Andi Sókratesar svífur yfir í Reykjavík á Menningarnótt

Véfréttin hefur spáð fyrir um komu forngríska heimspekingsins Sophiu sem hyggst slá upp tjaldi í hjarta Reykjavíkurborgar á Menningarnótt, næstkomandi laugardag 24. ágúst, og bjóða Íslendingum upp á heimspekilegar samræður í anda Sókratesar.

Býður Sophia áhugasömum upp á einkaspjall og fær hver og einn afmarkaðan tíma.

Hún verður til samtals í Kvosinni við Vesturgötu 5 frá klukkan 16:00 – 18:00 & 19:00 – 21:00.

Hafa vitringar löngum haft áhyggjur af lítilli samræðuhefð Íslendinga.

Í stað málefnalegra samræðna stundi menn almennar hártoganir. Þeir hafa því sammælst um að senda landsmönnum Sophiu í þeirri von að glæða samræðuhefð þeirra nýju lífi.