Rökfræði fyrir heimspekikennara

Catherine McCall heimspekingur og kennari í Skotlandi er að undirbúa rökfræðinámskeið fyrir heimspekikennara. Staður, tími og verð námskeiðsins er enn ekki ákveðið en Catherine er að kanna áhuga á námskeiði af þessu tagi. Eru einhverjir kennarar á Íslandi sem hafa áhuga á þátttöku í slíku námskeiði? Þá er upplagt að ýta á “like” hér að neðan. Continue reading Rökfræði fyrir heimspekikennara

Fréttabréf

Í vor hefur ritstjórn Heimspekitorgsins gert tilraun við að setja upp tölvupóst fréttabréf fyrir heimspekikennara. Fréttabréfið er sent út í upphafi hvers mánaðar og segir fréttir af starfi félags heimspekikennara. Í hverju fréttabréfi eru líka tenglar inn á verkefnabanka Heimspekitorgsins sem geymir heimspekiverkefni fyrir nemendur á öllum aldri og kennsluleiðbeiningar af ýmsu tagi. Fyrsta fréttabréfið má skoða hér og tengla inn á gömul fréttabréf má alltaf nálgast á heimspekitorginu.

Hér má skrá sig í áskrift að fréttabréfinu. Það kostar ekki neitt og auðvelt er að skrá sig úr áskrift ef þess er óskað seinna meir.

SOPHIA – ráðstefna 2012

SOPHIA eru samtök barnaheimspeki kennara í Evrópu. Samtökin halda árlega ráðstefnu þar sem félagsmenn kynna hugmyndir og verkefni, skiptast á skoðunum og styrkja tengslanet sitt. Næsta ráðstefna þeirra verður í Serbíu 14.-16. september 2012 og nánari upplýsingar um ráðstefnuna, skráningu, ferðir og gistingu má nálgast hér.

Viðfangsefni ráðstefnunnar er “heimspeki í heimspeki með börnum” (Philosophy in Philosophizing with Children). Tekið er við tillögum að málstofum til 1. júní 2012 og hér má nálgast nánari upplýsingar um hvernig senda á inn erindi.

Heimspekileg æfing 11. apríl – allir velkomnir

Félag heimspekikennara býður til heimspekilegrar samræðu 11. apríl kl. 20.00 á kennarastofu Verzlunarskóla Íslands. Stjórnandi æfingarinnar er Ármann Halldórsson, formaður félags heimspekikennara og kennari við VÍ.

Viðfangsefni samræðunnar verður samræðan sjálf, eðli hennar og strúktúr. Spurningar sem lagt verður upp með:

  • hlutverk stjórnandans
  • tilfinningar og trúnaður í samræðu
  • er samræðan leikur?
  • hvert er hlutverk kímni í samræðunni?

Haft verður fremur frjálst og flæðandi form á samræðunni og mun hún þá lúta þeim hugmyndum sem fram koma í henni sjálfri.

Allir velkomnir!

Námskeið Oscar Brenifier, sumar 2012

Sjöunda alþjóðlega heimspekinámskeið heimspekistofnunar Dr. Oscar Brenifier og félaga verður haldið 6.-12. ágúst 2012. Námskeiðið er haldið á ensku og fjöldi þátttakenda verður 25-30 manns. Þátttökugjald er 600 EUR og innifalið í því er námskeiðsgjald, fæði og húsnæði. Nokkrir íslenskir heimspekikennarar hafa nú þegar farið á námskeið hjá Oscar Brenifier og telja reynsluna mikilvæga og lærdómsríka. Nánari upplýsingar um námskeiðið og verk Dr. Brenifier má nálgast á heimasíðu hans.

Sumarnámskeið IAPC í Mendham, NJ

Árlegt sumarnámskeið IAPC (Institute for the Advancement of Philosophy for Children) verður haldið 4. -11. ágúst 2012. Námskeiðin eru haldin í gömlu klaustri í dreifbýli New Jersey og óhætt er að segja að þátttaka í þeim sé góð næring fyrir líkama og sál auk þess að vera góð þjálfun fyrir þá sem vilja styrkja færni sína í heimspekilegri samræðu og samræðukennslu.

Á námskeiðunum er námsefni eftir Matthew Lipman og félaga notað til að þjálfa þátttöku í heimspekilegu samræðufélagi og samræðustjórnun. Þátttakendur fá þjálfun í að greina heimspekileg hugtök og að finna heimspekilegar áherslur í námsefni og daglegri umræðu. Fræðilegar undirstöður heimspeki með börnum eru einnig til umfjöllunar.

Nokkrir íslenskir kennarar og heimspekingar hafa á undanförnum árum tekið þátt í námskeiðunum í Mendham og mæla eindregið með þeim. Nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu IAPC og í sérstakri auglýsingu um námskeiðið sumarið 2012.

Heimspeki í leik- og grunnskólum: Fyrstu skrefin

Félag heimspekikennara og þróunarhópur um heimspekilega samræðu í skólum Garðabæjar heldur námskeið 9. og 10. mars 2012 í Garðaskóla, Garðabæ. Gestakennari á námskeiðinu verður Liza Haglund heimspekingur og kennari sem starfar við kennaradeild Södertörns Högskola í Stokkhólmi. Dagskráin hefst kl. 13.00 föstudaginn 9. mars á fyrirlestrinum „Réttur barna og unglinga til að hugsa saman – heimspekileg samræða á öllum sviðum menntunar.“ Allir eru velkomnir.

Nánari upplýsingar má sjá í auglýsingu.

Dagskrá námskeiðsins:

Continue reading Heimspeki í leik- og grunnskólum: Fyrstu skrefin

Heimspekikvöld félagsins 10. nóvember

Fimmtudaginn 10. nóvember býður félag heimspekikennara til samræðu um heimspekikennslu. Fundurinn verður í Verzlunarskóla Íslands kl. 20.00 og þar mun Dr. Haukur Ingi Jónasson flytja dálítinn pistil og bjóða þátttakendum að ræða eftirfarandi :

Því hefur verið haldið fram að heimspeki sé mikilvæg og að mikilvægt sé að kenna ungu fólki að hugsa heimspekilega. En hvernig er best að þessu staðið? Hvað þarf til að heimspekin snúist um eitthvað annað en sjálfa sig? Hverjar eru sálrænar forsendur heimspekilegar hugsunar? Hvernig verður heimspekilegri aðferð best miðlað?

Heimspekikvöldið er öllum opið og kostar ekki neitt.