Viðtal við heimspekikennara: Helga María Þórarinsdóttir

Í ágúst 2012 tók heimspekitorgið stutt viðtal við Helgu Maríu Þórarinsdóttur, heimspekikennara á leikskólanum Lundarseli á Akureyri.

Spurning 1: Hvernig er heimspekin byggð inn í skólastarfið í Lundarseli? Er hún sérstök námsgrein? Byggð inn í daglegt starf eða notuð sem kennsluaðferð? Hversu oft í viku er hún kennd?

Helga María: Stefna skólans er að vinna með barnaheimspeki og ákveður hver hópstjóri hvaða samræðustökkpallur er notaður. Barnaheimspeki er iðkuð markvisst í hópastarfi og flýtur um í leik og starfi skólans.

Við trúum því að börnin læri mest með því að gera hlutina sjálf og uppgötva með því að spjalla, snerta, skynja og upplifa. Við viljum hvetja leikskólabörnin til að halda í þann hæfileika að undrast um lífið og spyrja óhikað spurninga. Heimspekin er ekki beint sérstök námsgrein – heldur svona áhersla, sýn á leikskólabarnið og starfið okkar.

Hversu oft heimspekin er kennd, það er að segja í skipulögum hópastarfstímum, fer eilítið eftir hópstjóranum en ætlast er til þess að hefðbundin heimspekistund eigi sér stað að minnsta kosti einu sinni í viku með 4 og 5 ára börnunum. Þriggja ára börnin eru hjá okkur í einskonar heimspekiforæfingum. Þau læra að skiptast á að tala, taka eftir hvað hinn er að segja og svo framvegis. Annars eiga samræðurnar sér stað hér og þar í leikskólanum, þegar tækifæri gefast og flest börnin kunna orðið þennan „leik“ og því þarf ekki alltaf að hafa hefbundinn ramma utan um samræðuna.

Spurning 2: Hvaða markmið setjið þið nemendum í heimspekináminu? Er áherslan á að kynnast ákveðnum spurningum/hugmyndum eða á hugarfærni/sköpun/vinnubrögð?

Helga María: Aðalmarkmiðið er að hafa gaman saman. Það er svo gaman að gleyma sér í samræðunni, spá og spekúlera og læra hvert af öðru í leiðinni, nú eða skilja eitthvað betur. En við teljum okkur verða að stuðla að skapandi, gagnrýnni og umhyggjusamri hugsun meðal barnanna á Lundarseli með því að ástunda barnaheimspeki. Við notum opnar spurningar, hvetjum börnin til að rannsaka málin og skoða þau frá öllum hliðum þannig að þau átti sig á margbreytileikanum. Með spurningum heimspekivinnunnar og vangaveltum hennar eykst skilningur barnanna á sjálfum sér og öðrum. Vinnan vekur upp og/eða viðheldur undrun og forvitni barnanna, þannig að þau kynnast nýjum hlutum og hugmyndum. Með heimspekivinnu uppgötva börnin líka á áhrifaríkan hátt þau viðmið, gildi og reglur sem ríkja.

Áherslan er að börnin læri reglur samræðunar og beri virðingu fyrir henni. En auðvitað er aðalmálið að það ríki samræður á milli barnanna og það sé verið að kljást við eitthvað, að börnin séu að tala saman. Hópstjórar fylgjast með atriðum eins og tekur barnið þátt, kemur barnið með dæmi máli sínu til stuðning og svo framvegis. Einnig tekur kennarinn upp flestar samræður á diktafón og hlustar því á samræðuna eftir á. Við skrifum bestu samræðurnar upp á blað til sýnis fyrir starfsfólk, foreldra og fleiri. Þetta hjálpar okkur líka til að finna framvindu eða hvort halda eigi áfram með hugmyndirnar.

Spurning 3: Hvaða námsefni notið þið?

Helga María: Við notum allskonar samræðustökkpalla. Við byrjum oftast á haustin með eitthvað sem hópstjórar hafa undirbúið sjálfir en svo finnum við út hvað höfðar til barnahópsins, hóparnir eru oft ólíkir frá ári til árs og þema samræðunar í stíl við það. Við notum enn kennsluleiðbeiningar okkar með íslenskum barnabókmenntum sem við í skólanum hnoðuðum saman fyrir nokkrum árum. (Þróunarverkefni leikskólans Lundarsels 1999-2001).

Undanfarin ár hafa 4 ára börnin farið í gegnum bókina Þegar Friðrik varð Fríða. Efni bókarinnar er tengt jafnrétti kynjanna, en kennarar skólans gerðu kennsluleiðbeiningar með þeirri bók. Svo notum við til dæmis söguna um hana Bukollu og þá er gaman að nota orðalotto með, tengja þannig forlestur og samræðuna saman. Við notum ljósmyndir, söngtexta og vísur, tónlist, jafnvel DVD eins og söguna um Litlu lirfuna ljótu. Við förum á myndlistasýningar, leiksýningar og vettvangsferðir og ræðum um allt milli himis og jarðar – allt eftir hvað kveikjir áhuga. (Dæmi um orðalottó má t.d. finna á heimasíðu Brekkubæjarskóla á Akranesi)

Spurning 4: Hver er virkni barnanna? Hvernig vinna þau í heimspekitímum?

Helga María: Í heimspekisamræðu innan hópastarfstímana er virknin ágæt en satt að segja fer virknin eftir hve vel manni gengur að grípa áhuga barnanna á samræðuefninu. Kennarinn þarf að finna áhugakveikju sem flestra. Sum börin eru virk í samræðu ef rætt er út frá mynd, önnur ef rætt er út frá sögu og enn önnur ef rætt er um eitthvað sem barnið upplifir sjálft eins og leikrit eða jafnvel sjónvarpsauglýsingu.

Ég held að ég sé ekki að ýkja neitt þegar ég segi að leikskólabörnin vinna mjög vel í heimspekitímum og það er yfirleitt mjög gaman – gleðin er líka ein af grunnforsendunum. Persónulega finnst mér skemmtilegast þegar ég heyri börnin sjálf beita samræðforminu, eins og þegar þau spyrja hvort annað Af hverju finnst þér það? Eða þegar ég heyri Eigum við að rannsaka það saman?