Málþing Félags heimspekikennara um „Innleiðingu grunnþáttanna lýðræði, mannréttindi og jafnrétti í þverfaglegu skólastarfi“
Réttarholtsskóla, 13. apríl 2013
eftir Elsu Björgu Magnúsdóttur
1. Kynning
Góðan dag, ágæti mennta- og menningarmálaráðherra og aðrir gestir.
Ég heiti Elsa Björg Magnúsdóttir og er siðfræðingur. Erindi mitt ber titilinn „Raunverulegt gildismat?“ og nálgast ég efni þessa málþings út frá sjónarhóli siðfræðinnar. Grunnþættirnir sem eru til umfjöllunar eru siðferðileg hugtök sem eru mér sérlega hugleikin. Mun ég gera þeim stuttlega skil, og leggja til, hvernig þau má innleiða inn í íslenska menntun. Tel ég að áherslur í gegnum tíðina hafi verið of einhæfar og að húmanísk menntun eigi að vega þyngra en verið hefur. Leiði ég líkum að því að siðfræðimenntun eigi að teljast til hinna eiginlegu kjarnagreina.
2. Grunnþættir
Árið 2011 gaf Menntamálaráðuneytið út nýja Aðalnámsskrá. Ný menntastefna er reist á sex grunnþáttum sem eiga að fléttast inn í allt skólastarf, en þeir eru: læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Tilurð grunnþáttanna virðist í beinu samhengi við þróun menntamála víða erlendis og fylgja að mestu þeim áherslum sem koma fram í áætlun Evrópuráðsins um menntun. Það virðist sem við sem samfélag, séum farin að hugsa í stærra samhengi en áður. Evrópusameining, Sameinuðu þjóðirnar og nýir sáttmálar um lýðræði, menningu og stjórnarhætti hafa áhrif á hvernig við sem þjóð, hugsum um menntun. Nám fær nýjar áherslur og kennarar nálgast efni sitt með víðari hætti með því að setja það í samhengi við alþjóðasamfélagið. Finnst mér andi Immanuel Kant svífa yfir vötnum, hugmynd hans um sameinaða Evrópu og heimsborgarann sem á sér ekki eitt föðurland, en kallar plánetuna Jörð sitt heimili.
Í fyrravetur lagði ég stund á kennslufræði við Háskóla Íslands og má með sanni segja að grunnþættirnir og hin nýja aðalnámsskrá hafi sett mark sitt á allt námið. Við kennaranemar unnum yfirgripsmikið verkefni, þarsem okkur var falið að rýna í grunnþættina og bera saman við námsskrár þeirra skóla þar sem vettvangsnám okkar fór fram. Við vorum send út af örkinni til þess að skoða skólavettvang, rýna í kennsluaðferðir, spjalla við kennara og nemendur og greina stemninguna í skólunum. Segja má, að við höfum verið eilitlir útsendarar fyrir menntavísindasvið Háskólans.
Samantektir okkar úr skólunum voru einróma, að vinnan við innleiðingu grunnþáttanna væri vart hafin, sem helgast líklega af því að stutt er síðan aðalnámsskrá kom út. En þeir skólar sem höfðu hafið stefnumótun sína virtust aðallega vera farnir að endurskoða skólareglur með tilliti til grunnþáttanna en ekki beinlínis hvað ætti að kenna. Mörg okkar höfðu þá sögu að segja frá okkar vettvangsskólum að kennarar klóruðu sér í kollinum yfir þessum grunnþáttum. Vandinn væri fólginn í því að það sem allir ættu að kenna kenndi enginn.
Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að grunnþættirnir snúa ekki einungis að skólakerfinu og námi sem slíku, að þeir eru markmið sem allt samfélagið í heild hefur einsett sér að rækta meðal þegnanna. Þeir eru byggðir á uppeldishugsjón, félagslegri umbótastefnu, sem hefur ákveðin gildi í hávegum. Grunnþættirnir lýsa menntakerfinu leið sem vitar í myrkri, og kalla ég þá því menningarvita.
3. Innleiðing
En stóra spurningin er: hvernig förum við að því að innleiða þessa grunnþætti?
Tíðrætt var á menntavísindasviði að nýja menntastefnan væri illframkvæmanleg. Menn óttuðust að sett markmið væru of huglæg til þess að vera raunhæf markmið. En það varðar beinlínis innleiðingu þessara grunnþátta. Það hvernig hægt er að virkja þá í almennu skólastarfi. Eitt er að fara fögrum orðum um ídeal eða útópískt samfélag sem hefur mannréttindi og jafnrétti í hávegum, annað er að virkja þau af alvöru í almennu skólastarfi: Meðal kennara, meðal nemenda, meðal skólastjórnenda, í kennsluefni og einnig í samvinnu við foreldra. Það blasir við að lykilatriðið í þessari grunnþáttaumræðu og þessu málþingi er innleiðingin.
