Maria Zambrano

Kvenheimspekingakaffi – Heimspeki Mariu Zambrano

Maria Zambrano
Verið velkomin í Kvenheimspekingakaffi á fimmtudag, 13. mars, kl. 15 í Árnagarði 301.
Jón Ragnar Ragnarsson mun fjalla um heimspeki Mariu Zambrano.

Maria Zambrano fæddist árið 1901 í Velez, Malaga á Spáni. Zambrano var merkur heimspekingur og rithöfundur sem lét eftir sig mikið safn rita. Hún tók virkan þátt í starfi lýðræðissinna á tímum borgarastyrjaldarinnar og fluttist úr landi eftir að falangistar komust til valda árið 1939. Zambrano flutti ekki aftur heim til Spánar fyrr en eftir 45 ára útlegð í Mexíkó, Puerto Rico, Kúbu, Ítalíu og víðar. Skrif hennar eru nátengd reynslu hennar í borgarastríðinu og þeirri atburðarrás sem fylgdi í kjölfarið. Aðskilnaður við vini og fjölskyldu, fátækt og veikindi reyndust henni innblástur í heimspekinni sem hún gagnrýndi fyrir að hafa glatað tengslum við veruleikann. Zambrano fékk Cervantes verðlaunin árið 1988.

Heimspeki Zambrano er mjög krefjandi fyrir einstaklinginn en hún er undir greinilegum áhrifum tilvistarstefnunnar og leggur mikla áherslu á frelsi og ábyrgð. Útgangspunktur heimspeki hennar er samt annar en við eigum að venjast úr tilvistarspekinni. Ábyrgðin tengist ekki fyrst og fremst sjálfum okkur og eigin farsæld heldur mun frekar samfélaginu í heild. Zambrano segir jafnframt að eina leiðin til þess að lifa siðferðislega réttlætanlegu lífi sé að taka virkan þátt í mannlegu starfi. Þanig setur hún fram kenningu um lýðræði sem byggir á öðrum forsendum en flest sú stjórnspeki sem við þekkjum í dag. Þar vegur menntun hvað þyngst eða öllu heldur spurningin hvernig við getum menntað fólk til frelsis.