Útlit er fyrir að mikil gróska verði í heimspekikennslu á Íslandi næsta vetur. Félag heimspekikennara undirbýr sína dagskrá í sumar um mun leggja áherslu á mánaðarlegar uppákomur þar sem heimspekilegar samræðuæfingar spila stórt hlutverk. Kennarar geta sótt námskeið og ráðstefnur um heimspekikennslu bæði að hausti og vori, skólanámskrár eru í þróun og tvær heimasíður tengdar heimspekikennslu eru í mótun.
Heimspekikaffihúsið heldur áfram á laugardögum kl. 14-16 á Hressó í Austurstræti.
Í Landakotsskóla er heimspekikennarinn Ylfa Björg Jóhannesdóttir að móta skólanámskrá í heimspeki fyrir alla árganga skólans. Hún leitar í smiðju Matthew Lipman við vinnslu námskrárinnar.
Í Garðabæ munu kennarar í leik- og grunnskólum taka þátt í stóru þróunarverkefni sem felur í sér að námskrá verður skrifuð fyrir leik- og grunnskóla og kennarar sækja námskeið og taka þátt í umræðuhópum þar sem þeir þjálfa heimspekilega samræðu sem kennsluaðferð. Námsefni verður þróað og á nýju ári verður haldin ráðstefna með góðum gestum sem segja bæði frá fyrstu skrefum í heimspekikennslunni og verkefnum sem byggja á áralangri reynslu.
Heimspekitorgið verður áfram í mótun á vegum félags heimspekikennara. Á vegum Heimspekistofnunar HÍ er í gangi undirbúningur að annarri heimasíðu sem einnig mun nýtast heimspekikennurum vel en það er heimasíða um kennslu í gagnrýninni hugsun og siðfræði.
Heimspekistofnun í samstarfi við Félag heimspekikennara og Menntavísindasvið HÍ undirbýr ráðstefnu um heimspekikennslu sem haldin verður í Reykjavík í október 2011.