Mannréttindi, lýðræði og jafnrétti eru auðvitað mjög huglæg markmið. En það sem er huglægt á það til að vefjast fyrir fólki einfaldlega vegna þess að það skreppur ekki inn í fyrirframgefnar mælieiningar eða staðla. Enda kom það á daginn, að meira að segja í þessu húmaníska námi sem kennslufræðin er, fannst mörgum samnemenda minna erfitt að ná utan um huglæg markmið námsskrárinnar.
4. Litbrigði
Samfélagið þarf á öllum sínum litbrigðum að halda, en fólk er oft tregt til að taka húmanískar greinar alvarlega. Það stillir sér gjarnan upp í fylkingar, húmanísk fræði versus raungreinar, sem er ótrúlega lífseig deila um keisarans skegg.
Rennur það mér seint úr minni er viðskiptafræðinemar í Háskóla Íslands kölluðu okkur heimspekinema: heimskspekinema. Þetta er mér svo minnistætt vegna þess að viðhorfið lýsir algerri fordæmingu á heimspeki, á húmanískum fögum. Það leynist svolítil kaldhæðni í því að rifja þetta upp nú, þegar mikið vatn hefur runnið til sjávar í okkar samfélagi. Það sér hver heilvita maður að hrunið á Íslandi var ekki skyndilegur skortur á efnislegum gæðum, heldur vanræksla og sinnuleysi gagnvart siðferðilegum gildum. Ætli atburðir undanfarinna ára hafi kennt þjóðinni hvað sé raunverulegt gildismat?
Menn tala gjarnan um kjarnagreinar, sem eru látnar ganga fyrir í öllu námi. Gott og vel. Ég spyr, hver er kjarninn? Er hann hið mælanlega sem stendur utan við okkur? Eru menn að vísa í 1 + 1 eru 2, eða það að geta sungið þýskar forsetningar með stafrófslaginu? Frekar færi ég rök fyrir því, að hinn eiginlegi kjarni sé við sjálf og okkar líðan. Að upphaf og kjarni allrar mannlegrar þekkingar sé við sjálf.
Þegar að húmanískum greinum kemur, tala menn gjarnan um loðin markmið og ómælanlegan árangur. Að mínu mati er þessi tilhneiging mannsins til þess að leita skjóls í heimi mælanlegra sanninda, til marks um vantrú sem hann hefur á sjálfum sér. Það er hið mælanlega, auðútskýrða og ófrávíkjanlega sem á sér tilvist í ytri heimi óháðum manninum og hans „flöktandi“ hugmyndaheimi sem ræður. Tölur og mælanleg sannindi eru verðir hlutlægninnar og hljóti því ávallt að vera sú þekking sem sé marktæk. En þetta á náttúrulega rætur sínar í vestræna vísindahyggju.
Nú má ekki skilja mig sem svo að ég sé í stríði gegn raungreinum – því fer fjarri. Ég vil leggja að jöfnu mikilvægi þess að kenna A, B, C eða 1, 2, 3 og þess að kenna réttlæti, jöfnuð og önnur siðferðileg gildi. Ef markmiðin sem menntakerfið setur sér eru mannréttindi og jafnrétti ?hvers vegna hika við að kenna þau? Samfélag sem stefnir að siðgæðum þarf að kenna siðfræði frá upphafi skólagöngu.
Það að vera maður er raunveruleikinn sem við hrærumst í og hæfni okkar til þess að taka þátt í okkar mannlega samfélagi ræður úrslitum um gengi okkar í tilverunni. Eins og Jón Gnarr sagði í útvarpsviðtali nýverið: Allt snýst um mannleg samskipti. Eða eins og heimspekingurinn Arthur Schopenheuer sagði, að öll vanlíðan í lífinu stafar af samskiptum við annað fólk.
Ég er þeim báðum hjartanlega sammála! Siðfræðin beinlínis snýst um samskipti, réttlæti, skiptingu gæða og gerð samfélagsins. Þess vegna þarf að fara fram samræða um þau gildi sem samfélagið vill halda í heiðri, og það þarf að kenna fólki að taka þátt í þeirri mikilvægu umræðu. Við búum í síflóknari heimi, þar sem siðferðileg vandamál spretta upp eins og gorkúlur, en fæst okkar ganga nokkurn tímann í gegnum nám í siðfræði.
Sjálfstrú einstaklingsins, heilbrigð sjálfsmynd og hæfileikinn til þess að setja sig í spor annarra eru allt eiginleikar sem skólakerfið getur hlúð að og ræktað. Þykir mér því fagnaðarefni að sjá nýja menntastefnu sem gerir hátt undir höfði: réttlætiskennd og siðferðisvitund sem eru jú lykilatriði í mannlegu samfélagi.
Til þeirra sem spyrja hvernig hægt sé að innleiða þessa ágætu grunnþætti, þá er svar mitt einfalt: Við kennum þá! Samfélag sem stefnir að mannréttindahugsjón og jöfnuði þarf að kenna mannréttindi og jöfnuð.
