Heimspekismiðja í 5. og 6. bekk

eftir Brynhildi Sigurðardóttur

Í vetur kenndi ég í fyrsta sinn heimspeki á miðstigi. Ég er kennari í Stapaskóla og kenndi nemendum í 5. og 6. bekk heimspekismiðju, sex tíma á viku (þrjá tvöfalda tíma) í sjö vikur hver hópur. Í hópunum voru 7-12 nemendur og aðrir nemendur í árgöngunum sóttu á sama tíma smiðjur í tækni, list- og verkgreinum.

Ég prófaði alls konar verkefni með krökkunum, sumt gekk herfilega og annað var mjög skemmtilegt. Það sem reyndist erfiðast var að nota „klassískan Lipman“, þ.e. aðferðina hópur les texta – nemendur setja fram spurningar – samræða tvinnuð út frá spurningunum – heimspekilegar æfingar nýttar til dýpkunar. Nemendum gekk illa að tengja við textana og fannst eigin spurningar lítils virði.

Það sem gekk best voru æfingar sem við unnum á hreyfingu og hugtakaskalar. Ég set hér tengla á nokkur af þessum verkefnum:

  • Heimspekileikir/upphitunaræfingar eftir Jóhann Björnsson (https://vefir.mms.is/flettibaekur/namsefni/sextiuogatta_aefingar/). „Hvað er í kassanum“ þjappaði hópunum til dæmis alltaf vel saman.
  • Aðrar æfingar frá Jóhanni reyndust líka vel (sama bók): „Hvað sérðu“ er góð byrjunaræfing í heimspeki, „Málað með sápukúlum“ er mjög skemmtilegt verkefni sem kveikir í hugsun krakkanna og „Hvað ef“ spurningar urðu algjört uppáhaldsverkefni í sumum hópunum, nemendur gátu ekki hætt að búa til nýjar hvað ef spurningar sjálfum sér og hópfélögum til gamans.
  • Þýðingar á skemmtilegum verkefnum frá The Philosophy Man (Jason Buckley) sem finna má í Verkefnabanka Heimspekitorgsins nýttust mér líka mjög vel með 10-11 ára krökkum. Allir hóparnir þjálfuðu einbeitinguna með æfingunni „Ef hundurinn minn væri hestur“. Þessi æfing er erfið til að byrja með en með nokkrum endurtekningum ná krakkar tökum á henni og finnst hún þá mjög skemmtileg.
  • Jason Buckley leggur mikla áherslu á að blanda leik og hreyfingu inn í heimspekikennsluna. Æfing eins og „Að kjósa með fótunum“ er bæði einföld og skemmtileg. Til að fá sem mest út úr heimspekileikjunum er gott að hafa nokkur aðalatriði í huga og þau eru útskýrð í þessum kennsluseðli.
  • Hugtakaskalar eru verkefni sem hafa eiginlega aldrei klikkað hjá mér. Skemmtileg byrjunaræfing er „krúttskalinn“ sem á uppruna sinn hjá Jóhanni Björnssyni eins og fleiri skemmtileg verkefni. En þessa aðferð má síðan laga að hvaða hugtaki sem er. Í vetur vann ég t.d. hugtakaskala um hugtakið „skemmtilegt“ með mörgum af hópunum mínum. Þá byrjaði ég vinnu nemenda með því að láta alla hafa tvo miða. Á annan miðann áttu þeir að skrifa dæmi um eitthvað sem þeim fannst mjög skemmtilegt en á hinn miðann áttu þeir að skrifa dæmi um eitthvað sem þeim fannst alls ekki vera skemmtilegt (leiðinlegt var oftast hinn endinn á skalanum). Ég tók svo miðana, skrifaði þá upp og ruglaði, ritskoðaði og bætti við dæmum til að auka breiddina í umræðunni. Í næsta tíma merktum við svo langa línu yfir þvera stofuna sem við vorum að vinna í, með „skemmtilegt“ á öðrum endanum og „alls ekki skemmtilegt“ á hinum og í miðjunni var ég alltaf með „???“ sem þýddi „veit ekki“ eða „bæði og“. Svo dreifði ég prentuðum miðunum í ruglaðri röð til nemenda, allir komu upp og lásu upp miðann sinn og settu hann þar sem þeim fannst hann eiga að vera á línunni. Í þessari fyrstu umferð lagði ég ekki mikla áherslu á rökstuðning. En í næstu umferð máttu nemendur koma upp og færa miða sem þeim fannst ekki vera rétt staðsettur á línunni. Þá hófst fjörið og nú gerði ég skýra kröfu um að það mætti ekki færa miða nema útskýra mjög vel af hverju.

