Heimspeki og spunaspil – Glósur úr fyrirlestri Ármanns Halldórssonar á fræðslufundi Félags heimspekikennara 13. mars 2013

Heimspekileikir – Leikjaheimspeki

eftir Brynhildi Sigurðardóttur og Kristian Guttesen

Ármann Halldórsson

Ármann Halldórsson sagði frá tilraunum sínum til að tvinna saman heimspekikennslu og hlutverkaleiki á þriðja fræðslufundi Félags heimspekikennara sem haldinn var snemma í mars. Fundurinn var vel sóttur af heimspekingum, kennurum og sérfræðingum í hlutverkaleikjum.

Ármann kennir ensku og heimspeki við Verzlunarskóla Íslands. Í vetur gerir hann í fyrsta sinn tilraun til að kenna áfanga um spunaspil (e. role playing games) í þeim tilgangi að spilavæða heimspekinga og heimspekivæða spunaspilin. Ármann tekur með þessu viðbótarskref til að þróa þá heimspekiáfanga sem hann hefur hingað til kennt en þar leggur hann ríka áherslu á praktíska nálgun og nýtir heimspekilega samræðu mjög mikið í kennslunni. Hann telur heimspekinám felast í fimm meginþáttum: sókratískri samræðu, umræðustjórnun, hugtakagreiningu, gagnrýninni hugsun og siðfræði.

Continue reading Heimspeki og spunaspil – Glósur úr fyrirlestri Ármanns Halldórssonar á fræðslufundi Félags heimspekikennara 13. mars 2013

Viðtal við heimspekikennara: Jón Thoroddsen

Jón Thoroddsen kennir heimspeki og lífsleikni í Laugalækjarskóla í Reykjavík. Jón segir okkur nánar frá störfum sínum í svörum við nokkrum spurningum Heimspekitorgsins hér að neðan:

Spurning 1: Hvar ert þú að kenna heimspeki? Hvernig er heimspeki byggð inn í skólastarfið? Hvaða áfangar eru kenndir? Er heimspeki valgrein eða skylda á ákveðnum brautum?

Jón: Ég kenni heimspeki í Lauglækjarskóla í Reykjavík.  Ég kom til starfa haustið 2006 þegar ég tók að mér lífsleiknikennslu í skólanum, en lífsleikni kenni ég með heimspekilegri áherslu. Seinna bættist við heimspekival í 9. og 10. bekk sem er með dálítið öðru sniði. Continue reading Viðtal við heimspekikennara: Jón Thoroddsen

Bloggað um málstofu

Ármann Halldórsson hefur bloggað um fyrirlestur á nýafstöðnu Hugvísindaþingi. Þar hlustaði hann á Nönnu Hlín Halldórsdóttur á málstofunni “Róttæk heimspeki samtímans” og í bloggi sínu dregur Ármann sinn skilning á fyrirlestrinum og umræðum í kjölfarið. Lesið þetta hjá Menntamannsa. Í lok bloggsins lofar Ármann að skrifa næst um fyrirlestur Erlu Karlsdóttur á sömu málstofu.

Viðtal við heimspekikennara: Arnar Elísson

Heimspekitorgið tók nýverið viðtal við Arnar Elísson heimspeking og kennara við Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ.

Spurning 1: Hvar ert þú að kenna heimspeki? Hvernig er heimspeki byggð inn í skólastarfið? Hvaða áfangar eru kenndir? Er heimspeki valgrein eða skylda á ákveðnum brautum?

Arnar: Ég er að kenna heimspeki í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ. Í kringum 240 nemendur sækja skólann og þar vinna um 30 kennarar. Aðferðafræði skólans felst í leiðsagnarmati, þ.e. nemendur fara ekki í stór lokapróf í lok annar. Námið í skólanum er verkefnamiðað og nemendur vinna því stöðugt yfir önnina í verkefnum og fá umsagnir frá kennara. Þetta krefst mikilla samskipta og samvinnu á milli nemenda og kennara.

Í skólanum kenni ég þrjá heimspekiáfanga; Byrjunaráfangi í heimspeki, sem er inngangsáfangi sem hefur það markmið að kynna fyrir nemendum heimspeki sem fræðigrein; Heimspeki og kvikmyndir, sem er áfangi í fagurfræði; og Líf og dauði, sem er áfangi í heilbrigðissiðfræði.

Byrjunaráfangi í heimspeki er eini skylduáfanginn og þurfa nemendur á félagsfræðibraut að taka hann, hinir áfangarnir eru valgreinar. Continue reading Viðtal við heimspekikennara: Arnar Elísson

Heimspekileg samræða í forvarnarstarfi

Einar Kvaran heimspekingur fékk síðastliðið sumar styrk frá Forvarnarsjóði Reykjavíkur til að vinna verkefnið Frívaktin í félagsmiðstöðinni Frostaskjóli. Verkefnið hefur það að markmiði að nýta heimspekilega samræðu í forvarnarskyni og kanna hversu öflugt tæki slík samræða er í þessu samhengi. Einar fékk Félag heimspekikennara til samstarfs við undirbúning umsóknar um verkefnið. Eftir að styrkur var veittur snemma hausts 2012 var skipuð verkefnisstjórn sem í sitja fulltrúar úr stjórn félagsins og Frostaskjóli auk Einars. Elsa Haraldsdóttir hefur nú gengið til samstarfs við verkefnastjórnina og hér að neðan segja þau Einar og Elsa frá stöðu verkefnisins: Continue reading Heimspekileg samræða í forvarnarstarfi

Heimspeki, fantasíur og furðusögur

Fimmtudaginn 7. mars verður heimspekileg uppákoma á vegum Félags áhugamanna um heimspeki á veitingahúsinu Sólon í Bankastræti. Þrír fyrirlesarar munu setja fantasíur, furðusögur og vísindaskáldskap í heimspekilegt og fræðilegt samhengi og væntanlega fá gestir tækifæri til að bregðast við. Fyrirlesararnir eru Arnar Elísson heimspekingur, Arngrímur Vídalín íslenskufræðingur og Nanna Hlín Halldórsdóttir heimspekingur. Nánari upplýsingar má finna á Facebook síðu viðburðarins.

Fyrirlestraröð um kvenheimspekinga: Damaris Masham

Fimmtudaginn 7. mars kl. 15 í Árnagarði stofu 201 kynnir Henry Alexander Henryson heimspekinginn Damaris Masham (fædd Cudworth) (1658-1708). Hennar er minnst í samtímanum fyrir að hafa verið fyrsta konan á Bretlandseyjum til að gefa út heimspekileg verk en þau voru prentuð undir nafnleynd um aldamótin 1700. Hennar er einnig minnst fyrir nána vináttu hennar við John Locke og bréfaskipti við Leibniz. Í erindinu fjallar Henry um helstu einkenni hugsunar Damaris og þau áhugaverðu tengsl sem hún hafði við heimspekiþróun á seinni hluta sautjándu aldar og í byrjun þeirrar átjándu.