5. Glöggt er gests augað
Glöggt er gests augað. Mig langar að deila með ykkur nýfenginni reynslu minni af því að kenna heimspeki. Bekkurinn samanstóð af 25 nemendum á bilinu 16 til 23 ára. Þessi ólíki aldur nemenda gerði það að verkum að fyrir suma reyndist kennslan of létt en aðra of þung og því erfitt að hafa kennsluna markvissa. Hafði áfangastjórinn lagt áherslu á að námið ætti að vera létt svo allir fengju ágæta einkunn, og vóg það minna en önnur fög. Kennarinn sem sér um heimspekikennsluna í skólanum gerði sitt besta til að gera faginu góð skil þrátt fyrir þessa þröngu umgjörð sem honum var sett. Var farið á hundavaði yfir efni eins og trú, hamingju, tilgang lífsins og dauðann. Mér fannst synd að vera með hóp ungmenna sem þyrsti í að skilja tilveruna á sínum mestu mótunarárum og bruna í gegnum einhverjar hinar stærstu spurningar lífsins!
Ég tók galvösk við keflinu og ákvað að leggja áherslu á að kenna bekknum siðfræði. Eftir þónokkrar kennslustundir ákvað ég, að spóla aðeins til baka á byrjunarreit. Ég komst nefnilega að því að bekkurinn átti fullt í fangi með hugtakaskilning og mér brá við að sjá að nemendur ekki bara hikstuðu á grunnhugtökum heldur vissu þau vart hvað siðfræði var. Ég hélt nefnilega að fyrst þau hefðu valið sér heimspeki þá hefðu þau einhvern pata af henni. En í sannleika sagt treystu þau sér ekki í samfélagslega umræðu. Þau voru henni greinilega allskostar óvön og skorti tækin til þess að vera virkir þátttakendur í sínu námi. Grunar mig að þessi sami hópur hiki ekki við að diffra, tegra, deila, og reikna hornaföll.
Hvort haldið þið að maður þurfi oftar í daglegu lífi að tegra eða að takast á við siðferðilegar spurningar?
Mér sýnist, því miður, að siðfræðin sé ekki komin í kladdann hjá skólum landsins, og fær því ekki einu sinni fjarvist. Lífsleiknin virðist hugsuð sem litla systir siðfræðinnar, en fær því miður ekki sama vægi og aðrar greinar. Mér finnst ríkja miklir fordómar í hennar garð – enn blasir við að huglægar, húmanískar greinar eru ekki teknar alvarlega. Lífsleiknin er ágætis tilraun til siðfræðikennslu en hún er ómarkviss þarsem hún er meira upptekin af umferðarljósum og endurskinsmerkjum á götum úti, heldur en andans leiðarljósum.
Enn þann dag í dag spyrjum við sömu spurninga og Aristóteles og Sókrates til forna. Það er ekki vegna þess að mannskepnan hafi staðnað, heldur þarf hver og einn maður að finna sinn eina sanna tón. Heimspekin er svo gríðarlega fjölþætt og spyr um flestöll hugðarefni mannsins. Finnst mér því blasa við að hún ætti að fá mun meira brautargengi innan menntakerfisins.
6. Ótti við siðfræði
Ég velti því fyrir mér hvort við séum ef til vill hrædd við siðfræði. Oftar en ekki kemur fát á fólk þegar ég segist vera siðfræðingur. Margir fara í vörn og frábiðja sér öllu trúboði eins ég hljóti að gegna dómarastöðu hjá spænska rannsóknarréttinum. Tel ég þessi viðbrögð fyrst og fremst byggð á misskilningi. Grunar mig að þau eigi sér einfalda skýringu: í vanþekkingu á siðfræði.
Mannréttindi, jafnrétti og lýðræði eru siðfræði, en hún er svo kyrfilega fléttuð inn í menningu okkar svo við tökum ekki eftir. Samfélagið er byggt á siðferðilegum hugsjónum, lögum og reglum sem eru límið sem heldur því saman. Þess vegna, finnst mér alveg stórmagnað að við skulum hika við að mennta ungt fólk á þessum sviðum og gera það skrafhæft um siðferðileg málefni. Að við skulum ekki stuðla að því með markvissari hætti að gefa unga fólkinu tækifæri til þess að hugsa sjálfstætt og vera gagnrýnið á eigin menningarsamfélag. Það er mikilvægt að komandi kynslóðir séu hugsandi verur sem finnst eðlilegt en ekki óþægilegt að ræða um samskipti, breytni og hugmyndir um rétt og rangt.
Það er á okkar ábyrgð að gera hverjum einstaklingi kleift, að vera eigin menningarviti og það gerum við með því að kenna siðfræði.
Takk fyrir mig
Elsa Björg Magnúsdóttir