Laugardaginn 13. október hélt Félag heimspekikennara í samstarfi við verkefnið Efling gagnrýninnar hugsunar og siðfræði í skólum málþingið Hver er heimspekin í barnaheimspekinni? Málþingið sóttu um 60 manns, heimspekingar og kennarar af öllum skólastigum. Þór Saari opnaði þingið og sagði frá þingsályktunartillögu sem hann lagði nýlega fyrir Alþingi ásamt fleiri þingmönnum um heimspeki sem skyldunámsgrein í grunn- og framhaldsskólum. Á málþinginu voru flutt 9 erindi þar sem fjallað var um heimspekikennslu á fræðilegan hátt auk þess sem skemmtileg reynsludæmi voru lögð fram. Hreinn Pálsson skólastjóri Heimspekiskólans frumsýndi nokkur myndbönd þar sem Matthew Lipman svarar spurningum um grundvallaratriði í barnaheimspeki. Viðtölin við Lipman voru tekin upp sumarið 1992 þegar Lipman heimsótti Ísland ásamt Ann Margaret Sharp og fleiri frumkvöðlum barnaheimspekinnar.
Hér á eftir er örstutt yfirlit um erindin sem flutt voru auk tengla inn á efni frá hverjum fyrirlesara:
Drífa Thorstensen: Hver er heimspekin í heimspeki með börnum?
Drífa er kennari í Stóru-Vogaskóla og hefur kennt börnum á ýmsum aldri heimspeki auk þess sem hún er einn af forsvarsmönnum Heimspekikaffihússins í Reykjavík. Í erindi sínu fjallaði hún um mikilvægi þess að næra forvitni barna. Þetta er áskorun fyrir fullorðna sem hafa fastmótaðar hugmyndir og hugmyndakerfi sem þeir eru sífellt að yfirfæra á hugsun og tal barna. Drífa lagði áherslu á að ímyndunarafl barna og ómótaðar hugmyndir þeirra opni nýja möguleika sem eru vel þess virði að vera rannsakaðir betur.
Spurningar sem kviknuðu eftir erindi Drífu voru m.a.: Á að leiðrétta börn þegar þau setja fram hugmyndir? Á skólinn að kenna rétt svör eða rannsóknarhæfileika? Eru til rangar hugmyndir?
Hjalti Hrafn Hafþórsson: Lýðræði í leikskólum
Hjalti Hrafn er heimspekingur sem hefur starfað í leikskóla í eitt ár og lagði út frá þeirri grunnhugmynd að heimspeki í leikskóla sé ekki vettvangur þar sem kennarinn segir sínar skoðanir heldur eru það börnin sem leggja skoðanirnar fram og fá tækifæri til að taka afstöðu til allra möguleika sem fram koma í hópnum. Hann fjallaði um hvernig hann hefur reynt að nota heimspeki og samræðu til að lýðræðisvæða daglegt skipulag í leikskólanum og tók dæmi af því hvernig hann þjálfaði börn til að vinna saman að því að leysa daglegt en nokkuð erfitt verkefni sem fólst í að taka þríhjól skólans út úr litlum skúr á leikskólalóðinni. Í anda John Dewey leggur Hjalti Hrafn áherslu á að lýðræði er aðferð til að lifa saman og að skóli eigi að vera lýðræðislegt samfélag. Lýðræðið byggir á þörf manna fyrir að vera háðir hver öðrum (dependent) og þessi þörf byggir upp tengslanet sem lýðræðið nærist á.
Spurningar sem kviknuðu eftir erindi Hjalta Hrafns voru m.a.: Er börnum treystandi til að skapa gott samfélag? Hver er heimspekin í lýðræðisvæðingu skólastarfsins?
Kristín Sætran: Frjáls öguð heimspekileg nálgun. Um mikilvægi heimspekilegs rýmis innan skólanna
Kristín hefur um árabil kennt heimspeki í framhaldsskólum og háskóla. Hún dró upp mynd af því hvernig heimspekileg hugsun fólks þróast frá leikskóla og til loka háskólanáms. Í leikskólanum hafa börn þá undrun sem er nauðsynlegur grundvöllur heimspekilegrar hugsunar og við lok háskóla er gert ráð fyrir skapandi, sjálfstæðum og gagnrýnum vinnubrögðum útskriftarnema. En hvað gerist þarna á milli? Kristín dró upp skýra mynd af þeim nemum sem hún kennir við lok framhaldsskóla og í upphafi háskólanáms: þeir vilja ekki hugsa frjálst, verða reiðir þegar þeir eru krafðir um sjálfstæða hugsun og vilja bara fá að greina hugmyndir annarra, þeim finnst þeir vera “lost” í heimspekilegum verkefnum og skilja ekki hvað þeir eiga að gera þegar þeir eru beðnir um að koma með eigin dæmi eða afstöðu. Inngangsnámskeið í heimspeki hjálpar þeim að vinna sig út úr þessum vandamálum.
