Samhljómur lýðræðisins

Erindi á málþingi Félags heimspekikennara 13. apríl 2013

eftir Sigurlaugu Hreinsdóttur

Nafnið „Samhljómur lýðræðisins“ hljómar kannski barnslega því lýðræði einkennist ekki af samhljómi. Það er fullt af átökum, þar fá mótsagnir að birtast og skoðanir á öndverðum meiði að talast við. Í lýðræði verða átökin spennandi og gefa færi á nýrri sköpun. En hver er þá samhljómurinn? Ég ætla að leitast við að gera grein fyrir samhljóminum í lýðræðinu sem tengir okkur saman í margbreytileikanum á svo fjölbreyttan hátt.

Ég vil byrja á að gera stutta grein fyrir þeim skilningi sem ég hef á þeim tveimur grunnþáttum (en þremur hugtökum) sem felast í yfirskrift málþingsins.

Lýðræði, mannréttindi og jafnrétti verða varla til án hvers annars. Mannréttindi fjalla um gildi og rétt hverrar einustu manneskju á jörðinni. Það er fæðingarréttur og snertir manneskjuna sem einstakling hver sem hún er. Jafnrétti er hluti af mannréttindum. Það snýr gjarnan að hópum, til dæmis „minnihlutahópum“. Talað hefur verið um að dýpsta aðgreining milli mannfólks sé aðgreining kynjanna. Það er augljósasta aðgreiningin og þar fer fram augljósasta mismununin. Því hefur jafnréttishugtakinu fyrst verið beitt á þá aðgreiningu. Það skilningsljós sem sú beiting hefur fært okkur hefur svo verið nýtt til þess að leitast við að leiðrétta mismunun margra minnihlutahópa. Hugmyndafræðinni hefur einnig verið beitt á mismunun ýmissa greina, og fleiri þátta sem fallið hafa í flokk hinna „óæðri“ eða þeirra sem eru frávik frá norminu.

Lýðræði er svo stóra samhengið þar sem jafnrétti og mannréttindi ættu að blómstra. Það er stjórnarfyrirkomulagið sem gefur tóninn, skapar viðhorfið og elur okkur upp í trú á reisn manneskjunnar. Lýðræðisleg hugsjón er jafnréttishugsjón sem og mannréttindahugsjón. Þessir þrír þættir verða ekki slitnir sundur.

Aðdragandinn að hugleiðingum mínum í þessu erindi var spurning Sigríðar Geirsdóttur en hún var með erindi á málþingi félagsins um barnaheimspeki sem haldið var í október síðastliðnum. Þá spurði hún hvort hægt væri að kenna heimspekilega samræðu ef ekki ríkti traust í hópnum. Heimspekileg samræða er lýðræðisleg samræða. Samræða borgaranna er grundvöllur lýðræðisins, þar fer upplýsingin fram; um það hver við erum, sameiginlegur skilningur myndast og ný þekking verður til.

Ein ástæða þess að spurning Sigríðar lifði með mér er sú að sumir hópar sem ég kenni hjá Námsflokkum Reykjavíkur eru hópar fólks í endurhæfingarprógrammi. Þau hafa verið jaðarsett og hafa einangrast vegna þess. Reynsla fólks af félagslegri einangrun leiðir af sér skort á trausti.

Nel Noddings menntunarheimspekingur telur að öll menntun eigi að miða að hamingju nemendanna. En hamingjuna þurfa nemendur að læra að skilgreina sjálf fyrir sig. Samkvæmt Noddings þá er lýðræði það fyrirkomulag sem líklegast er til þess að stuðla að hamingju. Lýðræðið verður að hafa stefnu sem felst í því að efla möguleika nemenda til þess að vera hamingjusamir einstaklingar. Hún segir að sú grunntilfinning sem þurfi að vera fyrir hendi til þess að eiga möguleika á hamingju sé sú „að tilheyra“. Sem leiðir okkur að grunnforsendu hugleiðinga minna hér.

