Fréttabréf aprílmánaðar er komið á vefinn. Fréttbréfið er stútfullt af efni enda nóg um að vera í heimspekikennslu á Íslandi. Meðal efnis eru fréttir frá nýafstöðnu málþingi Félags heimspekikennara, viðtal við Jón Thoroddsen heimspekikennara í Laugalækjarskóla og sagt er frá heimspekinámskeiðum sem verða haldin fyrir börn og unglinga sumarið 2013. Í verkefnum mánaðarins eru meðal annars úrval sagna af tyrkneska kennaranum Nasreddin, en sögurnar af honum eru ríkulegt hráefni í heimspekilega samræðu.
Tag: aðalfundur
Þakkir til fráfarandi formanns
Ný stjórn félags heimspekikennara fór í heimsókn til Ármanns Halldórssonar, fráfarandi formanns, í kjölfar aðalfundar félagsins í júní. Ármanni voru færðar gjafir sem þakklætisvottur fyrir vel unnin störf í þágu félagsins. Ármann hefur verið formaður félags heimspekikennara síðan starfsemi þess var endurreist sumarið 2009. Hann á mestan heiður að því að endurvekja starfsemi félagsins og halda henni gangandi síðustu ár. Auk þess að kenna heimspeki og semja námsefni í faginu hefur hann af mikilli atorku sameinað fjölda heimspekikennara og byggt upp öflugt félagsstarf. Ármann hefur haft veg og vanda að fjölbreyttri dagskrá félagsins og stjórnað faglegri ráðgjöf félagsins til opinberra aðila. Félagsmenn þakka Ármanni vel unnin störf og á myndinni hér til hliðar má sjá Kristian Guttesen og Ingimar Waage afhenda Ármanni gjöfina frá félaginu. Continue reading Þakkir til fráfarandi formanns
Fréttir af aðalfundi
Aðalfundur félags heimspekikennara var haldinn í Verzlunarskóla Íslands laugardaginn 9. júní. Félagið vex hægt og þétt og Ármann Halldórsson fráfarandi formaður þakkaði það góðu félagsstarfi og vexti í heimi heimspekikennslunnar á Íslandi. Fundurinn hófst með skemmtilegu námskeiði Jóhanns Björnssonar sem miðlaði af fjölbreyttri reynslu sinni af heimspekikennslu.
Helstu fréttir af aðalfundinum eru þessar:
- Ármann Halldórsson flutti skýrslu um störf félagsins á liðnu starfsári og sagði síðan af sér formennsku. Í stað hans var Kristian Guttesen kosinn formaður. Félagsmenn þakka Ármanni vel unnin störf. Hann á mestan heiður að því að endurvekja starfsemi félagsins og halda henni gangandi síðustu ár. Á síðasta ári ber hæst að félagið hélt heimspekilegar æfingar sem eru vettvangur til að æfa sig í samræðu. Félagið hélt heimspekikvöld með Hauki Inga Jónassyni og tók þátt í framkvæmd tveggja námskeiða fyrir heimspekikennara sem haldin voru í Garðabæ. Stjórn félagsins gaf umsögn um umsóknir í þróunarsjóð námsgagna og er ánægð með útkomuna úr sjóðnum en tveir aðilar fengu styrk til námsefnisgerðar fyrir heimspekikennslu.
Aðalfundur 9. júní
Aðalfundur félags heimspekikennara verður haldinn laugardaginn 9. júní 2012 kl. 13.00-16.30 á kennarastofu Verzlunarskóla Íslands, Ofanleiti 1 í Reykjavík. Dagskrá hefst með námskeiði Jóhanns Björnssonar heimspekikennara í Réttarholtsskóla. Eftir kaffihlé verður síðan aðalfundur haldinn með hefðbundinni dagskrá.
Aðalfundur félags heimspekikennara
Miðvikudaginn 25. maí hélt félagið aðalfund í Verzlunarskóla Íslands. Fundurinn var vel sóttur og sífellt eru nýir kennarar að bætast í félagið. Auk venjulegra aðalfundastarfa hélt Sigríður Þorgeirsdóttir uppi umræðu um menningu heimspekinnar og birtingarmyndir hennar í kennslu. Út frá inngangserindi Sigríðar spunnust ýmsar hugleiðingar og lífleg samræða.