Aðalfundur félags heimspekikennara var haldinn í Verzlunarskóla Íslands laugardaginn 9. júní. Félagið vex hægt og þétt og Ármann Halldórsson fráfarandi formaður þakkaði það góðu félagsstarfi og vexti í heimi heimspekikennslunnar á Íslandi. Fundurinn hófst með skemmtilegu námskeiði Jóhanns Björnssonar sem miðlaði af fjölbreyttri reynslu sinni af heimspekikennslu.
Helstu fréttir af aðalfundinum eru þessar:
- Ármann Halldórsson flutti skýrslu um störf félagsins á liðnu starfsári og sagði síðan af sér formennsku. Í stað hans var Kristian Guttesen kosinn formaður. Félagsmenn þakka Ármanni vel unnin störf. Hann á mestan heiður að því að endurvekja starfsemi félagsins og halda henni gangandi síðustu ár. Á síðasta ári ber hæst að félagið hélt heimspekilegar æfingar sem eru vettvangur til að æfa sig í samræðu. Félagið hélt heimspekikvöld með Hauki Inga Jónassyni og tók þátt í framkvæmd tveggja námskeiða fyrir heimspekikennara sem haldin voru í Garðabæ. Stjórn félagsins gaf umsögn um umsóknir í þróunarsjóð námsgagna og er ánægð með útkomuna úr sjóðnum en tveir aðilar fengu styrk til námsefnisgerðar fyrir heimspekikennslu.
Continue reading Fréttir af aðalfundi