Viðtal við heimspekikennara: Ragnar Þór Pétursson

Ritstjórn Heimspekitorgsins mun í vetur taka stutt viðtöl við starfandi heimspekikennara til að fá fréttir af innra starfi þeirra. Fyrsta viðtalið er við Ragnar Þór Pétursson, kennara í Norðlingaskóla.

Spurning 1: Hvernig er heimspekin byggð inn í skólastarfið í Norðlingaskóla? Er hún sérstök námsgrein? valgrein eða skylda? Byggð inn í aðrar greinar eða notuð sem kennsluaðferð?

Ragnar Þór: Á unglingastigi hefur heimspeki verið valgrein þar til síðasta vetur að við settum hana inn sem skyldu. Að auki hefur hún verið notuð til prufu sem kennsluaðferð í íslensku, þar sem lögð er áhersla á sam- og rökræðu. Loks hefur heimspeki verið rauður þráður í náttúrufræðikennslu.

Spurning 2: Hvaða markmið setur þú nemendum í heimspekináminu? Er áherslan á að kynnast ákveðnum spurningum/hugmyndum eða á hugarfærni/sköpun/vinnubrögð?

Ragnar Þór: Í náttúrufræði hefur áherslan verið á spurningar og hugmyndir. Þar fjöllum við um allt frá þverstæðum Zenóns og atómkenningum til efa Descartes og hugmynda Poppers. Í íslensku höfum við haft það að markmiði að nota samræðu sem rannsóknaraðferð en einnig að þjálfa hæfni í rökræðum og mat á rökum. Við reynum að vinna markvisst að því að nemendur séu ónæmir fyrir einberum áróðri og geti greint innihald frá umbúðum. Í heimspekitímum reynum við að skapa samræðusamfélag þar sem við leyfum umræðunni að fljóta. Undirliggjandi eru þó markmið eins og þau að vinna með hópanda og samskiptaferla, að efla gagnrýna hugsun og fá nemendur til að hugleiða hið góða líf.

Spurning 3: Hvaða námsefni notar þú?

Ragnar Þór: Ég sem mikið sjálfur, sérstaklega fyrir náttúrufræðina. Þar fyrir utan notum við ýmislegt tilfallandi. Brot úr kvikmyndum, fréttir eða einhvern texta. Við höfum enn ekki dottið niður á einhverja eina kennslubók eða kjarnaefni. Það kann þó að breytast.

Spurning 4: Hver er virkni nemenda? Hvernig vinna þeir í heimspekitímum? 

Ragnar Þór: Í heimspekitímunum sjálfum er lykilatriði að allir hafi tækifæri til að tjá sig. Langflestir gera það. Það er ögn misjafnt eftir hópum því í sumum hópum reynist erfiðara að deila „sviðsljósinu.“ Það mjakast þó í rétta átt. Þegar heimspekileg viðfangsefni eru til umræðu eða skoðunar í öðrum fögum eru það gjarnan þeir áhugasömustu og „færustu“ sem hafa sig mest í frammi. Við erum auk þess með aldursblöndun sem skapar ákveðinn ójöfnuð. En það er langtímaverkefni að vinna í því að skapa þetta samfélag. Fyrstu vísbendingar lofa góðu um að heimspeki eigi erindi við allan hópinn. Þannig hefur það gerst oftar en einu sinni að námshópar hafa tekið upp heimspekilega samræðu án kennara í þeim tilgangi að rannsaka flókin viðfangsefni saman.