Innleiðingarferli aðalnámskrár 2011 er í fullum gangi. Í skólum er rýnt í grunnþætti menntunar, metið hvort og hvernig gera þurfi breytingar á skólanámskrá, kennsluhættir og námsmat tekið til endurskoðunar. Hópar kennara og skólastjórnenda funda og vinna saman á ýmsan hátt. Heimspekikennarar hafa margt fram að færa í þessu innleiðingarferli því ljóst er að ástundun heimspekilegrar samræðu stefnir að þjálfun margra þeirra hæfniþátta sem aðalnámskráin leggur áherslu á. Brynhildur Sigurðardóttir heimspekikennari í Garðaskóla lýsir tengslum heimspekilegrar samræðu við grunnþætti menntunar í glæru sem má skoða hér.
Nýlega var haldinn fundur skólastjórnenda í Reykjavík og unnin “þjóðfundaumræða” um grunnþættina læsi, jafnrétti og lýðræði og mannréttindi. Þessi vinna er síðan endurtekin í hverjum skóla með öllum starfsmönnum.
Í Garðabæ hefur starfsfólk allra skóla unnið saman undir hatti Menntaklifs. Þar hafa starfsmenn sótt námskeið um námsmat, eru búnir að lesa almenna kafla námskrárinnar og hafin er málstofuröð um grunnþætti menntunar.
Sambærileg verkefni eru eflaust í gangi í öllum skólasamfélögum.
Hvernig ert þú að tileinka þér þá menntahugsjón sem ný aðalnámskrá felur í sér?