Einn af hornsteinum lýðræðis verður að vera að öllum finnist þeir tilheyra samfélagi sínu, hversu stórt eða smátt sem það samfélag er.

Það hlýtur að vera fyrsta viðvörunarmerki um skort á lýðræði í samfélagi þegar einhverjum finnst hann ekki tilheyra. Noddings byggði lýðræðiskenningu sína að einhverju leyti á kenningu Deweys sem gerði ráð fyrir að lýðræðislegt viðmót einkenndist af vinsemd og því að allir væru velkomnir, það er grunnur lýðræðisins, að allir hafi möguleika á að taka þátt. Það er á ábyrgð samfélagsins að manneskjur fái þetta rými og grunnskólinn er öflugasti vettvangurinn sem við höfum til þess að skapa þetta rými. Hér á landi fara allir í grunnskóla og hann er eina stofnunin sem nær til okkar allra. Dewey sagði að menntun væri í eðli sínu félagsleg. Það getur til dæmis varla verið eðlilegt að fólk alist upp við og læri að óttast að tala eða tjá sig á meðan það skaðar ekki aðra.

Hvernig sköpum við andrúmsloft þar sem öllum finnst þeir tilheyra?

Við þurfum að hlusta með því viðhorfi að við séum að hlusta til að skilja fremur en hlusta til að finna veikleika. Fyrst vil ég gagnrýna kröfu um skýrleika. Ef einvörðungu er hlustað eða heyrt þegar hinn talar nógu og skýrt fyrir okkur, þá skortir á.

Óskýrleikinn er heillandi. Hann fær okkur til að hugsa. Það kemur gjarnan fyrir að manneskjur fá eitthvað á tilfinninguna varðandi viðfangsefni, skoðun eða eitthvað annað. Þá er mikilvægt að vera í umhverfi þar sem hægt er að reyna, jafnvel af veikum mætti, að koma orðum á þessa tilfinningu án þess að skilja hana sjálfur og fá stuðning til þess í hópnum. Það er ótrúlega spennandi að fylgjast með fæðingu hugsunar sem byggir fyrst aðeins á óljósri tilfinningu og með samtakamætti tekst að koma orðum á hana. Krafan um skýrleika getur verið svo heftandi en í stað þess er óskin um sameiginlegan skilning hlýleg og gefur meira öryggi, þar ríkir meiri samábyrgð.

 


 

Varðandi hugmyndina um „að hlusta“, þá er mér mjög minnisstætt þegar ég hlustaði einu sinni á kynningu hjá Helga Garðari Garðarsyni geðlækni þar sem hann talaði um gildi hópmeðferða. Varðandi samræðu hópsins þá sagði hann, „það er ekki nóg að hlusta á orðin það þarf að hlusta á músíkina, hlusta með hjartanu.“ Þessi orð kveiktu verulega í mér. Og hér aðeins seinna ætla ég að gera tilraun til þess að fjalla frekar um þessa hugmynd. Kennarinn þarf þá ekki að vera aðalatriðið í bekkjarsamræðunni, en hann getur hlustað á músíkina í hópnum, með hjartanu, og stuðlað að heilbrigðum tengslum innan hans.

Sagan af Litla prinsinum á vel við hér.1 Í sögunni af litla prinsinum kennir refurinn litla prinsinum samskipti, hvernig samskipti eru og hvað manni getur yfirsést mikið ef einblínt er á ytra birði en ekki innihaldið. Refurinn segir : „maður sér ekki vel nema með hjartanum, það mikilvægasta er ósýnilegt augunum.“ Og átti þá við að maður verður að finna fyrir fólkinu til þess að sjá það eins það er.

Þá varð mér hugsað til svo fallegrar greinar sem Arnþrúður Ingólfsdóttir, heimspekingur og kynjafræðingur skrifaði. En þar lýsti hún fyrirlestri sem hún fór á hjá Daniel Fisher geðlækni sem talar fyrir nýjum hugmyndum en það er „batamódelið“. Hér grípum við niður í grein Arnþrúðar.

