Viðtal við heimspekikennara: Jón Thoroddsen

Jón Thoroddsen kennir heimspeki og lífsleikni í Laugalækjarskóla í Reykjavík. Jón segir okkur nánar frá störfum sínum í svörum við nokkrum spurningum Heimspekitorgsins hér að neðan:

Spurning 1: Hvar ert þú að kenna heimspeki? Hvernig er heimspeki byggð inn í skólastarfið? Hvaða áfangar eru kenndir? Er heimspeki valgrein eða skylda á ákveðnum brautum?

Jón: Ég kenni heimspeki í Lauglækjarskóla í Reykjavík.  Ég kom til starfa haustið 2006 þegar ég tók að mér lífsleiknikennslu í skólanum, en lífsleikni kenni ég með heimspekilegri áherslu. Seinna bættist við heimspekival í 9. og 10. bekk sem er með dálítið öðru sniði.

Spurning 2: Hvaða markmið setur þú nemendum í heimspekináminu? Er áherslan á að kynnast ákveðnum spurningum/hugmyndum eða á hugarfærni/sköpun/vinnubrögð? Er kennt um ákveðna heimspekinga og/eða kenningar?

Jón: Í lífsleikni notast ég við opnar spurningar sem láta lítið yfir sér en er auðvelt að sveigja yfir á dýpri mið. Aðalatriðið þar er að nemendur finni að þeir ráði við að ræða stórar spurningar og dýpka lífsskilning sinn í leiðinni. Í heimspekivalinu kenni ég ákveðnar heimspekikenningar/heimspekinga í sögulegu samhengi. Þá reyni ég að einfalda kenningarnar þannig að nemendur séu færir um að gagnrýna þær.

Spurning 3: Hvaða námsefni notar þú?

Jón: Mínar eigin opnu spurningar.

Spurning 4: Hver er virkni nemenda? Hvernig vinna þeir í heimspekitímum?

Jón: Í lífsleikni er sumir fyrirferðarmeiri en aðrir en ég reyni að spyrja þannig spurninga að allir þurfi einhvern tíma að taka afstöðu til þeirra. Í heimspekivalinu skipti ég milli hópavinnu og kynninga með gagnrýnum umræðum allra. Í hópavinnunni leggja allir eitthvað til málanna.

Spurning 5: Hvernig er heimspekinámið metið? Er gefin einkunn? Próf/verkefni/samræða? Annað sem metið er?

Jón: Þetta er metið til vinnueinkunnar og veltur á ýmsu hvort gefið er fyrir vinnubók eða þátttöku í umræðum, oft er þessu blandað saman.

Spurning 6: Annað sem þú vilt taka fram um heimspekikennslu?

Jón: Aðrir kennarar í Laugalækjaskóla hafa tjáð mér að þeim þyki heimspekin hafa góð áhrif á vinnu nemenda í öðrum fögum, að hún geri nemendur færari um að spyrja markvissra spurninga.  Þetta kemur meðal annars fram í bókmenntaumræðum og ritun í íslensku og í náttúrufræðinni horfa nemendur á viðfangsefnin frá víðara sjónarhorni sem ekki er endilega til staðar í námsbókunum.