Viðtal við heimspekikennara: Síðuskóli á Akureyri

Heimspekitorgið tók nýlega viðtal við Sigrúnu Sigurðardóttur sem kennir heimspekival við grunnskólana á Akureyri. Sigrún er kennari í Síðuskóla en valgreinar eru boðnar þvert á skóla til að auka úrval greina sem nemendur geta valið úr. Svör Sigrúnar við nokkrum spurningum Heimspekitorgsins má lesa hér að neðan.

Spurning 1: Hvar ert þú að kenna heimspeki? Hvernig er heimspeki byggð inn í skólastarfið? Hvaða áfangar eru kenndir? Er heimspeki valgrein eða skylda á ákveðnum brautum?

Sigrún: Ég kenni heimspeki við Síðuskóla á Akureyri. Ég kom óvænt inn í heimspekikennsluna í afleysingum vegna veikinda og hafði ekki haft mikinn tíma til þess að setja mig inn í hana en ég naut þess að hafa mjög mikla aðstoð frá Elínu Stephensen sem hafði kennt heimspeki í Síðuskóla í nokkurn tíma. Í rauninni reyndi ég að feta í fótspor hennar og byggja námið upp á sama hátt og hún hafði gert.

Heimspekin er valgrein í boði fyrir 9. og 10. bekk. Á Akureyri er boðið upp á fjölda valgreina sameiginlega fyrir nemendur í öllum skólum bæjarins. Heimspekin er ein af þessum greinum og til mín í tímana í Síðuskóla hafa því komið nemendur úr flestum skólum í bænum. Allt að 20 nemendur í einum hóp en stundum hafa líka verið tveir hópar og fámennari. Sum árin hafa hins vegar ekki nægilega margir valið heimspekina og hún því fallið niður. Þannig er það til dæmis í vetur.

Spurning 2: Hvaða markmið setur þú nemendum í heimspekináminu? Er áherslan á að kynnast ákveðnum spurningum/hugmyndum eða á hugarfærni/sköpun/vinnubrögð? Er kennt um ákveðna heimspekinga og/eða kenningar?

Sigrún: Tímarnir byggja mest á samræðum um lífið og tilveruna. Meginmarkmiðið er að efla með nemendum gagnrýna hugsun. Lögð er áhersla á að nemendur taki þátt í umræðunum og myndi sér skoðanir sem þeir eru tilbúnir til að rökstyðja. Einnig að þeir hlusti hver á annan og temji sér kurteisi þrátt fyrir skoðanaágreining.

Fyrri hluta vetrar hef ég lagt upp ákveðin málefni og hugtök sem nemendur hafa rætt. Ýmsar siðferðilegar spurningar og hver og einn skoðar hvers konar manneskja hann vill verða. Þegar líður á haustið hafa nemendur sjálfir lagt til umræðuefni, undirbúið það og kynnt og stjórnað umræðunum sjálfir. Eftir áramótin hef ég síðan fjallað um nokkra þekkta heimspekinga. Kynnt helstu kenningar þeirra og nemendur hafa valið sér heimspekinga til að kynna sér fjalla um.

Spurning 3: Hvaða námsefni notar þú?

Sigrún: Ég hef notað námsefni úr ýmsum áttum. Mikið ef efni og umfjöllun um heimspekikennslu er að finna á netinu og ég hef reynt að lesa mér til og læra af því hvað aðrir eru að gera. Þá hef ég einnig notað bækur eins og Veröld Soffíu og Hugsi. Einnig hef ég svolitið notað myndbönd og efni sem ætlað er fyrir kennslu í lífleikni.

Spurning 4: Hver er virkni nemenda? Hvernig vinna þeir í heimspekitímum?

Sigrún: Ég reyni að virkja alla nemendur til þess að taka þátt í umræðum. Það gengur auðvitað misvel, sumir eru mjög duglegir að taka til máls á meðan aðrir eru minna virkir í tímum og taka sjaldan til máls af eigin frumkvæði. En allir þurfa að leggja til málefni til umræðu, kynna fyrir hópnum og reyna að skapa umræður um það. Virknin í tímunum er mjög mismunandi eftir því hvort umræðuefnið vekur áhuga nemendanna. Oft á tíðum verða mjög fjörugar og líflegar umræður. Ég hef líka látið nemendur halda nokkurs konar dagbók yfir tímana. Þar sem þeir þurfa að skrifa í lok hvers tíma örlítið um það sem var rætt í tímanum og hvað þeim fannst um það. Sumir sem taka sjaldan til máls í tímum hafa þó greinilega fylgst vel með umræðunni og segja frá skoðunum sínum í dagbókinni.

Spurning 5: Hvernig er heimspekinámið metið? Er gefin einkunn? Próf/verkefni/samræða? Annað sem metið er?

Sigrún: Nemendur fá einkunn heimspekinni. Það eru engin próf og einkunnin byggir mest á frammistöðu í tímum. Bæði virkni og þátttöku í umræðum en líka hvort nemendur hlusta vel og virða skoðanir annarra. Að hluta til er þetta jafningjamat, þá hafa nemendur metið kynningar og frammistöðu hvers annars. Einnig er einkunnin byggð á matslista kennara. Þá eru líka nokkur verkefni yfir veturinn sem þarf að skila.