Heimspekismiðja í 5. og 6. bekk

eftir Brynhildi Sigurðardóttur

Í vetur kenndi ég í fyrsta sinn heimspeki á miðstigi. Ég er kennari í Stapaskóla og kenndi nemendum í 5. og 6. bekk heimspekismiðju, sex tíma á viku (þrjá tvöfalda tíma) í sjö vikur hver hópur. Í hópunum voru 7-12 nemendur og aðrir nemendur í árgöngunum sóttu á sama tíma smiðjur í tækni, list- og verkgreinum.

Ég prófaði alls konar verkefni með krökkunum, sumt gekk herfilega og annað var mjög skemmtilegt. Það sem reyndist erfiðast var að nota „klassískan Lipman“, þ.e. aðferðina hópur les texta – nemendur setja fram spurningar – samræða tvinnuð út frá spurningunum – heimspekilegar æfingar nýttar til dýpkunar. Nemendum gekk illa að tengja við textana og fannst eigin spurningar lítils virði.

Það sem gekk best voru æfingar sem við unnum á hreyfingu og hugtakaskalar. Ég set hér tengla á nokkur af þessum verkefnum:

  • Heimspekileikir/upphitunaræfingar eftir Jóhann Björnsson (https://vefir.mms.is/flettibaekur/namsefni/sextiuogatta_aefingar/). „Hvað er í kassanum“ þjappaði hópunum til dæmis alltaf vel saman.
  • Aðrar æfingar frá Jóhanni reyndust líka vel (sama bók): „Hvað sérðu“ er góð byrjunaræfing í heimspeki, „Málað með sápukúlum“ er mjög skemmtilegt verkefni sem kveikir í hugsun krakkanna og „Hvað ef“ spurningar urðu algjört uppáhaldsverkefni í sumum hópunum, nemendur gátu ekki hætt að búa til nýjar hvað ef spurningar sjálfum sér og hópfélögum til gamans.
  • Þýðingar á skemmtilegum verkefnum frá The Philosophy Man (Jason Buckley) sem finna má í Verkefnabanka Heimspekitorgsins nýttust mér líka mjög vel með 10-11 ára krökkum. Allir hóparnir þjálfuðu einbeitinguna með æfingunni „Ef hundurinn minn væri hestur“. Þessi æfing er erfið til að byrja með en með nokkrum endurtekningum ná krakkar tökum á henni og finnst hún þá mjög skemmtileg.
  • Jason Buckley leggur mikla áherslu á að blanda leik og hreyfingu inn í heimspekikennsluna. Æfing eins og „Að kjósa með fótunum“ er bæði einföld og skemmtileg. Til að fá sem mest út úr heimspekileikjunum er gott að hafa nokkur aðalatriði í huga og þau eru útskýrð í þessum kennsluseðli.
  • Hugtakaskalar eru verkefni sem hafa eiginlega aldrei klikkað hjá mér. Skemmtileg byrjunaræfing er „krúttskalinn“ sem á uppruna sinn hjá Jóhanni Björnssyni eins og fleiri skemmtileg verkefni. En þessa aðferð má síðan laga að hvaða hugtaki sem er. Í vetur vann ég t.d. hugtakaskala um hugtakið „skemmtilegt“ með mörgum af hópunum mínum. Þá byrjaði ég vinnu nemenda með því að láta alla hafa tvo miða. Á annan miðann áttu þeir að skrifa dæmi um eitthvað sem þeim fannst mjög skemmtilegt en á hinn miðann áttu þeir að skrifa dæmi um eitthvað sem þeim fannst alls ekki vera skemmtilegt (leiðinlegt var oftast hinn endinn á skalanum). Ég tók svo miðana, skrifaði þá upp og ruglaði, ritskoðaði og bætti við dæmum til að auka breiddina í umræðunni. Í næsta tíma merktum við svo langa línu yfir þvera stofuna sem við vorum að vinna í, með „skemmtilegt“ á öðrum endanum og „alls ekki skemmtilegt“ á hinum og í miðjunni var ég alltaf með „???“ sem þýddi „veit ekki“ eða „bæði og“. Svo dreifði ég prentuðum miðunum í ruglaðri röð til nemenda, allir komu upp og lásu upp miðann sinn og settu hann þar sem þeim fannst hann eiga að vera á línunni. Í þessari fyrstu umferð lagði ég ekki mikla áherslu á rökstuðning. En í næstu umferð máttu nemendur koma upp og færa miða sem þeim fannst ekki vera rétt staðsettur á línunni. Þá hófst fjörið og nú gerði ég skýra kröfu um að það mætti ekki færa miða nema útskýra mjög vel af hverju.

