Heimspekismiðja í 5. og 6. bekk

eftir Brynhildi Sigurðardóttur

Í vetur kenndi ég í fyrsta sinn heimspeki á miðstigi. Ég er kennari í Stapaskóla og kenndi nemendum í 5. og 6. bekk heimspekismiðju, sex tíma á viku (þrjá tvöfalda tíma) í sjö vikur hver hópur. Í hópunum voru 7-12 nemendur og aðrir nemendur í árgöngunum sóttu á sama tíma smiðjur í tækni, list- og verkgreinum.

Ég prófaði alls konar verkefni með krökkunum, sumt gekk herfilega og annað var mjög skemmtilegt. Það sem reyndist erfiðast var að nota „klassískan Lipman“, þ.e. aðferðina hópur les texta – nemendur setja fram spurningar – samræða tvinnuð út frá spurningunum – heimspekilegar æfingar nýttar til dýpkunar. Nemendum gekk illa að tengja við textana og fannst eigin spurningar lítils virði.

Það sem gekk best voru æfingar sem við unnum á hreyfingu og hugtakaskalar. Ég set hér tengla á nokkur af þessum verkefnum:

  • Heimspekileikir/upphitunaræfingar eftir Jóhann Björnsson (https://vefir.mms.is/flettibaekur/namsefni/sextiuogatta_aefingar/). „Hvað er í kassanum“ þjappaði hópunum til dæmis alltaf vel saman.
  • Aðrar æfingar frá Jóhanni reyndust líka vel (sama bók): „Hvað sérðu“ er góð byrjunaræfing í heimspeki, „Málað með sápukúlum“ er mjög skemmtilegt verkefni sem kveikir í hugsun krakkanna og „Hvað ef“ spurningar urðu algjört uppáhaldsverkefni í sumum hópunum, nemendur gátu ekki hætt að búa til nýjar hvað ef spurningar sjálfum sér og hópfélögum til gamans.
  • Þýðingar á skemmtilegum verkefnum frá The Philosophy Man (Jason Buckley) sem finna má í Verkefnabanka Heimspekitorgsins nýttust mér líka mjög vel með 10-11 ára krökkum. Allir hóparnir þjálfuðu einbeitinguna með æfingunni „Ef hundurinn minn væri hestur“. Þessi æfing er erfið til að byrja með en með nokkrum endurtekningum ná krakkar tökum á henni og finnst hún þá mjög skemmtileg.
  • Jason Buckley leggur mikla áherslu á að blanda leik og hreyfingu inn í heimspekikennsluna. Æfing eins og „Að kjósa með fótunum“ er bæði einföld og skemmtileg. Til að fá sem mest út úr heimspekileikjunum er gott að hafa nokkur aðalatriði í huga og þau eru útskýrð í þessum kennsluseðli.
  • Hugtakaskalar eru verkefni sem hafa eiginlega aldrei klikkað hjá mér. Skemmtileg byrjunaræfing er „krúttskalinn“ sem á uppruna sinn hjá Jóhanni Björnssyni eins og fleiri skemmtileg verkefni. En þessa aðferð má síðan laga að hvaða hugtaki sem er. Í vetur vann ég t.d. hugtakaskala um hugtakið „skemmtilegt“ með mörgum af hópunum mínum. Þá byrjaði ég vinnu nemenda með því að láta alla hafa tvo miða. Á annan miðann áttu þeir að skrifa dæmi um eitthvað sem þeim fannst mjög skemmtilegt en á hinn miðann áttu þeir að skrifa dæmi um eitthvað sem þeim fannst alls ekki vera skemmtilegt (leiðinlegt var oftast hinn endinn á skalanum). Ég tók svo miðana, skrifaði þá upp og ruglaði, ritskoðaði og bætti við dæmum til að auka breiddina í umræðunni. Í næsta tíma merktum við svo langa línu yfir þvera stofuna sem við vorum að vinna í, með „skemmtilegt“ á öðrum endanum og „alls ekki skemmtilegt“ á hinum og í miðjunni var ég alltaf með „???“ sem þýddi „veit ekki“ eða „bæði og“. Svo dreifði ég prentuðum miðunum í ruglaðri röð til nemenda, allir komu upp og lásu upp miðann sinn og settu hann þar sem þeim fannst hann eiga að vera á línunni. Í þessari fyrstu umferð lagði ég ekki mikla áherslu á rökstuðning. En í næstu umferð máttu nemendur koma upp og færa miða sem þeim fannst ekki vera rétt staðsettur á línunni. Þá hófst fjörið og nú gerði ég skýra kröfu um að það mætti ekki færa miða nema útskýra mjög vel af hverju.

Ég byrjaði kennslustundir alltaf á einhvers konar upphitun. Ég kenndi krökkunum t.d. að spila SET sem er frábær rökhugsunarleikur. Spilið má kaupa sem spilastokk, t.d. í Spilavinum og þá skipti ég stokknum oft á milli tveggja 4-5 manna hópa. En oftast spilaði hópurinn leikinn saman á netinu, við settum þá þessa síðu upp á stóran snertiskjá og þegar krakkarnir töldu sig hafa fundið set (þrennu) komu þeir upp og snertu spilin. Ef þeir höfðu rangt fyrir sér fögnuðum við því, skoðuðum hvað hefði klikkað svo að hópurinn gæti lært af því. Þegar þeir höfðu rétt fyrir sér voru verðlaunin þau að settið raðaðist til hliðar við spilin. Kostur við þessa vefútgáfu af spilinu er að við vitum alltaf að það eru sex set í borðinu en þegar spilað er með spilastokknum þá getur það komið fyrir að ekkert set finnist í borðinu og þá þarf að bæta við spili í von um að betur gangi.

Að lokum reyndist líka vel að grípa tækifæri sem gáfust. Í tengslum við dag heimspekinnar í nóvember fann ég t.d. mynd sem ég sýndi nemendum. Í góðan hálftíma sögðu þau frá hvað þau sáu í myndinni, báru sig saman og útskýrðu fyrir hvert öðru.

https://www.un.org/en/observances/philosophy-day

Vonandi nýtast þessar ábendingar kennurum sem eru að fara af stað með heimspekikennslu á miðstigi grunnskólans.