Siðfræði – námskeið hjá EHÍ

Hefur þú velt fyrir þér spurningum og álitamálum af siðferðilegum toga? Langar þig til að geta myndað þér hlutlæga og gagnrýna skoðun á slíkum málum? Á námskeiðinu Siðfræði: að greina, gagnrýna og bæta siðferði hjá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands verða markmið og möguleikar siðfræðinnar kynnt á aðgengilegan hátt.

Kynnt verða helstu hugtök og kenningar siðfræðinnar. Rætt verður um hvernig best er að hugsa og ræða um siðferðileg vandamál og greina siðferðileg rök. Einnig verður fjallað um hin fjölmörgu andlit siðfræðinnar og þau svið veruleikans sem hún tengist. Sérstaklega verður minnst á siðfræði eins og hún tengist hugmyndum okkar um fjölmiðla, náttúru, lýðræði og mannréttindi.

Námskeiðið byggist upp á fyrirlestrum og umræðum um sígild dæmi úr sögu siðfræðinnar og nýleg dæmi úr umhverfi okkar. Markmiðið er að í lok námskeiðs hafi þátttakendur öðlast ferskari og skýrari sýn á spurningar um hvað sé rétt og skylt að gera í tilteknum aðstæðum.

Á námskeiðinu er fjallað um:
– Hver eru hugtök og kenningar siðfræðinnar?
– Hvað er siðferði?
– Hvað er siðferðilegt vandamál?
– Hvað eru siðferðileg rök?

Fyrir hverja:
Námskeiðið er ætlað öllu fólki með áhuga á að greina, gagnrýna og bæta mannlegt siðferði.

Kennari:
Dr. Henry Alexander Henrysson, er stundakennari við Háskóla Íslands og verkefnisstjóri verkefnisins Efling gagnrýninnar hugsunar og siðfræði í skólum.

Skráning og nánari upplýsingar hér.