Ég byrjaði kennslustundir alltaf á einhvers konar upphitun. Ég kenndi krökkunum t.d. að spila SET sem er frábær rökhugsunarleikur. Spilið má kaupa sem spilastokk, t.d. í Spilavinum og þá skipti ég stokknum oft á milli tveggja 4-5 manna hópa. En oftast spilaði hópurinn leikinn saman á netinu, við settum þá þessa síðu upp á stóran snertiskjá og þegar krakkarnir töldu sig hafa fundið set (þrennu) komu þeir upp og snertu spilin. Ef þeir höfðu rangt fyrir sér fögnuðum við því, skoðuðum hvað hefði klikkað svo að hópurinn gæti lært af því. Þegar þeir höfðu rétt fyrir sér voru verðlaunin þau að settið raðaðist til hliðar við spilin. Kostur við þessa vefútgáfu af spilinu er að við vitum alltaf að það eru sex set í borðinu en þegar spilað er með spilastokknum þá getur það komið fyrir að ekkert set finnist í borðinu og þá þarf að bæta við spili í von um að betur gangi.

Að lokum reyndist líka vel að grípa tækifæri sem gáfust. Í tengslum við dag heimspekinnar í nóvember fann ég t.d. mynd sem ég sýndi nemendum. Í góðan hálftíma sögðu þau frá hvað þau sáu í myndinni, báru sig saman og útskýrðu fyrir hvert öðru.

https://www.un.org/en/observances/philosophy-day

Vonandi nýtast þessar ábendingar kennurum sem eru að fara af stað með heimspekikennslu á miðstigi grunnskólans.

Námskeið í samræðulist og færniþáttum heimspekilegrar samræðu

HVAR: Á Zoom

HVENÆR: föstudaginn 25. júní 2021, kl. 15-18, og laugardaginn 26. júní 2021, kl. 10-13 & kl. 14-17

VERÐ: kr. 17.500 (greiða verður þátttökugjald að fullu fyrirfram, ath. að mörg stéttarfélög endurgreiða kostnað)


Ath. Námskeiðið fer fram á ensku. Skráning fer fram með því að senda tölvupóst á heimspekikennarar@gmail.com


Félag heimspekikennara stendur fyrir námskeiði undir leiðsögn Oscar Brenifier og Isabelle Millon, þar sem þátttakendur þjálfast í heimspeki­legri samræðu og samræðustjórnun.

Í þessu námskeiði munum við hugsa út fyrir kassann með ýmsum æfingum. Við munum skoða hvernig heimspekileg samræða virkar og á hverju hún byggist sem verkfæri til að dýpka gagnrýna hugsun. Við bjóðum þátttakendum að vera með í ferli sem miðar að því að verða gerandi í hugsandi samtali: að læra með öðrum, að sjá hvernig okkar eigin orð hafa merkingu ekki bara fyrir okkur heldur líka fyrir öðrum.

Þetta ferli felur í sér í fyrsta lagi að við þurfum að skoða framkomu okkar: að hlusta, að halda fjarlægð frá sjálfum sér, að taka ábyrgð á orðum sínum, að læra að treysta sjálfum sér, þolinmæði.

Í öðru lagi felur ferlið í sér vinnu með heimspekilega færni: röksemdafærslu, túlkun, að greina forsendur, að spyrja réttra spurninga, að hugtaka.

Þessi viðhorf og færni gilda bæði í samskiptum við fullorðna og börn.

Leiðbeinendur námskeiðsins eru:

Oscar Brenifier
http://www.pratiques-philosophiques.fr/en/welcome/

Isabelle Millon
https://isabellemillon-pratique-philosophique.com/en/home/

Aðalfundur Félags heimspekikennara og Jóhann Björnsson

Aðalfundur Félags heimspekikennara fer fram í húsnæði Verzlunarskóla Íslands, fimmtudaginn 3. júní, kl. 17.

Hefðbundin aðalfundarstörf fela í sér kosningu stjórnar og er hér með auglýst eftir framboðum í stjórn Félags heimspekikennara.

Jóhann Björnsson: „Heimspekikennslan, aðalnámskráin og fjölmenningin“

Jóhann Björnsson heimspekikennari við Réttarholtsskóla og doktorsnemi við Menntavísindasvið ræðir hvernig hæfniþættir aðalnámskrár grunnskóla styðja við heimspekikennslu í grunnskólum. Auk þess gerir hann grein fyrir bók um heimspeki og fjölmenningu sem út kom árið 2012 í tilefni af því að nú er hún aðgengileg í Verkefnabanka Félags heimspekikennara.

