþættina fléttast því við allar námsgreinar skólastarfsins. Þar getur heimspekin, eða aðferð heimspekinnar, komið að góðum notum en eðli hennar samkvæmt gefur hún bæði tækifæri til að fjalla um ólíkar hliðar grunnþáttanna, sem og er óbein leið til að ná fram markmiðum þeirra. Það er vegna þess, líkt og bent er á í Aðalnámskrá, að allir grunnþættir menntunar eiga rætur sína í gagnrýninni hugsun.[3] Heimspekin sem fræðigrein er ekki eina fræðgreinin sem beitir gagnrýninni hugsun í starfi sínu en þjálfun í aðferð heimspekinnar líkt og heimspekilegri samræðu er góð leið til að þjálfa gagnrýna hugsun og fjalla um málefni með markvissum og skipulegum hætti. Þátttaka í heimspekilegri samræðu felur í sér beitingu gagnrýninnar hugsunar.

Efling gagnrýninnar hugsunar og siðfræði

Það að grunnþættirnir eigi sér rætur í gagnrýninn hugsun[4] gerir það að verkum að mikilvægt er að leggja rækt við gagnrýna hugsun nemenda. Þá kemur fram í Aðalnámskrá skólastiganna þriggja að efla beri gagnrýna hugsun, sem og siðferðisvitund nemenda. Sú efling eða þjálfun fer fram með margvíslegum hætti en eðli sínu samkvæmt, stuðlar heimspekikennsla sem leggur áherslu á aðferðafræði heimspekinnar, líkt og heimspekilega samræðu, að eflingu gagnrýninnar hugsunar og siðfræði. (Sjá nánar umfjöllun um eflingu gagnrýninnar hugsunar og siðfræði hér)

Rannsóknar- og þróunarstarf á Íslandi

Ýmislegt rannsóknar- og þróunarstarf hefur verið unnið hér á landi í tengslum við kosti þess og galla að stunda heimspeki með börnum og það á öllum skólastigunum þremur, í leik-, grunn- og framhaldsskóla. Umfjöllunin hér er ekki tæmandi en til eru ófáar námsritgerðir sem fjalla um heimspeki með börnum og hafa verið unnið útfrá einhverskonar rannsóknarstarfi. Flest allar ritgerðirnar eru skrifaðar sem hluti af kennaranámi, á leik- eða grunnskólastigi, en einnig eru til lokaritgerðir í heimspeki um sama efni.[5]

Rannsóknarstarf í framhaldsskólum

Árið 2011 kom út bókin Tími heimspekinnar í framhaldsskólanum eftir Kristínu Hildi Sætran. Í bókinni fjallar Kristín um heimspekikennslu innan framhaldskólanna, gildi hennar, verðmæti og framleiðniáhrif. Kristín færir rök fyrir því hvernig hægt er að stuðla að sjálfstæðri hugsun nemendanna og vinna þannig gegn doða og námsleiða með forvitinni og frjálsri en um leið agaðri hugsun heimspekinnar. Hún dregur fram hvernig í allri heimspekilegri nálgun er krafist gagnrýninnar hugsunar um leið og þjálfuð er hæfni í að standast óvissu spurnarinnar.[6]

 

Kristín ávarpar skólastjórnendur og ráðamenn, jafnt sem kennara og aðra þá er vilja kynna sér gildi heimspekinnar fyrir framhaldsskólana. Hún færir rök fyrir því hvernig nýting heimspekinnar getur orðið til þess að minnka brottfall nemenda og bendir á að þar af leiðandi felist efnahagslegur og víðtækur samfélagslegur ávinningur í framgangi heimspekinnar innan framhaldsskólanna. Ásamt því að benda á möguleika heimspekinnar innan framhaldsskólanna er í bókinni könnun sem Kristín vann um viðhorf framhaldsskólakennara til nýtingar heimspeki almennt og siðfræði sérstaklega í kennslu sinni. Einnig eru greind heimspekileg atriði í Aðalnámskrá framhaldsskóla, fjallað um heimspeki sem sérstaka námsgrein og um samþættingu heimspeki við aðrar greinar og hve samstarf kennara er mikilvægt.[7] Bókin nýtist því vel hverjum þeim sem kemur að starfi og mótun menntunar á framhaldsskólastigi og hefur áhuga á þróun menntastefnu almennt.