Spurning úr sal: Hvað ef einhver tekur orkuna þína meðan þú sefur?

Eftir fyrirlesturinn gátu áheyrendur spurt spurninga. Flestar voru af praktískum toga, „Hvernig getum við eflt hreyfingu notenda á Íslandi og boðið upp á önnur úrræði en sjúkrahúsvistun?“. Um miðbik spurningatímans spurði kona aftarlega í salnum: „Hvað ef einhver tekur orkuna þína á meðan þú sefur?““ Fisher heyrði spurninguna ekki nógu vel og bað hana um að endurtaka hana hærra. Konan endurorðaði spurninguna:

Hvað ef einhver tekur líffærin þín á meðan þú sefur svo þú missir orku?

Ég fékk sting í magann og yfir mig helltist skömm og vandræðagangur gagnvart hinum í salnum og þá sérstaklega gagnvart Fisher. Hvernig snýr hann sig út úr þessu, hvernig skiptir hann um umræðuefni, hvernig þaggar hann niður í henni, hugsaði ég. En um leið áttaði ég mig á því að Fisher vildi ekki þagga niður í konunni, ekki frekar en hann þaggaði niður í sínum eigin hugmyndum um vélmennin. Fisher sagði, án mikillar umhugsunar:

Kannski er það ekki þannig að líffærin þín séu í raun og veru tekin frá þér á nóttinni, kannski er þetta frekar tilfinningaleg upplifun, jafnvel andleg (spiritual), að þér finnst þú missa orku á nóttunni. Kannski þarftu að finna leiðir til að halda í orkuna og fá orku. Þú getur fengið orku í gegnum sambönd. Tengstu fólki. Fólk gefur þér orku. Svo getur verið að þú þurfir kannski að ræða við einhvern um þetta í meiri smáatriðum.

Í meiri smáatriðum. Ég klökknaði og það slaknaði á spennu í huga mínum og hjarta. Ég sá aldrei framan í konuna en ég heyrði hana segja: „Mhm, ókei.“ Næsta spurning, sagði Fisher […]2

Fisher hlustar með hjartanu. Í stað þess að þagga konuna niður og útiloka reynsluheim hennar í þessu umhverfi, þá mætir hann henni nákvæmlega þar sem hún er stödd. Það valdeflir manneskjuna og stuðlar að bata hennar að þurfa ekki að afneita þeim stað sem hún er stödd á.

 


 

Orð Helga Garðars um „að hlusta á músíkina“ gerðu það að verkum að ég fór að kynna mér frekar þessa hugmynd sálkönnunarfræðanna að hlusta á músíkna í hópnum. Hann benti mér að að skoða hugmyndir Daniel Stern og mig langar að gera tilraun til að reifa skilgreiningar á tveimur hugtökum hér.

Í fyrsta lagi er það:
Samhljómur (resonance) þá er hlustað eftir þeim samskiptum innan hópsins sem byggja á innsæi. Þar fara engin augljós skilaboð fram á milli einstaklinga en eitthvað er samt sem áður numið.

Samhljómurinn ætti að vera forsenda hópamyndunar og er nauðsynleg forsenda tilfinningatengsla á milli einstaklinga í hópnum. Samhljómurinn er mikilvægur svo manneskju finnist hún tilheyra, hann býr líka til möguleikann fyrir fólk að deila reynslu innan hópsins. Þannig verður samhljómurinn formið fyrir innihaldið. Samhljómurinn er ekki orðin sjálf, heldur það sem er á milli orðanna. Merkingin er í millibilinu.

Í öðru lagi er það:
Samhuglægni/samveruleiki (intersubjectivity) er möguleikinn á því að vera í hópi og tengjast, skilja, setja sig í spor annarra, skynja, deila, vita, finna fyrir, taka þátt í. Það sameiginlega sem hópurinn á, sameiginleikinn í hópnum. Þeir sem mynda hópinn eru virkir í sameiginleikanum. Stern segir að: „Samveruleika-samband (intersubjective contact) verður til þegar tveir einstaklingar upplifa næstum sama andlega landslagið um stund“ – Þetta er frumafl sem stuðlar að meiri nánd sem svo dýpkar samveruleikann.

