Fræðslufundur með Páli Skúlasyni

Á vorönn 2013 hrindir Félag heimspekikennara af stað fræðslufundaröð. Á hverjum fundi er gestafyrirlesari fenginn til að ræða tiltekið málefni eða spurningu.

Fyrsti fundurinn verður haldinn í Verzlunarskóla Íslands 30. janúar, kl. 20, en þá hittir Páll Skúlason félagsmenn til að ræða spurninguna „Hvað er heimspekikennsla?“

Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.

Sjá einnig Facebook síðu viðburðarins:
http://www.facebook.com/events/154949081321013/

Fréttabréf janúar mánaðar

Fréttabréf janúar mánaðar er komið út. Fréttabréfið hefur tekið á sig nýtt útlit en er byggt upp á sama hátt og áður. Meðal efnis er auglýsing um fræðslufund félagsins, viðtöl við framhaldsskólakennara og verkefni ætluð til kennslu í framhaldsskólum, fréttir af degi heimspekinnar og ábendingar um ýmislegt fleira sem tengist heimspekikennslu.

Innleiðing aðalnámskrár

Innleiðingarferli aðalnámskrár 2011 er í fullum gangi. Í skólum er rýnt í grunnþætti menntunar, metið hvort og hvernig gera þurfi breytingar á skólanámskrá, kennsluhættir og námsmat tekið til endurskoðunar. Hópar kennara og skólastjórnenda funda og vinna saman á ýmsan hátt. Heimspekikennarar hafa margt fram að færa í þessu innleiðingarferli því ljóst er að ástundun heimspekilegrar samræðu stefnir að þjálfun margra þeirra hæfniþátta sem aðalnámskráin leggur áherslu á. Brynhildur Sigurðardóttir heimspekikennari í Garðaskóla lýsir tengslum heimspekilegrar samræðu við grunnþætti menntunar í glæru sem má skoða hér. Continue reading Innleiðing aðalnámskrár

Myndbandsviðtal við Jóhann Björnsson

Smám saman bætist í safn Heimspekitorgsins af myndböndum um heimspekikennslu. Nýjustu myndböndin sýna viðtal við Jóhann Björnsson heimspekikennara í Réttarholtsskóla og finna má þau á Youtube í hluta 1 og hluta 2. Myndböndin eru unnin af Einari Kvaran heimspekingi og Arnari Elíssyni doktorsnema í heimspeki og heimspekikennara við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ.

Hátíðarkveðja

Félag heimspekikennara óskar félagsmönnum og öðrum velunnurum heimspekikennslunnar gleðilegrar hátíðar. Við þökkum gott samstarf á árinu 2012 sem var viðburðarríkt og við hlökkum til nýrra spurninga og viðfangsefna á komandi ári. Meðal helstu viðburða voru námskeið með Lizu Haglund í mars, fréttabréf félagsins hóf göngu sína, aðalfundur og námskeið Jóhanns Björnssonar voru haldin í júní, ný stjórn hefur fylgst vel með þróun nýrrar aðalnámskrár allra skólastiga, heimspekilegar æfingar félagsmanna hafa lifað góðu lífi og í október var haldið fjölmennt málþing um barnaheimspeki.

Samræða í Garðaskóla: Fegurð og list

Í vetur kennir Ingimar Waage heimspekival í Garðaskóla. Í hópnum eru nemendur úr 9. og 10. bekk sem hittast tvisvar í viku og glíma við ýmiss konar heimspekilegar spurningar. Viðfangsefni þeirra þessa viku eru list og fegurð. Verkefnið hófst á því að Ingimar sýndi nemendum fimm listaverk: Fountain eftir Duchamp, No. 1 eftir Pollock, Stúlka með perlueyrnalokka eftir Vermeer, Svín í formalíni eftir Hirst og Dauði Hyacinth eftir Broc.

    

Continue reading Samræða í Garðaskóla: Fegurð og list

Heimspekileg æfing 22. nóvember

ATHUGIÐ! Breyttur tími á næstu heimspekilegu æfingu:

Fimmtudaginn 22. nóvember 2012 kl. 20.00 verður heimspekileg æfing í stofu 301 í Gimli, Háskóla Íslands. Kristian Guttesen og Ylfa Björg Jóhannesdóttir munu kynna verkefni sem þau settu saman fyrir nemendur í Háskóla unga fólksins. Verkefnið heitir Borðspilagerð: Heimspeki og sókratísk samræða.

Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.

Samræða um hamingju

Nemendur í 10. bekk við Réttarholtsskóla sem leggja stund á heimspeki taka þátt í svo kölluðu etwinning verkefni, evrópsku samstarfsverkefni skóla þar sem fjallað er um hamingjuna. Þeir hafa nýverið tekið sér góðan tíma til að vega og meta ýmsa þætti sem hafa áhrif þegar um hamingju og óhamingju er að ræða. Í frétt hjá Sísýfos heimspekismiðju má lesa um framvindu samræðunnar.