Heimspekileg samræða í forvarnarstarfi

Einar Kvaran heimspekingur fékk síðastliðið sumar styrk frá Forvarnarsjóði Reykjavíkur til að vinna verkefnið Frívaktin í félagsmiðstöðinni Frostaskjóli. Verkefnið hefur það að markmiði að nýta heimspekilega samræðu í forvarnarskyni og kanna hversu öflugt tæki slík samræða er í þessu samhengi. Einar fékk Félag heimspekikennara til samstarfs við undirbúning umsóknar um verkefnið. Eftir að styrkur var veittur snemma hausts 2012 var skipuð verkefnisstjórn sem í sitja fulltrúar úr stjórn félagsins og Frostaskjóli auk Einars. Elsa Haraldsdóttir hefur nú gengið til samstarfs við verkefnastjórnina og hér að neðan segja þau Einar og Elsa frá stöðu verkefnisins: Continue reading Heimspekileg samræða í forvarnarstarfi

Heimspeki, fantasíur og furðusögur

Fimmtudaginn 7. mars verður heimspekileg uppákoma á vegum Félags áhugamanna um heimspeki á veitingahúsinu Sólon í Bankastræti. Þrír fyrirlesarar munu setja fantasíur, furðusögur og vísindaskáldskap í heimspekilegt og fræðilegt samhengi og væntanlega fá gestir tækifæri til að bregðast við. Fyrirlesararnir eru Arnar Elísson heimspekingur, Arngrímur Vídalín íslenskufræðingur og Nanna Hlín Halldórsdóttir heimspekingur. Nánari upplýsingar má finna á Facebook síðu viðburðarins.

Fyrirlestraröð um kvenheimspekinga: Damaris Masham

Fimmtudaginn 7. mars kl. 15 í Árnagarði stofu 201 kynnir Henry Alexander Henryson heimspekinginn Damaris Masham (fædd Cudworth) (1658-1708). Hennar er minnst í samtímanum fyrir að hafa verið fyrsta konan á Bretlandseyjum til að gefa út heimspekileg verk en þau voru prentuð undir nafnleynd um aldamótin 1700. Hennar er einnig minnst fyrir nána vináttu hennar við John Locke og bréfaskipti við Leibniz. Í erindinu fjallar Henry um helstu einkenni hugsunar Damaris og þau áhugaverðu tengsl sem hún hafði við heimspekiþróun á seinni hluta sautjándu aldar og í byrjun þeirrar átjándu.

Fræðslufundur 20. febrúar

Annar fræðslufundur Félags heimspekikennara verður 20. febrúar, kl. 20:00, þá heimsækir Erla Karlsdóttir félagið en erindi hennar nefnist „Um stöðu námsbóka Námsgagnastofnunar gagnvart sex grunnþáttum menntunar.“ Fundurinn fer fram í Verzlunarskóla Íslands og allir eru velkomnir.

Sjá nánar á Facebook síðu viðburðarins.

Kvenheimspekingar koma í kaffi

Námsbraut í heimspeki við Háskóla Íslands hóf í janúar fyrirlestraröðina Kvenheimspekingar koma í kaffi. Boðið er upp á erindi um einn kvenheimspeking hverju sinni og kaffi með. Viðburðir fara fram á fimmtudögum kl. 15-16 í stofu 201 í Árnagarði. Allir eru velkomnir.

Nú á fimmtudaginn 14. febrúar mun Gunnar Harðarson kynna Christine de Pizan (1364-1431) sem var skáld, rithöfundur og heimspekingur sem nú er einna þekktust fyrir Bókina um borg kvenna (Le livre de la cité des dames)sem skrifuð var á árunum 1404-1407. Christine de Pizan hrekur þar alls kyns ranghugmyndir um konur sem fram koma í bókmennta- og hugmyndasögunni og sýnir fram á að konur hafi, geti og eigi sjálfar að láta til sín taka á opinberum vettvangi. Continue reading Kvenheimspekingar koma í kaffi

Frjáls félagasamtök

Samtökin Almannaheill og Fræðasetur þriðja geirans við Háskóla Íslands halda fund undir yfirskriftinni Hvaða gagn gera frjáls félagasamtök? Þriðjudaginn 12. febrúar kl. 12.15-13.45 í fyrirlestrarsal M101 í Háskólanum í Reykjavík. Á fundinum verða flutt erindi um hlutverk félagasamtaka í lýðræðissamfélagi og fundargestum gefst tími til að spyrja fyrirlesara nánar um efnið. Fundurinn er öllum opinn og nánari dagskrá má lesa hér.