Málþing um gagnrýna hugsun og menntun verður haldið í Hannesarholti þriðjudaginn 2. desember kl. 20.00. Málþingið er haldið í tilefni af því að nýlega kom út bókin Hugleiðingar um gagnrýna hugsun: Gildi hennar og gagnsemi eftir heimspekingana Henry Alexander Henrysson og Pál Skúlason. Athyglinni verður sérstaklega beint að hlutverki gagnrýninnar hugsunar í menntun.
Gagnrýnin hugsun kemur einmitt víða fyrir í þeim textum sem skilgreina íslenskt menntakerfi. Hugtakið kemur fyrir í siðareglum kennara, nýjum aðalnámskrám og í lögum um grunnskóla er tekið fram að leggja skuli áherslu á „hæfni nemenda til að skilja orsakasamhengi og draga rökréttar ályktanir“. En hvernig eigum við að fara að því? Er það mögulegt? Hvaða máli skiptir gagnrýnin hugsun?
Ásgeir Beinteinsson skólastjóri opnar málþingið með hugleiðingum um efni bókarinnar og Henry Alexander flytur erindi um samband gagnrýninnar hugsunar og siðfræði. Loks mun Elsa Haraldsdóttir fjalla um gerð kennsluefnis um gagnrýna hugsun sem hún vinnur að fyrir efstu bekki grunnskóla og fyrsta þrep framhaldsskóla. Aðgangur er ókeypis, en uppröðun í Hljóðbergi verður í kaffihúsastíl og veitingar til sölu.
Sjá nánar: http://www.hannesarholt.is/vidburdur/heimspekispjall/