SOPHIA – ráðstefna 2012

SOPHIA eru samtök barnaheimspeki kennara í Evrópu. Samtökin halda árlega ráðstefnu þar sem félagsmenn kynna hugmyndir og verkefni, skiptast á skoðunum og styrkja tengslanet sitt. Næsta ráðstefna þeirra verður í Serbíu 14.-16. september 2012 og nánari upplýsingar um ráðstefnuna, skráningu, ferðir og gistingu má nálgast hér.

Viðfangsefni ráðstefnunnar er “heimspeki í heimspeki með börnum” (Philosophy in Philosophizing with Children). Tekið er við tillögum að málstofum til 1. júní 2012 og hér má nálgast nánari upplýsingar um hvernig senda á inn erindi.

Námskeið Oscar Brenifier, sumar 2012

Sjöunda alþjóðlega heimspekinámskeið heimspekistofnunar Dr. Oscar Brenifier og félaga verður haldið 6.-12. ágúst 2012. Námskeiðið er haldið á ensku og fjöldi þátttakenda verður 25-30 manns. Þátttökugjald er 600 EUR og innifalið í því er námskeiðsgjald, fæði og húsnæði. Nokkrir íslenskir heimspekikennarar hafa nú þegar farið á námskeið hjá Oscar Brenifier og telja reynsluna mikilvæga og lærdómsríka. Nánari upplýsingar um námskeiðið og verk Dr. Brenifier má nálgast á heimasíðu hans.

Sumarnámskeið IAPC í Mendham, NJ

Árlegt sumarnámskeið IAPC (Institute for the Advancement of Philosophy for Children) verður haldið 4. -11. ágúst 2012. Námskeiðin eru haldin í gömlu klaustri í dreifbýli New Jersey og óhætt er að segja að þátttaka í þeim sé góð næring fyrir líkama og sál auk þess að vera góð þjálfun fyrir þá sem vilja styrkja færni sína í heimspekilegri samræðu og samræðukennslu.

Á námskeiðunum er námsefni eftir Matthew Lipman og félaga notað til að þjálfa þátttöku í heimspekilegu samræðufélagi og samræðustjórnun. Þátttakendur fá þjálfun í að greina heimspekileg hugtök og að finna heimspekilegar áherslur í námsefni og daglegri umræðu. Fræðilegar undirstöður heimspeki með börnum eru einnig til umfjöllunar.

Nokkrir íslenskir kennarar og heimspekingar hafa á undanförnum árum tekið þátt í námskeiðunum í Mendham og mæla eindregið með þeim. Nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu IAPC og í sérstakri auglýsingu um námskeiðið sumarið 2012.

SOPHIA: samtök barnaheimspekinga í Evrópu

SOPHIA eru evrópusamtök barnaheimspekinga og starfsemi þeirra má kynna sér á heimasíðunni http://sophia.eu.org/. Samtökin halda árlega samstarfsfundi þar sem heimspekikennarar hittast, segja frá verkum sínum og styrkja tengslin við aðra kennara. Næsti samstarfsfundur verður haldinn í Istanbul 30. september – 1. október 2011 og það er Dr. Nimet Kucuk  sem er gestgjafi.