Þróunarstarf í grunnskólum

Í Garðaskóla, Garðabæ, hefur verið öflug heimspekikennsla í þó nokkur ár undir stjórn Brynhildar Sigurðardóttur sem síðar fékk til liðs við sig myndlistarkennarann Ingimar Ólafsson Waage. Brynhildur er menntaður kennari og hefur sérhæft sig í heimspekikennslu. Hefur hún meðal annars verið nemandi Matthew Lipmans við Montclair State University í Bandaríkjunum. Brynhildur hefur einnig kennt námskeið um heimspeki með börnum á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Ingimar er menntaður listmálari og kennari og hefur fléttað heimspeki inn í myndlistarkennslu sína jafnframt því að kenna heimspeki sem námsgrein.  Skólaárið 2010-2011 unnu Brynhildur og Ingimar að þróunarverkefni við Garðaskóla. Markmið verkefnisins var að kennarar úr ólíkum faggreinum innan skólans gætu, með fræðslu og umræðum, þróað með sér sína eigin færni í heimspekilegri samræðu. Það sem stóð uppúr að verkefninu loknu var að þrátt fyrir góða viðleitni þyrfti meiri fræðslu, stuðning og stýringu til að verkefnið skilaði tilskildum árangri.[8] Í kjölfar þess ákváðu Brynhildur og Ingimar að sameina krafta sína með Jóhönnu Kristínu Guðmundsdóttir og Jóhönnu Guðrúnu Ólafsdóttur. Þær höfðu báðar lokið meistaranámi í uppeldis- og menntunarfræðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og höfðu áhuga á að vinna þróunarstarf því tengdu í leikskólum Garðabæjar.[9]Markmið fjórmenninganna var því að vinna að stærra og ítarlegra þróunarverkefni um heimspeki sem aðferðafræði og heimspekikennslu í leik- og grunnskólum Garðabæjar. Árið 2011 hlaut verkefnið, í samvinnu við Fræðslu- og menningarsvið Garðabæjar, styrk frá Sprotasjóði Mennta- og menningarmálaráðuneytis. Auk þess lagði Fræðslu- og menningarsvið Garðabæjar til fé og aðstöðu. Styrkurinn var veittur til þróunarstarfs um eflingu heimspekikennslu í leik- og grunnskólum Garðabæjar veturinn 2011-2012 og var framkvæmd verkefnisins í höndum Brynhildar, Ingimars, Jóhönnu Kristínar og Jóhönnu Guðrúnar. Skilgreint markmið verkefnisins er jafnframt það að kynna fyrir öllum kennurum í leik- og grunnskólum Garðabæjar heimspekilegar aðferðir til að nota í eigin kennslu.[10] Samhliða verkefninu vinna aðstandendur þess að kennsluleiðbeiningum, sem gagnast eiga öllum kennurum óháð fræðilegum bakgrunni, og að námskrárþróun fyrir heimspeki, hvort heldur sem aðferðafræði eða námsgrein.[11] Verkefnið er enn starfandi.

Þróunarstarf í leikskólum

Ýmislegt þróunar- og rannsóknarstarf um gildi heimspekiiðkunnar með börnum á leikskólaaldri hefur verið unnið í íslenskum leikskólum. Sem dæmi má nefna leikskólann Lundarsel[12] á Akureyri og á leikskólann Foldaborg[13] í Reykjavík en hægt er að nálgast upplýsingar um skýrslu þróunarverkefnis Foldaborgar: Heimspeki með börnum: þróunarverkefni unnið í leikskólanum Foldaborg 1997-1996 á leitarvefnum Gegni. Þá vann Björn Rúnar Egilsson einnig handbók um heimspekistarf í leikskólum, Heimspeki fyrir uppalendur, útfrá reynslu sinni af heimspekistarfi með börnum við leikskóla Hjallastefnunnar, Laufásborg.

 

[1] Ingimar Waage. 26.

[2] Ingimar Waage: 26.

[3] Aðalnámskrá grunnskóla 2011: 16.

[4] Reyndar segir orðrétt í námskránni að þeir eigi sér rætur í „gagnrýninni hugsun, ígrundun, vísindalegum viðhorfum og lýðræðislegu gildismati“ (s. 16) en alla þessa þætti má sameina undir hugtakinu gagnrýnin hugsun sbr. Elsa Haraldsdóttir. 2013. Gagnrýnin hugsun: Einkenni hennar og hlutverk. http://hdl.handle.net/1946/13776.

[5] Sjá nánar samantekt á lokaritgerðum um heimspekikennslu í viðauka skýrslu um eflingu gagnrýninnar hugsunar og siðfræði í íslenskum skólum: https://gagnryninhugsun.hi.is/?page_id=1583

[6] Kristín Hildur Sætran. Kynning bókarinnar: Tími heimspekinnar í framhaldsskólanum [Óprentað handrit].

[7] Kristín Hildur Sætran.

[8] Brynhildur Sigurðardóttir. Heimspekikennari og aðstoðarskólastjóri við Garðaskóla. Viðtal 21. október 2011.

[9] Brynhildur Sigurðardóttir.

[10] Ingimar Waage. Heimspekikennari í Garðaskóla. Viðtal 20. september 2011.

[11] Brynhildur Sigurðardóttir.

[12] Sjá nánar: http://www.lundarsel.akureyri.is/kisa/kisusidur/heimspeki.htm.

[13] Sjá nánar: http://foldaborg.is/index.php?option=com_content&view=article&id=89&Itemid=200020 og http://foldaborg.is/index.php?option=com_content&task=view&id=201&Itemid=138.