Kvenheimspekingakaffið heldur áfram

Kvenheimspekingakaffið heldur áframKvenheimspekingakaffi hefst aftur nú á haustmisseri og verður annan hvern fimmtudag.

Eiríkur Smári Sigurðsson heldur fyrsta erindið um „Gyðju Parmenídesar“.

Verið velkomin í Lögberg 103, kl. 15 á fimmtudaginn, 12. september.

Sjá dagskrá haustmisseris í viðhengi.

Gyðja Parmenídesar

Parmenídes, mesti skynsemishyggjumaður forvera heimspekinnar, setur kenningar sínar í munn gyðju sem hann hittir í handanheimum. Hún tekur á móti honum, ungum manninum, og leiðir í allan sannleikann um heiminn. Í kaffi dagsins verður þessi saga skýrð og nokkrar túlkanir á henni ræddar og hún m.a. skoðuð í ljósi annarra frásagna af gyðjum og ungum mönnum sem hitta þær til að læra sannleikann (t.d. Hesíódos og Sókrates). Gyðja Parmenídesar er vissulega ekki heimspekingur í sama skilningi og (flestar) aðrar sem er fjallað um í kvenheimspekikaffinu en hún getur þó varpað ljósi á stöðu kvenna og hins kvenlega í upphafi heimspekisögu Vesturlanda.

Heimspekispjall í Hannesarholti, mánudagskvöldið 9. september klukkan 20:00

Siðfræðikennsla

Salvör Nordal

Í þessu fyrsta heimspekispjalli vetrarins í Hannesarholti munu Salvör Nordal og Henry Alexander Henrysson fást við spurningar um möguleika og mikilvægi siðfræðikennslu. Salvör fjallar um kennslu í hagnýttri siðfræði þar sem umdeild og viðkvæm siðferðileg álitamál eru til umræðu. Í erindi sínu skoðar Henry mismunandi birtingarmyndir siðfræðikennslu, til dæmis á ólíkum skólastigum, og spyr hvort kennsla í siðfræði geti verið kennsla í siðferði.

Henry Alexander Henrysson

Heimspekispjallið er haldið í samstarfi við verkefnið Gagnrýnin hugsun og siðfræði í skólum.

*

Hannesarholt er sjálfseignarstofnun sem er starfrækt í gömlu og fallegu húsi að Grundarstíg 10 í miðborg Reykjavíkur. Markmið stofnunarinnar er að efla jákvæða, gagnrýna hugsun í íslensku samfélagi, auka skilning á gildi sögunnar fyrir samtímann og framtíðina og hvetja til uppbyggilegrar umræðu og samveru.

Ný heimasíða ICPIC

ICPIC, alþjóðasamtök barnaheimspekinga, uppfærðu nýlega heimasíðu sína. Þar má nálgast upplýsingar um ráðstefnu samtakanna sem hefst í Suður-Afriku í byrjun september. Heimasíðan birtir upplýsingar um ýmsar ráðstefnur og námskeið á sviði barnaheimspeki auk þess sem þar verða í boði nokkrir umræðuhópar sem áhugasamir geta skráð sig í.

Andi Sókratesar svífur yfir í Reykjavík á Menningarnótt

Véfréttin hefur spáð fyrir um komu forngríska heimspekingsins Sophiu sem hyggst slá upp tjaldi í hjarta Reykjavíkurborgar á Menningarnótt, næstkomandi laugardag 24. ágúst, og bjóða Íslendingum upp á heimspekilegar samræður í anda Sókratesar.

Býður Sophia áhugasömum upp á einkaspjall og fær hver og einn afmarkaðan tíma.

Hún verður til samtals í Kvosinni við Vesturgötu 5 frá klukkan 16:00 – 18:00 & 19:00 – 21:00.

Hafa vitringar löngum haft áhyggjur af lítilli samræðuhefð Íslendinga.

Í stað málefnalegra samræðna stundi menn almennar hártoganir. Þeir hafa því sammælst um að senda landsmönnum Sophiu í þeirri von að glæða samræðuhefð þeirra nýju lífi.

Fréttabréf ágústmánaðar

Í nýútkomnu Fréttabréfi heimspekikennara birtir stjórn Félags heimspekikennara drög að dagskrá vetrarins. Þar er ótal margt í boði: heimspekilegar æfingar, málfundir, ráðstefnur og námskeið. Auk þess er í fréttabréfinu sagt frá rannsóknarverkefni um heimspekikennslu, ráðstefnu á Akureyri í október og nýafstöðnum umræðufundi um eflingu heimspekikennslu. Að venju eru líka tenglar inn á ný verkefni og miðast þau við upphaf skólastarfs.

Fundur áhugafólks um eflingu heimspekikennslu

Þann 30. júlí síðastliðinn boðuðu áhugasamir aðilar til umræðufundar um stöðu kennslu í heimspeki og siðfræði í íslenskum skólum. Fundurinn var fjölsóttur og var sérlega ánægjulegt að sjá breiðan hóp fólks saman kominn til  leita leiða til að fleiri íslendingar fái notið heimspekikennslu. Fundargerðina má nálgast hér.

Ráðstefna: Lærdómssamfélagið

Lærdómssamfélagið – Samræða allra skólastiga

Ráðstefna um menntamál í Íþróttahöllinni á Akureyri

Kall eftir erindum á málstofur ráðstefnunnar

Þann 4. október n.k. verður haldin ráðstefna á Akureyri á vegum allra skólastiga. Tilgangur ráðstefnunnar er að stuðla að samræðu kennara og stjórnenda af öllum skólastigum um lærdómssamfélagið. Ráðstefnan er haldin á Akureyri og boðuð í öllum símenntunarmiðstöðvum, leik-, grunn-, framhalds- og háskólum á landinu.

Auglýst er eftir erindum fyrir málstofur frá fræðimönnum, kennurum, sérfræðingum skóla, kennsluráðgjöfum, og öðrum áhugasömum aðilum. Sóst er eftir nýlegu efni sem ekki hefur hlotið kynningu áður á ráðstefnum. Einkum er leitað eftir:

  1. Fræðilegri umfjöllun eða frásögnum af birtingarmyndum lærdómssamfélagsins í íslenskum menntastofnunum
  2. Fræðilegri umræðu um tengsl skólastiga
  3. Frásögnum af nýbreytni og þróunarstörfum á öllum skólastigum
  4. Kynningu á nýlegum íslenskum rannsóknum er varða skólastarf

Í hverri málstofu verður 20-30 mínútna erindi auk 20-30 mínútna  til umræðna.

Frestur til að senda inn lýsingu á erindi, að hámarki 300 orð, er til 10. september 2013. Svör um samþykki frá ráðstefnunefnd munu berast fyrir 20. september. Fyrirlesarar á málstofum greiða ekki skráningargjald á ráðstefnuna. Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar hefur umsjón með ráðstefnunni í samvinnu við Akureyrarbæ, aðildarfélög KÍ á Norðurlandi, Miðstöð skólaþróunar HA, framhaldsskólana á Norðurlandi, mennta og menningarmálaráðuneytið.

Allar nánari upplýsingar gefur Heimir Haraldsson í síma 460 5720 eða gegnum netfangið: heimir@simey.is