Kvenheimspekingar koma í kaffi: Róbert Haraldsson fjallar um Annette Bayer

Annette BayerNæsti kvenheimspekingur sem verður kynntur í röðinni „Kvenheimspekingar koma í kaffi“ er Annette Bayer (1929-2012). Róbert Haraldsson mun kynna þennan fyrrum kennara sinn næsta fimmtudag, 11. apríl, kl. 15 í Árnagarði 201.

Annette Bayer var siðfræðingur og Hume-sérfræðingur sem fékkst m.a. við sálfræði siðferðis. Hún var þeirrar skoðunar að konur og karlar felli siðadóma á grundvelli ólíks gildismats. Karlar séu réttlætismiðaðri en konur hugi frekar að umhyggju og trausti. Saga/kanóna heimspekinnar hefur að mestu verið verk karla sem hefur leitt til þess að hlutverk umhyggju og trausts hafa verið vanrækt innan heimspekinnar.

Kvenheimspekingar koma í kaffi: Hannah Arendt

Næsti kvenheimspekingur sem verður kynntur í röðinni „Kvenheimspekingar koma í kaffi“ er Hannah Arendt (1906-1975). Arendt er ekki hvað síst þekkt fyrir að hafa gefið út bók sem hafði að geyma fyrstu greininguna á alræðiskerfum nasisma og stalínísma eftir seinni heimsstyrjöldina og svo fyrir skrif sín um Eichmann-réttarhöldin, en kvikmynd sem snýst einkum um aðkomu hennar að þeim er til sýnis í Bíó Paradís þessa dagana (í dag þriðjudag kl. 20:00, 22:10 og miðvikudag, fimmtudag, föstudag, laugardag og sunnudag kl. 17:50, 20:00). Arendt skrifaði í kjölfarið mikið um stjórnmál, hvernig vettvangur stjórnmála hefði verið eyðilagður og hugleiddi leiðir út úr ógöngum pólitíkur.

Páll Skúlason og Sigríður Þorgeirsdóttir munu kynna heimspeki Arendt og munu þau ræða hvaða erindi hún eigi við samtímann til skilnings á kreppu á mörgum sviðum samfélagsins.

Verið velkomin í kaffi fimmtudaginn 4. apríl, kl. 15, í Árnagarði 201.

Viðtal við heimspekikennara: Jón Thoroddsen

Jón Thoroddsen kennir heimspeki og lífsleikni í Laugalækjarskóla í Reykjavík. Jón segir okkur nánar frá störfum sínum í svörum við nokkrum spurningum Heimspekitorgsins hér að neðan:

Spurning 1: Hvar ert þú að kenna heimspeki? Hvernig er heimspeki byggð inn í skólastarfið? Hvaða áfangar eru kenndir? Er heimspeki valgrein eða skylda á ákveðnum brautum?

Jón: Ég kenni heimspeki í Lauglækjarskóla í Reykjavík.  Ég kom til starfa haustið 2006 þegar ég tók að mér lífsleiknikennslu í skólanum, en lífsleikni kenni ég með heimspekilegri áherslu. Seinna bættist við heimspekival í 9. og 10. bekk sem er með dálítið öðru sniði. Continue reading Viðtal við heimspekikennara: Jón Thoroddsen

Málþing 13. apríl: Innleiðing grunnþáttanna lýðræði, mannréttindi og jafnrétti í þverfaglegu skólastarfi

Laugardaginn 13. apríl stendur Félag heimspekikennara fyrir málþingi um „Innleiðingu grunnþáttanna lýðræði, mannréttindi og jafnrétti í þverfaglegu skólastarfi“.

Félag heimspekikennara er fagfélag kennara á öllum skólastigum og er meginmarkmið þess að efla samstarf heimspekikennara í skólum og þeirra sem starfa við æskulýðsstarf á öðrum vettvangi, sem og að vinna að eflingu heimspekikennslu hérlendis með því að vera ráðgefandi aðili gagnvart fræðslu- og skólayfirvöldum um tilhögun heimspekikennslu í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum. Continue reading Málþing 13. apríl: Innleiðing grunnþáttanna lýðræði, mannréttindi og jafnrétti í þverfaglegu skólastarfi

Kvenheimspekingar koma í kaffi: Elísabet prinsessa af Bæheimi

Fyrirlestraröðin um kvenheimspekinga heldur áfram. Á hverjum fimmtudegi er sjónum beint að kvenheimspekingi úr sögu heimspekinnar. Næst mun Þóra Björg Sigurðardóttir tala um heimspeki Elísabetar frá Bæheimi. Fyrirlesturinn verður fluttur í dag, fimmtudaginn 21. mars, í Árnagarði, stofu 201 kl. 15:00.
Continue reading Kvenheimspekingar koma í kaffi: Elísabet prinsessa af Bæheimi

Bloggað um málstofu

Ármann Halldórsson hefur bloggað um fyrirlestur á nýafstöðnu Hugvísindaþingi. Þar hlustaði hann á Nönnu Hlín Halldórsdóttur á málstofunni “Róttæk heimspeki samtímans” og í bloggi sínu dregur Ármann sinn skilning á fyrirlestrinum og umræðum í kjölfarið. Lesið þetta hjá Menntamannsa. Í lok bloggsins lofar Ármann að skrifa næst um fyrirlestur Erlu Karlsdóttur á sömu málstofu.

Kvenheimspekingar koma í kaffi, fimmtudaginn 14. mars

Nýlega hófst röð erinda til kynningar á kvenheimspekingum í sögu og samtíð.

Næsti kvenheimspekingur sem verður kynntur í röðinni „Kvenheimspekingar koma í kaffi“ er Mechthild von Magdeburg (1207/10 – 1282/1294). Mechthild er einn af stóru dulspekingum miðalda. Hún var begína, en samfélög begína og nunnuklaustur buðu helst upp á möguleika fyrir konur til þess að stunda fræðistörf á þessum tíma. Mechthild gaf út margra binda verk, „Hið flæðandi ljós guðdómsins“, þar sem hún lýsir sambandi sálarinnar við guð m.a. sem erótísku ástarsambandi.

Skúli Pálsson mun fjalla um heimspeki Mechthild von Magdeburg. Verið velkomin í Árnagarð 201, kl. 15 á fimmtudag (14. mars). Aðgangur er ókeypis.

Einnig er hægt að fletta viðburðinum upp á fésbókinni þar sem einnig berast áminningar og frekari upplýsingar reglulega.