Ég byrjaði kennslustundir alltaf á einhvers konar upphitun. Ég kenndi krökkunum t.d. að spila SET sem er frábær rökhugsunarleikur. Spilið má kaupa sem spilastokk, t.d. í Spilavinum og þá skipti ég stokknum oft á milli tveggja 4-5 manna hópa. En oftast spilaði hópurinn leikinn saman á netinu, við settum þá þessa síðu upp á stóran snertiskjá og þegar krakkarnir töldu sig hafa fundið set (þrennu) komu þeir upp og snertu spilin. Ef þeir höfðu rangt fyrir sér fögnuðum við því, skoðuðum hvað hefði klikkað svo að hópurinn gæti lært af því. Þegar þeir höfðu rétt fyrir sér voru verðlaunin þau að settið raðaðist til hliðar við spilin. Kostur við þessa vefútgáfu af spilinu er að við vitum alltaf að það eru sex set í borðinu en þegar spilað er með spilastokknum þá getur það komið fyrir að ekkert set finnist í borðinu og þá þarf að bæta við spili í von um að betur gangi.

Að lokum reyndist líka vel að grípa tækifæri sem gáfust. Í tengslum við dag heimspekinnar í nóvember fann ég t.d. mynd sem ég sýndi nemendum. Í góðan hálftíma sögðu þau frá hvað þau sáu í myndinni, báru sig saman og útskýrðu fyrir hvert öðru.

https://www.un.org/en/observances/philosophy-day

Vonandi nýtast þessar ábendingar kennurum sem eru að fara af stað með heimspekikennslu á miðstigi grunnskólans.

Heimspeki og spunaspil – Glósur úr fyrirlestri Ármanns Halldórssonar á fræðslufundi Félags heimspekikennara 13. mars 2013

Heimspekileikir – Leikjaheimspeki

eftir Brynhildi Sigurðardóttur og Kristian Guttesen

Ármann Halldórsson

Ármann Halldórsson sagði frá tilraunum sínum til að tvinna saman heimspekikennslu og hlutverkaleiki á þriðja fræðslufundi Félags heimspekikennara sem haldinn var snemma í mars. Fundurinn var vel sóttur af heimspekingum, kennurum og sérfræðingum í hlutverkaleikjum.

Ármann kennir ensku og heimspeki við Verzlunarskóla Íslands. Í vetur gerir hann í fyrsta sinn tilraun til að kenna áfanga um spunaspil (e. role playing games) í þeim tilgangi að spilavæða heimspekinga og heimspekivæða spunaspilin. Ármann tekur með þessu viðbótarskref til að þróa þá heimspekiáfanga sem hann hefur hingað til kennt en þar leggur hann ríka áherslu á praktíska nálgun og nýtir heimspekilega samræðu mjög mikið í kennslunni. Hann telur heimspekinám felast í fimm meginþáttum: sókratískri samræðu, umræðustjórnun, hugtakagreiningu, gagnrýninni hugsun og siðfræði.

Continue reading Heimspeki og spunaspil – Glósur úr fyrirlestri Ármanns Halldórssonar á fræðslufundi Félags heimspekikennara 13. mars 2013

Viðtal við heimspekikennara: Jón Thoroddsen

Jón Thoroddsen kennir heimspeki og lífsleikni í Laugalækjarskóla í Reykjavík. Jón segir okkur nánar frá störfum sínum í svörum við nokkrum spurningum Heimspekitorgsins hér að neðan:

Spurning 1: Hvar ert þú að kenna heimspeki? Hvernig er heimspeki byggð inn í skólastarfið? Hvaða áfangar eru kenndir? Er heimspeki valgrein eða skylda á ákveðnum brautum?