Tilfinningatengslin eru músíkalskt ferli. Þessi músíkalska hlið sem skiptir svo miklu máli fyrir sameiginlegan skilning dvelur í hinu ósagða, til dæmis, tóni í rödd, hrynjandi, takti, andlitstjáningu og stellingu.

Músíkin fer að miklu leyti fram í undirmeðvitundinni, á ómeðvituðu svæði. Á þessum 90% af ísjakanum sem er undir sjávarmáli, en stýrir samt flestu sem gerist hjá þessum sýnilegu 10% sem eru yfir sjávarmáli.

Sumir vilja jafnvel meina að gildi og viðbrögð okkar dvelji á undirmeðvitundarsviðinu og birtist í músíkinni en ekki eins mikið á sýnilega svæðinu.

 


 

Samhljómur í lýðræði er því að hlusta eftir merkingunni sem er á milli hlutanna. Þar sem við hlustum á músíkina með hjartanu. Við hlustum á það sem er á milli orðanna og við hlustum til að skilja. Það gefur möguleika á tilfinningatengslum og þeirri upplifun að tilheyra. Án þeirrar tilfinningar skortir lýðræði.

Í lokin þá langar mig að lesa upp ljóð eftir Stein Steinarr sem lýsir þeim veruleika þegar manneskja er útilokuð frá samfélagi sínu og þekkir ekki þá tilfinningu að tilheyra.

Sultur
Ég var soltinn og klæðlaus
  og sjúkur af langvinnum skorti,
en þið sáuð mig ekki
  fremur en rykið á götunni.
Og ég hrópaði á miskunn, á hjálp,
  eins og drukknandi maður,
en þið heyrðuð það ekki,
  og genguð brosandi fram hjá,
eins og storkandi tákn þeirrar stöðu,
  sem gerir mann feitan.
Og ég starði í spor ykkar
  dimmum, válegum augum.
Og hjarta mitt logaði af hatri
  hins sveltandi manns,
eins og hlæjandi vitfirring
  syði í blóði og taugum.
Og ég benti með aflvana hendi
  á andlit hins næsta
og öskraði:
  Djöfullinn! DJÖFULLINN!

Af hverju skyldi ég nú velja að tala um tilfinningatengsl á málþingi Félags heimspekikennara? Jú, ég hef áhyggjur af því að þegar heimspekin og heimspekilega aðferðin sem er í eðli sínu lýðræðisleg aðferð og tekur því bæði til mannréttinda og jafnréttis, verður stærri hluti af skólastarfinu að þá takmarkist hún of mikið við rökhugsun á kostnað tilverunnar og raunveruleikans. Mér finnst því mikilvægt fyrir lýðræðið í skólanum og reyndar lýðræði almennt að við þróum með okkur læsi á músíkina í hópnum og samhljóminn í lýðræðinu.

Sigurlaug Hreinsdóttir

Tilvísanaskrá

Arnþrúður Ingólfsdóttir. (2011). Háværar hugsanir, skynsamlegar ofskynjanir? Hugleiðingar út frá ráðstefnu Hugarafls: Að læknast af geðröskun. Hugsandi. Sótt 10. apríl af http://hugsandi.is/articles/havaerar-hugsanir-skynsamlegar-ofskynjanir-hugleidingar-ut-fra-radstefnu-hugarafls-ad-laeknast-af-gedroskun

Forlagið. (2010). Litli prinsinn. Forlagið. Sótt 16. apríl 2013 af http://www.forlagid.is/?p=565824

Aftanmálsgreinar

1. Sjá Forlagið 2010.

2. Sjá Arnþrúði Ingólfsdóttur 2011.