Viðtal við heimspekikennara: Arnar Elísson

Heimspekitorgið tók nýverið viðtal við Arnar Elísson heimspeking og kennara við Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ.

Spurning 1: Hvar ert þú að kenna heimspeki? Hvernig er heimspeki byggð inn í skólastarfið? Hvaða áfangar eru kenndir? Er heimspeki valgrein eða skylda á ákveðnum brautum?

Arnar: Ég er að kenna heimspeki í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ. Í kringum 240 nemendur sækja skólann og þar vinna um 30 kennarar. Aðferðafræði skólans felst í leiðsagnarmati, þ.e. nemendur fara ekki í stór lokapróf í lok annar. Námið í skólanum er verkefnamiðað og nemendur vinna því stöðugt yfir önnina í verkefnum og fá umsagnir frá kennara. Þetta krefst mikilla samskipta og samvinnu á milli nemenda og kennara.

Í skólanum kenni ég þrjá heimspekiáfanga; Byrjunaráfangi í heimspeki, sem er inngangsáfangi sem hefur það markmið að kynna fyrir nemendum heimspeki sem fræðigrein; Heimspeki og kvikmyndir, sem er áfangi í fagurfræði; og Líf og dauði, sem er áfangi í heilbrigðissiðfræði.

Byrjunaráfangi í heimspeki er eini skylduáfanginn og þurfa nemendur á félagsfræðibraut að taka hann, hinir áfangarnir eru valgreinar.

Spurning 2: Hvaða markmið setur þú nemendum í heimspekináminu? Er áherslan á að kynnast ákveðnum spurningum/hugmyndum eða á hugarfærni/sköpun/vinnubrögð? Er kennt um ákveðna heimspekinga og/eða kenningar?

Arnar: Markmið allra heimspekiáfanganna er fyrst og fremst að æfa og efla gagnrýna hugsun. Ég tel það mjög mikilvægt að nemendur sjái tilgang með náminu og geti notað það sem þeir læra í heimspeki á öðrum sviðum í lífinu. Markmið mitt er því ekki að undirbúa nemendur fyrir frekara heimspekinám heldur að gera þá að hæfari námsmönnum og vonandi upplýstari einstaklingum.

Annað markmið námsins er að tengja kennsluefnið við raunveruleikann og að nemendur geti tengt efnið við sig persónulega. Það tel ég gífurlega mikilvægt þar sem það eykur áhuga og virkni.

Heimspekiáfangarnir eru kenndir að mestu leyti í samræðuformi og nemendur eru hvattir til að gagnrýna námsefnið og námið og taka virkan þátt í kennslunni. Við höldum umræðutíma þar sem litlir hópar ræða sín á milli, gerum hópverkefni og einstaklingsverkefni þar sem nemendur vinna að ritgerðum, stuttum umfjöllunum, kynningum, veggspjöldum, munnlegum prófum og videoverkefnum svo eitthvað sé nefnt. Áhersla er lögð á að nemendur geti unnið með heimildir, myndað sér rökstuddar skoðanir og rætt málefni og heimspekileg álitaefni á upplýstan og röklegan hátt.

Nemendur eru kynntir meðal annars fyrir Sókratesi, Platóni, Aristótelesi og Descartes. Kenningar eins og nytjastefnan, gagnrýnin hugsun, spilling tungumálsins og þykjustuþekking eru meðal þeirra kenninga sem við förum í. Einnig er farið í feminíska heimspeki.

Spurning 3: Hvaða námsefni notar þú?

Arnar: Í byrjunaráfanganum mínum notast ég við vísindavefinn, greinar á internetinu, ljósrit og oft þurfa nemendur að finna efni sjálfir. Í heimspeki og kvikmyndum notast ég við frumsamið efni byggt á greinum og bókum í almennri heimspeki og fagurfræði. Í líf og dauða notast ég við Siðfræði lífs og dauða eftir Vilhjálm Árnason.

Spurning 4: Hver er virkni nemenda? Hvernig vinna þeir í heimspekitímum?

Arnar: Stefna skólans og leiðsagnarmatsins er að fyrirlestrar þar sem kennari talar yfir nemendur sé ekki gagnleg kennsluaðferð. Áhersla er lögð á að nemendur séu virkir þátttakendur í náminu. Þetta er meðal annars gert í heimspeki með því að hafa miklar umræður í tímum, kennari gerir ráð fyrir því að nemendur lesi heima og tjái sig um námsefnið og skoðanir þeirra á því. Það er talsvert um verkefni og eru nemendur oft að vinna að þeim í tímum t.d. eintaklings- eða hópverkefni.

Spurning 5: Hvernig er heimspekinámið metið? Er gefin einkunn? Próf/verkefni/samræða? Annað sem metið er?

Arnar: Þar sem ég notast við leiðsagnarmatið, líkt og aðrir kennarar í Fmos, þá eru engar einkunnir gefnar yfir önnina; einungis umsagnir. Nemendur fá síðan lokaeinkunn í lok annar. Í öllum verkefnum, hvort sem það eru skrifleg, munnleg, hóp- eða einstaklingsverkefni er lögð áhersla á vönduð vinnubrögð, meðferð heimilda, skilning, sanngjarna nálgun og skýra og röklega umræðu. Nemendur eru ennfremur metnir út frá þátttöku og virkni í kennslustundum.

Spurning 6: Annað sem þú vilt taka fram um heimspekikennslu?

Arnar: Kennsla er nám, bæði fyrir kennara og nemendur. Heimspekikennsla er eitthvað sem enginn lærir að gera fullkomlega og endanlega rétt. Það er eitthvað sem þróast og vex með kennaranum og reynslunni. Því er mikilvægt að vera jákvæð þegar eitthvað mistekst, þá erum við oftast að læra eitthvað nýtt.