Viðtal við heimspekikennara: Nanna Hlín Halldórsdóttir

Í október 2012 tók heimspekitorgið viðtal við Nönnu Hlín Halldórsdóttur, heimspekikennara við Menntaskólann í Reykjavík.

Spurning 1: Hvernig er heimspeki byggð inn í skólastarfið í Menntaskólanum í Reykjavík? Hvaða áfangar eru kenndir? Er heimspeki valgrein eða skylda á ákveðnum brautum?

Nanna Hlín: Það er kannski ekki hægt að segja að það sé mikil heimspeki kennd í MR. Ég er að kenna einn valáfanga sem nefnist „Heimspeki og jafnrétti“ á fjórða ári og er í raun nokkuð þverfaglegur heimspekiáfangi sem hefur þar skurðpunkt við samfélagsgreinarnar. Fyrir utan það er einnig kennd fornheimspeki í fornfræði á fjórða ári en ég held að annars sé engin formleg heimspekikennsla í MR.

Spurning 2: Hvaða markmið setur þú nemendum í heimspekináminu? Er áherslan á að kynnast ákveðnum spurningum/hugmyndum eða á hugarfærni/sköpun/vinnubrögð? Er kennt um ákveðna heimspekinga og/eða kenningar?

Nanna Hlín: Ég reyni að einskorða mig við þau heimspekilegu vandamál sem hafa með samfélagið að gera og reyni að kafa dýpra í þau mál frekar en að fara um víðan völl. Markmiðið er ekki að nemendur innbyrði eins mikla þekkingu og hægt er heldur frekar að þau eigi í samræðu um þau málefni sem til umfjöllunar eru.

Ég fer í hugmyndir ákveðinna heimspekinga sem og ákveðnar kenningar en ég er einnig að reyna að taka mið af því sem nemendurnir hafa áhuga á og blanda því inn í námsefnið.

Markmiðin eru helst þau að setja spurningamerki við skoðanir sínar og fullyrðingar sem og öll þau efni í menningunni og lífinu sem við tökum sem sjálfsögð, reyna að staldra við og spyrja hvaðan hugmyndirnar komi. Þetta á bæði við í ræðu og í riti.

Spurning 3: Hvaða námsefni notar þú?

Nanna Hlín: Ég er ekki að kenna neina ákveðna bók, heldur bókarkafla og greinar. Mér hefur fundist Vísindavefurinn ansi notadrjúgur til kennslu. Til að mynda tvenn svör við eðlishyggju og mótunarhyggju, eitt frá kynjafræðingi og annað frá heimspekingi.

Spurning 4: Hver er virkni nemenda? Hvernig vinna þeir í heimspekitímum?

Nanna Hlín: Bæði er um hefðbundna fyrirlestratíma að ræða sem og samræðutíma. Auk þess halda nemendur fyrirlestra þar sem þau eiga að reyna að tengja kenningarnar við umhverfi sitt. Nemendur eru mjög virkir í samræðu og virðast sjá not fyrir þær heimspekilegu hugmyndir sem til umræðu eru.

Spurning 5: Hvernig er heimspekinámið metið? Er gefin einkunn? Próf/verkefni/samræða? Annað sem metið er?

Nanna Hlín: Það eru próf, fyrirlestrar og ritgerð og síðan enda þau á að taka stúdentspróf.

Spurning 6: Annað sem þú vilt taka fram um heimspekikennslu?

Nanna Hlín: Mér þykir ansi mikilvægt að hægt sé að tengja hugmyndir sem til umfjöllunar eru við líf nemenda sem og þýðingu hugmyndanna í samhengi við heimsmálin. Auk þess sýnist mér skipta máli að maður sjálfur þykist ekki vera með Svarið eða Sannleikann með stóru S og leyfi sér að velta fyrir sér öllu, hversu ómerkilegt sem það kann að virðast með nemendum.