Hugleiðingar um fyrirlestur Hildigunnar Sverrisdóttur „Skapandi dvelur manneskjan: er hægt að kenna henni það?“ á aðalfundi Félags heimspekikennara, 25. maí 2013
eftir Elsu Haraldsdóttur
Á aðalfundi Félags heimspekikennara, þann 25. maí síðastliðinn, var boðið upp á námskeið undir leiðsögn Hidigunnar Sverrisdóttir, arkitekts og aðjúnkts við Listaháskóla Íslands. Námskeiði var í fyrirlestrarformi og bar heitið „Skapandi dvelur manneskjan: er hægt að kenna henni það?“ en tititillinn vísar í ritgerð þýska heimspekingsins Heideggers, „“…Poetically man dwells…”“. Í fyrirlestrinum tók Hildigunnur hvert hugtak titilsins fyrir sig, „manneskjan“, „dvelur“ og „skapandi“ og varpaði þannig ljósi á hugmyndafræðina sem þar liggur að baki og samtímis reyndi að tengja þau saman í heildstæða mynd. Markmið námskeiðsins var að kynna fyrir þátttakendum ákveðna hugmyndir um manneskjuna og samfélagið í anda gagnrýninnar kenningar. Fyrirlesturinn var mjög efnismikill og heljarinnar ferðalag í gegnum tiltölulega flókið hugmyndakerfi en hin þverfaglega nálgun á viðfangsefnið var einkum áhugaverð. Fyrirlesturinn, í anda viðfangsefnis síns, vakti fleiri spurningar en svör en fyrir vikið væri einkar áhugvert að taka upp þráðinn og gefa kost á ítarlegri umræðum um efnið ef áhugi er fyrir því á meðal aðstandenda.