Námskeið um gagnrýna hugsun og grunnþætti menntunar á vegum Félags heimspekikennara

eftir Sigurlaugu Hreinsdóttur

Grunnþættir menntunarÉg hef nýlokið við að sitja námskeiðið „Gagnrýnin hugsun og grunþættir menntunar“ í Endurmenntun HÍ á vegum Félags heimspekikennara, dagana 31. maí – 3. júní, og langar að deila reynslu minni með lesendum Heimspekitorgs.

Þetta námskeið var skipulagt af formanni félagsins, Kristian Guttesen, á alveg listilegan hátt en hann var umsjónarmaður þess. Bæði heildarmyndin og bútarnir sem hún var samansett úr komu mér þægilega á óvart. Ég fylgdist með skipulaginu úr fjarlægð og verð að segja að ég er full aðdáunar.

Þarna voru samankomnir sex sérfræðingar innan okkar raða sem voru hver öðrum flinkari við að kveikja áhuga þátttakenda og vekja þá til umhugsunar. Hver einasti tími fangaði áhuga minn og athygli. Þá bar samfellan á milli framlags sérfræðinganna vott um bæði óeigingirni og umhyggju þeirra fyrir bæði heildarmyndinni og kollegum sínum. Allir virtust svo vel meðvitaðir um staðsetningu sína innan heildarmyndarinnar.

Þátttakendur drógust inn í viðfangsefnið af áhuga, voru sérstaklega virkir og tóku mikinn þátt í því að miðla þekkingu með öflugum samræðum þar sem tekist var á um sannleikann og urðu þær kraftmeiri eftir því sem leið á námskeiðið og traustið innan hópsins jókst.

Henry Alexander Henrysson gaf tóninn á föstudeginum með góðu yfirliti yfir hvað gagnrýnin hugsun er og vakti menn til umhugsunar um hugsanlegar skaðlegar birtingarmyndir þess ef gagnrýna hugsun skortir. Í kjölfarið reið Ólafur Páll Jónsson á vaðið, hann var örlítil sókratísk broddfluga þar sem hann fékk okkur til að lýsa með fögrum orðum hvernig við stunduðum lýðræðislega kennslu en benti okkur með lagni á að þetta var ekki eins lýðræðislegt og okkur fannst í fyrstu. Hann skoðaði með okkur lýðræðishugmyndina sem virtist á köflum nokkuð róttæk en samt svo sönn.

Á laugardeginum kom Brynhildur Sigurðardóttir og kenndi okkur bæði hugmyndafræðileg og tæknileg atriði samræðunnar, hún gaf okkur tæki til að nýta í kennslustofunni. Þá snerist samræðan um læsi, og viti menn, hvað margt áhugavert kom fram varðandi það. Eftir það mætti Þóra Björg Sigurðardóttir á svæðið með feminíska gagnrýni á heimspekihefðina, sem leiddi umræðuna að hugsanlegum ranghugmyndum í menningunni. Þar sem við vorum nýbúin að hita okkur upp í samræðunni með Brynhildi þá fór þetta hitamál að miklu leyti fram í samræðu milli þátttakenda og við kennara, margvísleg þekking birtist og myndaðist í hópnum í kringum efnið. Þóra Björg gaf okkur nægar upplýsingar til að moða úr og tímanum lauk með virkilega skemmtilegu hópverkefni.

Síðasta daginn, eða á mánudeginum, hóf Einar Kvaran daginn með tónlistarlegum innblæstri. Hann vísaði í samhljóm Platóns bæði í samfélagi og innra með hverri manneskju. Hann færði okkur nær okkar manneskjulegu hlið og vakti upp ákveðna einlægni í hópnum og mikilvægum spurningum var velt upp. Í lokin dró Elsa Haraldsdóttir saman námskeiðið. Hún fjallaði um hvernig við beitum gagnrýninni hugsun á siðfræðileg álitamál. Hún lagði fram skilgreiningar á hugtakinu „siðfræði“ og tengdum hugtökum. Þar var tekist á um siðfræðileg álitamál og allir óhræddir við að viðra skoðun sína, enda hlotið markvissa þjálfun í því yfir námskeiðstímann.

Þátttakendur voru ánægðir og virtust hafa fengið heilmikið út úr námskeiðinu, alla vega ég. Ég tek undir orð eins þeirra sem í lokin talaði um hversu gott það væri að geta talað svona hreinskilningslega út og tekist á í hópi án þess að verið sé að festa við mann ákveðnar skoðanir. Þroskandi ferli.

Sigurlaug Hreinsdóttir