Spurningar sem kviknuðu í og eftir erindi Kristínar voru m.a.: Af hverju þarf að kenna ungu fólki að undrast þegar hæfileikinn bjó í þeim sem ungum börnum? Viljum við viðhalda hæfileikanum til að undrast? Hvers krefst það? Af hverju á heimspekin sér ekki stað út í gegnum leik-, grunn-, framhalds- og háskóla? Vilja kennarar taka inn heimspekilega nálgun? Hvaða stuðning þurfa þeir til þess?
Hreinn Pálsson: Hver er heimspekin í námsefni Lipmans?
Hreinn stofnaði Heimspekiskólann í Reykjavík haustið 1987 og var árum saman í nánu samstarfi við frumkvöðla barnaheimspekinnar s.s. Matthew Lipman og Ann Margaret Sharp. Hann fjallaði um vandann við að þjálfa kennara í barnaheimspeki og velti fyrir sér spurningunni hvort kennarar þurfi að vera heimspekingar til að geta kennt barnaheimspeki. Lipman taldi sjálfur að það væri engan vegin nóg að láta kennara bara prófa aðferðina nokkrum sinnum og “smitast” af henni – þetta dygði ekki til. Kennarar verða að þekkja að einhverju leyti þá heimspeki sem býr í námsefninu og þeir verða að fá markvissa þjálfun í að taka efnið heimspekilegum tökum. Ef áherslan er of mikil á heimspekina er hætta á að kennarar hlusti ekki nógu vel á hugmyndir nemenda. En ef áherslan er of mikil á samræðu nemenda er hætta á að heimspekin verði útvötnuð og lítils virði.
Hreinn frumsýndi nokkur myndbönd þar sem Matthew Lipman svarar spurningum um grundvallaratriði í barnaheimspeki. Viðtölin við Lipman voru tekin upp sumarið 1992 þegar Lipman heimsótti Ísland ásamt Ann Margaret Sharp og fleiri frumkvöðlum barnaheimspekinnar. Það voru Hreinn og Eugenio Echeverria sem unnu að gerð myndbandanna og verða þau vonandi birt á Youtube innan tíðar þar sem um merkilega heimild er að ræða.
Sigríður Geirsdóttir: Getum við treyst innsæinu? Um ábyrgð kennara í heimspekilegri samræðu með börnum
Sigríður er í námi í sálfræði og heimspeki við Háskóla Íslands og tók námskeið í barnaheimspeki síðastliðið vor. Hún sagði frá því að eftir það námskeið hefði hún hugsað mjög mikið um það hvort hægt væri að nota heimspekilega samræðufélagið hvar og hvenær sem er. Hún sagðist ekki vera viss um að það væri alltaf viðeigandi eða mögulegt og lýsti dæmi þar sem hún taldi vafasamt að heimspekin væri viðegandi: skólaumhverfi sem einkenndist af ofbeldi og vanvirðingu. Er mögulegt að byggja upp heimspekilegt samræðufélag þar sem samskipti nemenda einkennast af ofbeldi og einelti? Er hægt að byggja upp samræðu ef traust ríkir ekki í hópnum? Sigríður lagði áherslu á að kennarinn ber ábyrgð á að skapa samfélag trausts og beitir til þess þekkingu sinni, samræðufærni og innsæi. Þegar kennarinn ætlar að skapa heimspekilegt samræðufélag í nemendahópnum verður hann að vera sjálfur sýnilegur sem stjórnandi til að geta gripið inn í aðstæður þegar nauðsynlegt er. Sigríður taldi einnig nauðsynlegt að samræðan byggði á mjög skýrum strúktur sem nemendur lærðu að fylgja.
Spurningar sem kviknuðu eftir erindi Sigríðar voru m.a.: Ef traust ríkir ekki í hópnum er þá alls ekki hægt að kenna heimspekilega samræðu? Er alltaf hægt að taka nemendur alvarlega? Hvað gerist ef maður tekur ofbeldi og vanvirðingu nemenda alvarlega og krefur viðkomandi um skýringar?
Henry Alexander Henrysson: Örlítið af góðu hugferði
Henry sagði frá starfi sínu fyrir Verkefni um gagnrýna hugsun og siðfræði í skólum þar sem hann hefur m.a. komið að gerð námskrár og hæfniviðmiða fyrir ólík skólastig. Hann telur nauðsynlegt að skoða barnaheimspekina gagnrýnum augum – er hún besta tækið til að koma heimspekilegri hugsun og vinnubrögðum inn í skólana? Hann fjallaði um hugtakið gagnrýna hugsun og lagði fram efasemdir um að það væri hentugt til að benda á hvað raunverulega vantar í skólana. Mikael M. Karlsson hefur lagt fram efasemdir um gagnrýna hugsun og möguleikann á að kenna hana. Hann vildi frekar tala um að skólar ættu að styrkja gott hugferði og festa það í sessi. Henry er ekki jafn mikill efasemdarmaður og Mikael hvað varðar gagnrýna hugsun en telur samt sem áður að það geti verið til bóta að tala um hugferði þegar rætt er um hvernig hægt sé að efla hugsun barna og ungmenna í skólum.
