Í dag var lögð fram á Alþingi Íslendinga þingsályktunartillaga um að efla heimspekikennslu í grunn- og framhaldsskólum á Íslandi. Tillagan hefur verið í undirbúningi undanfarin misseri og nokkrir meðlimir í Félagi heimspekikennara lögðu fram athugasemdir við hana á fyrri stigum málsins. Innan félagsins eru skiptar skoðanir um þingsályktunartillöguna. Á meðan sumir sjá í henni tækifæri til að auka aðgang ungra Íslendinga að heimspekilegum vinnubrögðum þá hafa aðrir áhyggjur af því að tillaga sé óraunhæf því kennara skortir menntun og reynslu í heimspeki og munu því ekki geta sinnt kennslunni á viðeigandi hátt. Við hvetjum félagsmenn til að taka þátt í umræðu um málið á Facebook síðu félagsins.
Tag: heimspekikennsla
Fréttabréf októbermánaðar
Fréttabréf heimspekikennara í október er komið út. Meðal efnis er viðtal við Atla Harðarson, fréttir af málþingi og örnámskeiðum í heimspeki, tenglar inn á heimspekileiki og þrautir á internetinu. Að venju eru líka tenglar inn á kennsluseðla í Verkefnabanka Heimspekitorgsins og að þessu sinni er áherslan á upphitunaræfingar og einfalt samræðuform sem hægt er að leggja fyrir nemendur í minni hópum.
Viðtal við heimspekikennara: Atli Harðarson
Í ágúst 2012 tók heimspekitorgið stutt viðtal við Atla Harðarson, heimspekikennara við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Continue reading Viðtal við heimspekikennara: Atli Harðarson
Vísindavefurinn leitar samstarfs
Félagi heimspekikennara barst bréf frá Henry Alexander Henryssyni sem starfar í haust sem gestafræðimaður hjá Vísindavef Háskóla Íslands. Henry Alexander hefur áhuga á að stækka heimspekihluta Vísindavefsins og kallar eftir samstarfi við heimspekikennara við þá uppbyggingu. Í bréfi sem við birtum hér að neðan biður hann kennara sem hafa nýtt Vísindavefinn í kennslu eða hafa áhuga á að gera það að koma til samstarfs um uppbyggingu á spurningum og svörum um heimspekileg efni. Einnig óskar hann eftir hugmyndum um hvernig hægt sé að nýta Vísindavefinn í kennslu. Heimspekitorgið veit til þess að heimspekikennarar hafa nýtt efni á Vísindavefnum með nemendum og við hvetjum viðkomandi til að setja sig í samband við Henry. Continue reading Vísindavefurinn leitar samstarfs
Heimspeki og fjölmenning: nýtt námsefni
Út var að koma bókin Eru allir öðruvísi? Fjölmenning og heimspeki. Höfundur er Jóhann Björnsson en um myndskreytingu sá Björn Jóhannsson 19 ára gamall nemi í bifreiðasmíði.
Bókin fjallar um ýmsa þætti fjölmenningarsamfélagsins með heimspekilegum hætti. Í henni má finna efni sem hentar fólki á öllum aldrei, börnum, unglingum og fullorðnum. Hún samanstendur af sex köflum sem hver um sig hefur ákveðið þema og eru kaflaheitin þessi: 1. Hverjir eiga heiminn? 2. Hvað er besta tungumál í heimi? 3. Af hverju eru ekki allir eins á litinn? 4. Hvað er í matinn? 4. Hvað með guð? 5. Eru allir útlendingar?
Myndir úr bókinni og nánari upplýsingar má nálgast á Sísýfos heimspekismiðju.
—
Námskeið fyrir kennara
Laugardaginn 22. september hefst námskeiðið Heimspeki í skólastarfi. Kennarar eru Hreinn Pálsson og Brynhildur Sigurðardóttir. Námskeiðið hefst með heils dags dagskrá þar sem farið verður yfir grundvallaratriði í barnaheimspeki og samræðuþjálfun. Í kjölfar þessa námskeiðsdags verða síðan mánarlegir fundir þar sem haldnar verða samræðuæfingar. Námskeiðið er ætlað starfandi kennurum og uppbyggt þannig að þátttakendur fái sem mesta þjálfun í samræðu og samræðustjórnun. Námskeiðið kostar 15.000 krónur og skráning fer fram á heimasíðu Klifsins, skapandi fræðsluseturs.
Fréttabréf september mánaðar
Nýtt Fréttabréf heimspekikennara er komið út og þar er sagt frá verkefnum heimspekikennara í sumar, nýjum og spennandi heimspekivef, heimspekikennslu í leikskólanum Lundarseli og bent á góð heimspekiverkefni í skólabyrjun.
Viðtal við heimspekikennara: Helga María Þórarinsdóttir
Í ágúst 2012 tók heimspekitorgið stutt viðtal við Helgu Maríu Þórarinsdóttur, heimspekikennara á leikskólanum Lundarseli á Akureyri. Continue reading Viðtal við heimspekikennara: Helga María Þórarinsdóttir
Athugasemdir til Mennta- og menningarmálaráðuneytis
Námskrárhópur Félags heimspekikennara hefur sent athugasemdir varðandi námsgreinahluta nýrrar Aðalnámskrár grunnskóla til Mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Bréf hópsins er skýrt og greinargott og þar eru gerðar tvær megin athugasemdir: 1) Að samræmi sé gætt í ólíkum hlutum námskrárinnar við notkun á hugtökunum heimspeki og siðfræði, 2) að hugtakið samræða sé betur skilgreint í námskránni. Félagið þakkar námskrárhópnum vel unnin störf og vonast til að ráðuneytið bregðist við athugasemdunum eins og kallað er eftir.
Continue reading Athugasemdir til Mennta- og menningarmálaráðuneytis
Sísyfos heimspekismiðja
Félag heimspekikennara mælir með því að þið lítið við á Sísyfos heimspekismiðju sem er vettvangur og upplýsingamiðill fyrir heimspekilega ástundun Jóhanns Björnssonar. Sísyfos heimspekismiðja býður upp á námskeið, kennsluráðgjöf og fyrirlestra í heimspeki og heimspekikennslu. Á heimasíðu heimspekismiðjunnar gefurJóhann auk þess innsýn í kennsluna hjá sér, segir frá verkefnum og vitnar í nemendur.