Hér má nálgast viðburðinn á Facebook: Aðalfundur Félags heimspekikennara og Jóhann Björnsson

22. Fréttabréf heimspekikennara er komið út

Í nýju Fréttabréfi heimspekikennara er m.a. sagt frá aðalfundi félagsins eftir tvær vikur, því helsta sem er á döfinni á árinu og birtar æfingar úr Verkefnabanka Heimspekitorgsins.

Í Fréttabréfi heimspekikennara birtast fréttir af starfsemi félagsins og ýmsu öðru sem tengist því sem félagsmenn fást við.

Hér má skoða eldri tölublöð fréttabréfsins.

Aðalfundur 2019-2020

Aðalfundur miðvikudaginn 29. janúar, kl. 18:30

Aðalfundur Félags heimspekikennara verður haldinn 29. janúar, 2020, kl. 18.30-20.00 í Græna salnum, Verzlunarskóla Íslands, Ofanleiti 1 í Reykjavík.

Dagskrá hefst með erindi Ólafs Stefánssonar. Eftir kaffihlé verður síðan aðalfundur haldinn með hefðbundinni dagskrá.

Dagskrá fundarins:

18:30 Heimskingi.
Ólafur Stefánsson sögumaður og heimspekingur götunnar miðlar af reynslu og innsýn.

19.00 Kaffi

19.15 Aðalfundur
           Skýrsla stjórnar
           Reikningar félagsins
           Kosningar
           Önnur mál

Framboð í stjórn og ósk um önnur mál verða að hafa borist stjórn Félags heimspekikennara fyrir fundinn. Framboð berist í netfangið heimspekikennarar@gmail.com

Hér má nálgast Facebook-síðu viðburðarins, þar sem hægt er að staðfesta mætingu.

Nýárskveðja

Stjórn Félagsheimspekikennara óskar félagsmönnum og samstarfsaðilum gleðilegs árs.

Norræn samtök um heimspekilega ráðgjöf, sem Félag heimspekikennara er aðili að, halda tíundu ráðstefnu sína, í Brandbjerg Højskole á Jótlandi í Danmörku, dagana 22.-24. maí 2020. Ráðstefnan verður auglýst nánar á Fb síðu samtakanna og munum við líka segja frá henni í væntanlegu fréttabréfi þegar nær dregur.

Margt er á döfinni á vettvangi Félags heimspekikennara á þessu ári. Til stendur að endurtaka Dialogos-vinnustofu með þeim Guro Hansen Helskog og Michael Noah Weiss, en þau komu til landsins í september sl. í boði félagsins. Dagsetning þessarar vinnustofu verður auglýst nánar síðar.

Á þessu ári verður einnig blásið til ráðstefnu um heimspekilega samræðu, listir og mannkostamenntun. Ráðstefnan verður haldin á tveimur dögum í vikunni 9.-16. ágúst og meðal aðalfyrirlesara á henni verða David Carr, prófessor emeritus frá Edinborgar-háskóla í Skotlandi, og Adam Wallenberg, list- og heimspekikennari frá Svíþjóð.

Félag heimspekikennara mun halda Aðalfund á næstu vikum, þar sem kosin verður ný stjórn, og verður hann auglýstur á næstu dögum.

Gleðilegt árið 2020!

Dialogos-vinnustofa

Félag heimspekikennara auglýsir námskeið helgina 13.–15. september 2019

Leiðbeinendur:

Guro Hansen Helskog
Michael Noah Weiss

Í þriggja daga vinnustofu munu Guro og Michael leiða samræður um heimspekilegar spurningar sem snerta okkur persónulega. Þau munu kynna mismunandi aðferðir til að nálgast viðfangsefnin.

Námskeiðið nýtist kennurum sem vilja innleiða samræðu í kennslustofunni. Samræða eflir sjálfstraust, æfir tjáningu og stuðlar að lýðræðislegum skóla. Aðferðirnar sem kynntar eru í vinnustofunni nýtast þó alls staðar þar sem hópar koma saman, hvort sem það er í fjölskyldu, atvinnulífi eða félagasamtökum.

Guro er dósent við Universitetet i Sørøst-Norge (USN). Hún hefur langa reynslu af iðkun heimspekilegrar samræðu og er höfundur bókarinnar Philosophising the Dialogos Way towards Wisdom in Education gefin út af Routledge 2019.

