Sjónarhornið

Hugleiðingar um fyrirlestur Hildigunnar Sverrisdóttur „Skapandi dvelur manneskjan: er hægt að kenna henni það?“ á aðalfundi Félags heimspekikennara, 25. maí 2013

eftir Elsu Haraldsdóttur

Á aðalfundi Félags heimspekikennara, þann 25. maí síðastliðinn, var boðið upp á námskeið undir leiðsögn Hidigunnar Sverrisdóttir, arkitekts og aðjúnkts við Listaháskóla Íslands. Námskeiði var í fyrirlestrarformi og bar heitið „Skapandi dvelur manneskjan: er hægt að kenna henni það?“ en tititillinn vísar í ritgerð þýska heimspekingsins Heideggers, „“…Poetically man dwells…”“. Í fyrirlestrinum tók Hildigunnur hvert hugtak titilsins fyrir sig, „manneskjan“, „dvelur“ og „skapandi“ og varpaði þannig ljósi á hugmyndafræðina sem þar liggur að baki og samtímis reyndi að tengja þau saman í heildstæða mynd. Markmið námskeiðsins var að kynna fyrir þátttakendum ákveðna hugmyndir um manneskjuna og samfélagið í anda gagnrýninnar kenningar. Fyrirlesturinn var mjög efnismikill og heljarinnar ferðalag í gegnum tiltölulega flókið hugmyndakerfi en hin þverfaglega nálgun á viðfangsefnið var einkum áhugaverð. Fyrirlesturinn, í anda viðfangsefnis síns, vakti fleiri spurningar en svör en fyrir vikið væri einkar áhugvert að taka upp þráðinn og gefa kost á ítarlegri umræðum um efnið ef áhugi er fyrir því á meðal aðstandenda.

Hér langar mig hins vegar að reyna að beina sjónum að og fanga eitthvert eitt undirliggjandi þema eða þráð í umfjöllun Hildigunnar. En eins og áður sagði mátti skilja undirliggjandi tón fyrirlestrarins sem svo að vekja áheyrendur til umhugsunar um það hvernig við nálgumst veruleikann, á hvaða forsendum og í hvaða tilgangi. Hlutverk gagnrýninnar kenningar er að taka samfélagsskipanina til gagngerrar endurskoðunar. Að fara út fyrir ramma þess þekkta og fyrirsjáanlega. Að staðsetja okkur fyrir utan þau hugmyndakerfi sem við búum við og teljum óhagganleg, höggvin í stein eða einhverskonar náttúrlögmál. Við nánari skoðun virðast þau vera okkar eigið sköpunarverk og viðhaldið af okkur sjálfum. Í fyrirlestrinum varpaði Hildigunnur ljósi á hvernig samfélag í þessum anda veður til og hvers vegna. Þá er hlutverk okkar jafnframt að vera meðvituð um og þekkja þessar forsendur; að þekkja og bera kennsl á forræðishyggjuna, valdníðsluna og ofuráhersluna á arðbæra lifnarðarhætti.

Flestir eru eflaust sammála því að við viljum fá sem mest út úr lífinu. Flestir eru einnig eflaust sammála því að fá sem mest út úr samfélaginu í heild sinni, með einhverskonar framþróun að markmiði. En hugsuði greinir á þegar meta á þennan ávinning. Hvernig er hægt að setja sér það markmið að ávinningurinn sé sem mestur ef það er ekki hægt að bera kennsl á hann? Þess vegna telja margir að eini ávinningurinn sé sá sem hægt er að bera kennsla á og er mælanlegur. En þegar við horfum fyrst og fremst til hins mælanlega þá gerum við þá kröfu til hlutanna að þeir séu samanburðarhæfir. Þannig verður til ofuráhersla á rökhugsun og „mælanlega þáttinn“. En er það réttlætanlegt sjónarhorn á kostnað alls annars? Er það endilega rétt að stefna alltaf línulega fram á við? Er ekki jafnvel eitthvað í tilverunni sem er ávinningur í sjálfu sér og jafnframt ómælanlegt?

Það er afstaða okkar og sjónarhornið sem skiptir öllu máli í þessu samhengi. Þannig er það sjónarhornið sem verður meginkjarni fyrirlestursins; sjónarhornið og leitin að merkingarbærum veruleika. Í fyrirlestrinum tók Hildigunnur áheyrendur út fyrir hinar hefðbundnu orðræðu um manneskjuna í samfélaginu. Burt frá orðræðu hversdagsins, hvort sem það var frá hinni pólitísku orðræðu ríkiststjórnarskiptanna eða afþreyingarumræðunni. Þannig togaði hún áheyrendur frá hefbundnum sjónarhóli sínum út fyrir mengið. Smám saman fór maður að skoða samfélagið, manninn, sig sjálfan, utanfrá – eða ofanfrá. Þannig fór maður að skoða veruleikann með hennar augum, með augum arkitektsins – en ekki bara hans heldur með mörgum öðrum augum samtímis; með augum arkitektsinns, róttæka heimspekingsins og samfélagsrýnisins, með það að markmiði „að skilja á mörgum tungumálum samtímis“. Þar birtist hin þverfaglega nálgun. Það er í þeirri nálgun að það að sameina ólík sjónarhorn geti gefið mun dýpri eða skýrari sýn á viðfangsefnið. Oft getur þörf okkar til að flokka og sundurgreina þekkinguna á veruleikanum, sbr. til dæmis fög og námsleiðir, staðið í vegi fyrir því að við sjáum hlutina í heildrænna samhengi – eða að við náum utan um þá í víðara samhengi. Sérfræðiþekking er góð og gild og nauðsynleg sem slík. En sú nálgun á er hins vegar ein af mörgum. Það er ekki náttúrulögmál að aðgreina nám í stærðfræði og íslensku, svo dæmi sé nefnt, heldur er það okkar „mannlega“ ákvörðun. Með hagkvæmnissjónarmið að leiðarljósi. En hagkvæmt í hvaða skilningi?

Útsýnisstaðurinn ræður miklu um hvað við sjáum.

Elsa Haraldsdóttir