Viðtal við heimspekikennara: Ragnheiður Eiríksdóttir

Í janúar 2013 tók Heimspekitorgið viðtal við Ragnheiði Eiríksdóttur, heimspekikennara við Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi.

Spurning 1: Hvernig er heimspeki byggð inn í skólastarfið í Fjölbrautaskóla Suðurlands? Hvaða áfangar eru kenndir? Er heimspeki valgrein eða skylda á ákveðnum brautum?

Ragnheiður: Heimspeki 103 er skylduáfangi á Félagsfræðibraut en valgrein fyrir aðra. Svo geta nemendur bætt við sig heimspeki 203 og 303 og haft þá heimspeki sem kjörsvið.

Spurning 2: Hvaða námsefni notar þú?

Ragnheiður: Í heimspeki 103 og 203 hef ég notað kennslubókina Heimspeki fyrir þig eftir Ármann Halldórsson og Róbert Jack ásamt aukaefni. Í heimspeki 303 hef ég eiginlega ekki haft kennslubók heldur haft það að markmiði að nemendur lesi viðráðanlega texta eftir heimspekingana sjálfa og þá látið áhuga nemenda ráða að hluta til ferðinni við val á efni. Ég hef reyndar tvisvar notað bókina Leitin að tilgangi lífsins eftir Viktor Frankl sem hluta af námsefninu og hef yfirleitt byrjað áfangann á að láta nemendur lesa greinina Hugsanir á dósum eftir Eyju Margréti Brynjarsdóttur.

Spurning 3: Hver er virkni nemenda? Hvernig vinna þeir í heimspekitímum?

Ragnheiður: Það getur verið margvíslegt. Allt frá því að taka þátt í umræðum og yfir í hlutverkaleiki, lífstilraunir og heimildaþáttagerð. En vissulega er það áskorun að ná að hafa nemendur sem mest virka í tímum og það er nokkuð sem ég er alltaf að reyna að auka í kennslunni hjá mér.

Spurning 4: Hvernig er heimspekinámið metið? Er gefin einkunn? Próf/verkefni/samræða? Annað sem metið er?

Ragnheiður: Heimspeki 103 og 303 eru símatsáfangar þar sem verkefni, ritgerðir og kaflapróf eru metin til lokaeinkunnar. Í heimspeki 203 er lokapróf. Í öllum áföngunum er virkni hluti af einkunninni. Kaflaprófin eru nokkuð sem ég er í sjálfu sér ekki svo hrifin af, þau prófa þekkingaratriði úr kennslubókinni og eru gerð til að tryggja að nemendur lesi hana til að fá grunninn sem þarf til að geta unnið á meira skapandi og sjálfstæðan hátt með efnið í verkefnum. Verkefnin eru mjög ólík og fjölbreytt. Þar má m.a. nefna kvikmyndagreiningu, siðferðisleg réttarhöld í hlutverkaleik um persónur í kvikmynd, lífstilraun þar sem nemendur prófa að lifa samkvæmt heimspekinni og glíma við klípusögur á kaffihúsi.

Spurning 5: Annað sem þú vilt taka fram um heimspekikennslu?

Ragnheiður: Mér þykir heimspekikennslan svakalega skemmtileg og gefandi og heldur mér stöðugt virkri í minni leit að sannleikanum.