Jón: Ég kenni heimspeki í Lauglækjarskóla í Reykjavík.  Ég kom til starfa haustið 2006 þegar ég tók að mér lífsleiknikennslu í skólanum, en lífsleikni kenni ég með heimspekilegri áherslu. Seinna bættist við heimspekival í 9. og 10. bekk sem er með dálítið öðru sniði. Continue reading Viðtal við heimspekikennara: Jón Thoroddsen

Bloggað um málstofu

Ármann Halldórsson hefur bloggað um fyrirlestur á nýafstöðnu Hugvísindaþingi. Þar hlustaði hann á Nönnu Hlín Halldórsdóttur á málstofunni “Róttæk heimspeki samtímans” og í bloggi sínu dregur Ármann sinn skilning á fyrirlestrinum og umræðum í kjölfarið. Lesið þetta hjá Menntamannsa. Í lok bloggsins lofar Ármann að skrifa næst um fyrirlestur Erlu Karlsdóttur á sömu málstofu.

Viðtal við heimspekikennara: Arnar Elísson

Heimspekitorgið tók nýverið viðtal við Arnar Elísson heimspeking og kennara við Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ.

Spurning 1: Hvar ert þú að kenna heimspeki? Hvernig er heimspeki byggð inn í skólastarfið? Hvaða áfangar eru kenndir? Er heimspeki valgrein eða skylda á ákveðnum brautum?

Arnar: Ég er að kenna heimspeki í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ. Í kringum 240 nemendur sækja skólann og þar vinna um 30 kennarar. Aðferðafræði skólans felst í leiðsagnarmati, þ.e. nemendur fara ekki í stór lokapróf í lok annar. Námið í skólanum er verkefnamiðað og nemendur vinna því stöðugt yfir önnina í verkefnum og fá umsagnir frá kennara. Þetta krefst mikilla samskipta og samvinnu á milli nemenda og kennara.

Í skólanum kenni ég þrjá heimspekiáfanga; Byrjunaráfangi í heimspeki, sem er inngangsáfangi sem hefur það markmið að kynna fyrir nemendum heimspeki sem fræðigrein; Heimspeki og kvikmyndir, sem er áfangi í fagurfræði; og Líf og dauði, sem er áfangi í heilbrigðissiðfræði.

Byrjunaráfangi í heimspeki er eini skylduáfanginn og þurfa nemendur á félagsfræðibraut að taka hann, hinir áfangarnir eru valgreinar. Continue reading Viðtal við heimspekikennara: Arnar Elísson

Heimspekileg samræða í forvarnarstarfi

Einar Kvaran heimspekingur fékk síðastliðið sumar styrk frá Forvarnarsjóði Reykjavíkur til að vinna verkefnið Frívaktin í félagsmiðstöðinni Frostaskjóli. Verkefnið hefur það að markmiði að nýta heimspekilega samræðu í forvarnarskyni og kanna hversu öflugt tæki slík samræða er í þessu samhengi. Einar fékk Félag heimspekikennara til samstarfs við undirbúning umsóknar um verkefnið. Eftir að styrkur var veittur snemma hausts 2012 var skipuð verkefnisstjórn sem í sitja fulltrúar úr stjórn félagsins og Frostaskjóli auk Einars. Elsa Haraldsdóttir hefur nú gengið til samstarfs við verkefnastjórnina og hér að neðan segja þau Einar og Elsa frá stöðu verkefnisins: Continue reading Heimspekileg samræða í forvarnarstarfi

Heimspeki, fantasíur og furðusögur

Fimmtudaginn 7. mars verður heimspekileg uppákoma á vegum Félags áhugamanna um heimspeki á veitingahúsinu Sólon í Bankastræti. Þrír fyrirlesarar munu setja fantasíur, furðusögur og vísindaskáldskap í heimspekilegt og fræðilegt samhengi og væntanlega fá gestir tækifæri til að bregðast við. Fyrirlesararnir eru Arnar Elísson heimspekingur, Arngrímur Vídalín íslenskufræðingur og Nanna Hlín Halldórsdóttir heimspekingur. Nánari upplýsingar má finna á Facebook síðu viðburðarins.