Athugasemdir til Mennta- og menningarmálaráðuneytis

Námskrárhópur Félags heimspekikennara hefur sent athugasemdir varðandi námsgreinahluta nýrrar Aðalnámskrár grunnskóla til Mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Bréf hópsins er skýrt og greinargott og þar eru gerðar tvær megin athugasemdir: 1) Að samræmi sé gætt í ólíkum hlutum námskrárinnar við notkun á hugtökunum heimspeki og siðfræði, 2) að hugtakið samræða sé betur skilgreint í námskránni. Félagið þakkar námskrárhópnum vel unnin störf og vonast til að ráðuneytið bregðist við athugasemdunum eins og kallað er eftir.

Í námskrárhópnum sitja Elsa Haraldsdóttir, Jóhanna Guðrún Ólafsdóttir, Jóhanna Kristín Guðmundsdóttir, Ólafur Waage og Sigurlaug Hreinsdóttir. Hópurinn setti upp Facebook síðu til að bjóða öllum áhugasömum til umræðu um námskrána og hvaða athugasemdir ástæða væri til að senda inn. Skemmtileg umræða spannst á síðunni og voru athugasemdirnar dregnar saman af námskrárhópnum í kjölfarið. Þetta vinnuferli hefur verið lýðræðislegt og skilvirkt og er sannarlega til fyrirmyndar.