Michael er dósent við sama háskóla. Hann hefur þróað hugleiðsluaðferð sem hann kallar guided imagery.

Svona lýsir Guro nálgun sinni:

„Dialogos-vinnustofa eða dialogos-samræður þýðir að við fáumst við heimspekilegar hugmyndir og hugtök bæði út frá reynslu og út frá röklegum, tilfinningalegum, tilvistarlegum og andlegum forsendum. Þungamiðja aðferðarinnar er sameiginleg rannsókn á fyrirbærum í lífslistinni. Meðal æfinga sem við gerum má nefna sókratíska samræðu, hugleiðslu, rök með og móti, heimspekilegar gönguferðir, æfingar um líkama og huga sem og samræður sem ganga út frá texta og tilfinningum. Diologos stendur fyrir uppeldislega og heimspekilega vinnu sem miðar að því að næra innra líf okkar og tengsl við aðra með því að leita í sameiningu að visku eftir mismunandi leiðum.“

Námskeiðið fer fram á ensku.

Staður: Réttarholtsskóli

Tími: 13.–15. september (föstudagur kl. 17–20, laugardagur kl. 9–12 og 13–15, sunnudagur 11–14)

Þátttökugjald: 20.000 kr.

Þátttaka tilkynnist í tölvupósti á heimspekikennarar@gmail.com

Þátttaka er staðfest með því að greiða námskeiðsgjaldið:

kt. 671296-3549
rn. 140-26-000584

Vel heppnað námskeið um beitingu heimspekinnar í samfélagsfræði- og íslenskukennslu

Félag heimspekikennara stóð fyrir námskeiðinu Að beita aðferðum heimspekinnar í samfélagsfræði- og íslenskukennslu þriðjudaginn 20. ágúst s.l. Fjallað var um hvernig heimspekin getur lagt til ákveðnar aðferðir við að fást við hin ýmsu viðfangsefni sem íslensku – og samfélagsgreinakennarar fást við. Gagnlegar æfingar, verkefni og ýmis viðfangsefni voru kynnt sem kennarar geta nýtt sér í kennslustundum.

Áhersla var lögð á að skoða hvernig vinna megi með spurningar, fullyrðingar, hugtakagreiningu, skoðanamyndun, rök og samræður svo fáein dæmi séu nefnd. Þátttakendur fengu einnig að spreyta sig á nokkrum vel völdum verkefnum.

Kennari á námskeiðinu var Jóhann Björnsson grunnskólakennari og doktorsnemi í heimspeki menntunar.

Að beita aðferðum heimspekinnar í samfélagsfræði – og íslenskukennslu

Langar þig stundum til þess að breyta til og brjóta upp kennslustundirnar? Langar þig til þess að efla skapandi og gagnrýna hugsun í því fagi sem þú kennir? langar þig til að hvetja nemendur þína til að rökræða námsefnið? Viltu næra undrun nemenda þinna?

Félag heimspekikennara heldur námskeið um það hvernig nota megi aðferðir heimspekinnar í kennslustundum í íslensku og samfélagsfræði. Leiðirnar sem kynntar verða eru auðveldar í framkvæmd og tilvaldar til þess að auka fjölbreytnina í skólastarfi og geta þær tekið þann tíma sem hver kennari vill.

Þótt fyrst og fremst sé horft til kennara í íslensku og samfélagsgreinum eru allir kennarar velkomnir enda má yfirfæra viðfangsefni námskeiðiðins yfir á fleiri greinar en íslensku og samfélagsfræði.

Staður og tími: Réttarholtsskóli við Réttarholtsveg, þriðjudaginn 20. ágúst kl. 09.00-12.00.

Kennari: Jóhann Björnsson kennari við Réttarholtskóla og doktorsnemi í heimspeki með börnum og unglingum

Þátttökugjald: 5.000 kr.

Þátttaka tilkynnist til Jóhanns Björnssonar, í tölvupósti á johannbjo@gmail.com

Þátttaka er staðfest með því að greiða námskeiðsgjaldið:

kt. 671296-3549
rn. 140-26-000584

___________


Félag heimspekikennara er fagfélag kennara á öllum skólastigum. Það vinnur að ýmsum verkefnum með það fyrir augum að efla heimspekikennslu á öllum skólastigum. Sjá nánar um félagið , tilgang þess og sögu, á eftirfarandi upplýsingasíðu.