Viðtal við heimspekikennara: Arnar Elísson

Heimspekitorgið tók nýverið viðtal við Arnar Elísson heimspeking og kennara við Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ.

Spurning 1: Hvar ert þú að kenna heimspeki? Hvernig er heimspeki byggð inn í skólastarfið? Hvaða áfangar eru kenndir? Er heimspeki valgrein eða skylda á ákveðnum brautum?

Arnar: Ég er að kenna heimspeki í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ. Í kringum 240 nemendur sækja skólann og þar vinna um 30 kennarar. Aðferðafræði skólans felst í leiðsagnarmati, þ.e. nemendur fara ekki í stór lokapróf í lok annar. Námið í skólanum er verkefnamiðað og nemendur vinna því stöðugt yfir önnina í verkefnum og fá umsagnir frá kennara. Þetta krefst mikilla samskipta og samvinnu á milli nemenda og kennara.

Í skólanum kenni ég þrjá heimspekiáfanga; Byrjunaráfangi í heimspeki, sem er inngangsáfangi sem hefur það markmið að kynna fyrir nemendum heimspeki sem fræðigrein; Heimspeki og kvikmyndir, sem er áfangi í fagurfræði; og Líf og dauði, sem er áfangi í heilbrigðissiðfræði.

Byrjunaráfangi í heimspeki er eini skylduáfanginn og þurfa nemendur á félagsfræðibraut að taka hann, hinir áfangarnir eru valgreinar. Continue reading Viðtal við heimspekikennara: Arnar Elísson

Heimspekileg samræða í forvarnarstarfi

Einar Kvaran heimspekingur fékk síðastliðið sumar styrk frá Forvarnarsjóði Reykjavíkur til að vinna verkefnið Frívaktin í félagsmiðstöðinni Frostaskjóli. Verkefnið hefur það að markmiði að nýta heimspekilega samræðu í forvarnarskyni og kanna hversu öflugt tæki slík samræða er í þessu samhengi. Einar fékk Félag heimspekikennara til samstarfs við undirbúning umsóknar um verkefnið. Eftir að styrkur var veittur snemma hausts 2012 var skipuð verkefnisstjórn sem í sitja fulltrúar úr stjórn félagsins og Frostaskjóli auk Einars. Elsa Haraldsdóttir hefur nú gengið til samstarfs við verkefnastjórnina og hér að neðan segja þau Einar og Elsa frá stöðu verkefnisins: Continue reading Heimspekileg samræða í forvarnarstarfi

Hvað er heimspekikennsla? – Glósur úr fyrirlestri Páls Skúlasonar í Félagi heimspekikennara 30. janúar 2013

Heimspekikennarar á yngri skólastigum velta oft fyrir sér sömu spurningunum: Hvernig er hægt að virkja nemendur? Hvernig er hægt að koma í gang heimspekilegri umræðu í skólastofunni? Er ástæða til að kenna um sögu heimspekinnar, löngu dauða kalla, í grunnskóla og framhaldsskóla? Hvernig á að meta árangur af heimspekikennslunni, hvenær hefur hún heppnast vel og hvenær ekki? Allar spurningarna mætti draga saman í eina: Hvað er eiginlega heimspekikennsla?

Continue reading Hvað er heimspekikennsla? – Glósur úr fyrirlestri Páls Skúlasonar í Félagi heimspekikennara 30. janúar 2013

Fræðslufundur með Páli Skúlasyni

Á vorönn 2013 hrindir Félag heimspekikennara af stað fræðslufundaröð. Á hverjum fundi er gestafyrirlesari fenginn til að ræða tiltekið málefni eða spurningu.

Fyrsti fundurinn verður haldinn í Verzlunarskóla Íslands 30. janúar, kl. 20, en þá hittir Páll Skúlason félagsmenn til að ræða spurninguna „Hvað er heimspekikennsla?“

Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.

Sjá einnig Facebook síðu viðburðarins:
http://www.facebook.com/events/154949081321013/

Fréttabréf janúar mánaðar

Fréttabréf janúar mánaðar er komið út. Fréttabréfið hefur tekið á sig nýtt útlit en er byggt upp á sama hátt og áður. Meðal efnis er auglýsing um fræðslufund félagsins, viðtöl við framhaldsskólakennara og verkefni ætluð til kennslu í framhaldsskólum, fréttir af degi heimspekinnar og ábendingar um ýmislegt fleira sem tengist heimspekikennslu.

Hátíðarkveðja

Félag heimspekikennara óskar félagsmönnum og öðrum velunnurum heimspekikennslunnar gleðilegrar hátíðar. Við þökkum gott samstarf á árinu 2012 sem var viðburðarríkt og við hlökkum til nýrra spurninga og viðfangsefna á komandi ári. Meðal helstu viðburða voru námskeið með Lizu Haglund í mars, fréttabréf félagsins hóf göngu sína, aðalfundur og námskeið Jóhanns Björnssonar voru haldin í júní, ný stjórn hefur fylgst vel með þróun nýrrar aðalnámskrár allra skólastiga, heimspekilegar æfingar félagsmanna hafa lifað góðu lífi og í október var haldið fjölmennt málþing um barnaheimspeki.

Heimspekileg æfing 22. nóvember

ATHUGIÐ! Breyttur tími á næstu heimspekilegu æfingu:

Fimmtudaginn 22. nóvember 2012 kl. 20.00 verður heimspekileg æfing í stofu 301 í Gimli, Háskóla Íslands. Kristian Guttesen og Ylfa Björg Jóhannesdóttir munu kynna verkefni sem þau settu saman fyrir nemendur í Háskóla unga fólksins. Verkefnið heitir Borðspilagerð: Heimspeki og sókratísk samræða.

Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.

Vel heppnað málþing

Laugardaginn 13. október hélt Félag heimspekikennara í samstarfi við verkefnið Efling gagnrýninnar hugsunar og siðfræði í skólum málþingið Hver er heimspekin í barnaheimspekinni? Málþingið sóttu um 60 manns, heimspekingar og kennarar af öllum skólastigum. Þór Saari opnaði þingið og sagði frá þingsályktunartillögu sem hann lagði nýlega fyrir Alþingi ásamt fleiri þingmönnum um heimspeki sem skyldunámsgrein í grunn- og framhaldsskólum. Á málþinginu voru flutt 9 erindi þar sem fjallað var um heimspekikennslu á fræðilegan hátt auk þess sem skemmtileg reynsludæmi voru lögð fram. Hreinn Pálsson skólastjóri Heimspekiskólans frumsýndi nokkur myndbönd þar sem Matthew Lipman svarar spurningum um grundvallaratriði í barnaheimspeki. Viðtölin við Lipman voru tekin upp sumarið 1992 þegar Lipman heimsótti Ísland ásamt Ann Margaret Sharp og fleiri frumkvöðlum barnaheimspekinnar. Continue reading Vel heppnað málþing