Viðtal við heimspekikennara: Ármann Halldórsson

Í október 2012 tók heimspekitorgið viðtal við Ármann Halldórsson, heimspekikennara við Verzlunarskóla Íslands.

 

Spurning 1: Hvernig er heimspekin byggð inn í skólastarfið í Verzlunarskóla Íslands? 

Ármann: Heimspeki er valgrein, einn áfangi sem er kenndur óreglulega – oftast aðra hverja önn, sem sagt hei103. Eins og aðrir áfangar er hann 4 klst. í viku. Að einhverju leyti hafa aðferðir úr smiðju heimspekinnar ratað inn í hina kennslugreinina mína, ensku, einkum í formi notkunar á umræðuhringjum og þá með fókus á siðferðilega og félagslega þætti í bókmenntum. Nýlega lýsti samkennari minn því yfir að þetta væri “uppáhalds kennsluaðferðin” hennar! Útbreiðsla að öðru leyti myndi ég segja litla og þá tilviljanakennda – engin sérstök áhersla er á heimspeki í skólanámskrá; þó gæti verið lag að styrkja stöðu hennar við aðlögun að nýrri námskrá!

Spurning 2: Hvaða markmið setur þú/þið nemendum í heimspekináminu? Er áherslan á að kynnast ákveðnum spurningum/hugmyndum eða á hugarfærni/sköpun/vinnubrögð?

Ármann: Ég held að áherslan liggi báðum megin, en líklega þó fremur á hugarfærni, sköpun og vinnubrögð. Ég hef í auknum mæli hallast að lýðræðislegum vinnubrögðum og ég lét t.d. hópinn sem kenndi síðast í heimspeki velja efnisflokka sem við fórum í. Þar var reyndar um nokkuð stýrt val að ræða, en val engu að síður. Ég nota umræður langmest, og hef verið hrifinn af aðferðum sókratísku samræðunnar. Ég hef jafnframt átt skemmtilegt samstarf við myndlistarkennara og hefur það gefið pælingunum nýja vídd.

Spurning 3: Hvaða námsefni notar þú/þið?

Ármann: Heimspeki fyrir þig, eftir sjálfan mig og Róbert Jack.

Spurning 4: Hver er virkni nemenda? Hvernig vinna þeir í heimspekitímum?

Ármann:  Mér finnst virkni almennt nokkuð góð, enda eru aðferðirnar þess eðlis að nemendur eiga vart aðra úrkosti, auk þess er þetta val svo meirihluti þeirra er áhugasamur.

Spurning 5: Hvernig er heimspekinámið metið?

Ármann: Ég legg mikið upp úr þátttöku og mætingu, en hef jafnframt próf og verkefni sem ég met til einkunna.

Spurning 6: Annað sem þú vilt taka fram um heimspekikennslu?

Ármann: Mér finnst mikilvægt að efla heimspekikennslu, en það er ekki sama með hvaða hætti. Mér finnst að heimspekikennarar eigi að styðja við almenna eflingu lýðræðis og sköpunar í skólunum og samfélaginu. Ég er nokkuð efins um einhliða ákvörðun um að skella upp heimspeki sem námsgrein án þess að huga vel að jarðveginum í skólunum, menntun og þjálfun kennaranna o.s.frv. Ég hef líka mikla trú á eflingu samræðunnar sem kennsluaðferðar í öllum greinum og á öllum skólastigum að heimspekikennarar geti verið mikilvægur liður í slíkri uppbyggingu. Án alls vafa þá er gott færi fyrir heimspekina og aðferðasafn hennar í tengslum við grunnþætti nýrrar námskrár.  Samræðan er valdeflandi, hugeflandi, siðeflandi og síðast en ekki síst skemmtileg!