Spurningar sem kviknuðu eftir erindi Henrys Alexanders voru m.a.: Hver er munurinn á gagnrýninni hugsun og góðu hugferði? Á barnaheimspeki erindi í skólana? Hvernig er best að kenna gott hugferði?
Elsa Haraldsdóttir: Heimspeki; gagnrýnin hugsun og siðfræði
Elsa er í mastersnámi við Háskóla Íslands og hefur skrifað ítarlega greinargerð um stöðu heimspekikennslu á Íslandi. Hún dró upp mynd af tengslum heimspeki, gagnrýninnar hugsunar og siðfræði og hvernig greinarnar birtast inn í skólunum. Elsa leggur áherslu á mikilvægi samræðunnar við kennslu þessara greina. Þótt skrifleg verkefni geti vissulega verið markviss og mikilvæg þá duga þau ekki til að kenna börnum og ungmennum hvernig hugsanir tvinnast saman og þróast áfram – þessir þættir birtast hins vegar í samræðu. Nemendur þurfa ekki að hafa neina fyrirfram þekkingu á heimspeki til að geta tekið þátt í heimspekilegri samræðu en það sama gildir ekki um kennarann sem þarf að hafa sterkan bakgrunn til að geta fléttað hugsanir nemenda saman og leitt samræðu þannig að hún hafi heimspekilegt gildi.
Spurningar sem kviknuðu eftir erindi Elsu voru m.a.: Hugsum við bara með heilanum? Hvað þurfa kennarar mikinn heimspekilegan undirbúning? Af hverju hafa kennarar lítinn sem engan heimspekilegan bakgrunn?
Jóhann Björnsson: Hversu margir geta búið í einu landi? Hlutverk heimspekinnar í lýðræðis-mannréttinda- og fordómafræðslu.
Jóhann er heimspekikennari við Réttarholtsskóla og rekur Sísyfos heimspekismiðju. Hann sagði frá reynslu sinni af því að koma inn í skólahópa til að efla fjölmenningarfærni. Í kjölfar þessarar reynslu hefur hann þróað námsefnið Eru allir öðruvísi? Fjölmenning og heimspeki sem kom út haustið 2012. Jóhann varpaði fram spurningu um hvort hann væri að kenna heimspeki í skólunum heimspekinnar vegna eða til að þjóna öðrum námsþáttum eins og fjölmenningu, forvörnum eða tungumálinu. Lýsingar hans á verkefnum og viðbrögðum nemenda við þeim benda þó eindregið til þess að Jóhann sé að ástunda heimspeki með nemendum sínum öllum til gagns og gamans. Hann sagði meðal annars frá verkefnum sem hann vann með nemendum í Brekkubæjarskóla á Akranesi þegar von var á hópi flóttamanna til bæjarins. Þar kviknuðu spurningar eins og Hversu margir geta búið í einu landi? og Hvað er besta tungumál í heimi? Auk verkefna sem tengjast fjölmenningu hefur Jóhann komið að ýmiss konar verkefnum í Réttarholtsskóla og víðar. Nú vinnur hann að verkefni í samstarfi við íslenska málnefnd þar sem nemendur í Réttarholtsskóla, Laugarnesskóla og Laugalækjarskóla undirbúa dag íslenskrar tungu með heimspekilegum samræðum um tungumálið.
Brynhildur Sigurðardóttir: Hver er þín heimspeki?
Brynhildur hefur kennt heimspeki í Garðaskóla og kennaranámskeið við Háskóla Íslands og víðar. Í erindi sínu fjallaði hún um hvort heimspekikennari eigi að geta skilgreint sína eigin heimspeki og svarað skýr spurningunni Hver er þín heimspeki? Hún bar þessa spurningu saman við aðra svipaða: Hver er maðurinn þinn? en komst að þeirri niðurstöðu að það væri ekki hægt að gera sömu kröfu um skýrt svar í fyrri spurningunni og þeirri síðari. Brynhildur sagðist hafa áhyggjur af því að ef kennari hefði sjálfur of skýra heimspeki þá yrði hún baggi í kennslunni því kennarinn færi óhjákvæmilega að þvinga sína heimspeki upp á hugmyndaheim nemenda og þar með hamla þeirri samræðu sem byggja ætti upp í heimspekikennslu.
Spurningar sem kviknuðu eftir erindi Brynhildar voru m.a.: Hver er heimspekin mín? Get ég átt heimspeki? Hvaða áhrif hefur heimspeki á líf mitt og kennslu?
Erindi Brynhildar má nálgast hér.
—