Af ævintýralegu raunsæi og raunsæjum fantasíum

eftir Sigríði Geirsdóttur

Sonur minn, 7 ára, er ákaflega raunsætt barn sem vill gjarnan fá svör við þeim ótal spurningum sem kvikna hjá honum á degi hverjum. Hann gefur lítið fyrir rannsóknir á vandamálum eða umræður um efni sem beinast ekki að einhverri einni sértækri lausn og að hafa rangt fyrir sér af og til er illa séð hjá drengnum. Þetta er barn sem fer óhrætt inn í miðjan barnaskara um miðbik desembermánaðar, brennandi af sannleiksást, með þær fréttir að jólasveinninn sé ævintýri. Fyrir vikið uppsker hann bæði pú og hótanir um barsmíðar en heldur fast við sinn keip örlítið móðgaður og hissa. Sama er upp á teningnum þegar fyrsta barnatönnin dettur og móðirin lætur móðan mása um tannálfinn en finnur fyrir pirruðu augnaráði frumburðarins. Svo byrja eitilharðar samningaviðræður: realistinn vildi prófa þá kenningu að ef tönn væri sett í kók yfir heila nótt þá myndi hún brenna upp og hverfa. Þar sem mömmur setja pening undir koddann hvort sem er kæmi þá til greina að hann fengi borgun þrátt fyrir að hann kjósi vísindalega tilgátuprófun fram yfir ævintýrið um tannálfinn?
Það er allt saman gott og blessað enda byggja lífsgæði okkar sem einstaklinga á gæðum hugsunar okkar, það þarf að þjálfa upp færni í að átta sig á aðalatriðum og rökleysum og að hugsa kerfisbundið um reynslu okkar (Fisher, 1998).
Hins vegar stöndum við oft frammi fyrir því í daglegu lífi að skýr svör fást ekki. Í siðferðislegum málum verður til dæmis alls ekki alltaf einróma niðurstaða og þrautalendingin í þeim tilfellum þjálfar umburðarlyndi gagnvart ólíkum skoðunum og hugmyndum (Hreinn Pálsson, 2002). Ein leið við að þjálfa hugsunina er að leyfa börnunum að velta fyrir sér sjálf í gegnum samræðu hvað er viðeigandi og hvað ekki, hvort siðferðisreglur séu algildar eða hvort þær eigi misjafnlega vel við og með því að tengja þær við sögur og atburði má auka líkurnar á að siðferðisleg gildi séu innrætt sem skili sér svo í siðferðislegri breytni. Sama á við um skapandi hugsun, þar sem málin eru skoðuð frá ólíkum og jafnvel óvæntum sjónarhornum sem skapa nýjar tengingar og annan skilning á því sem við þurfum að kljást við í daglegu lífi.
Múttan sér sóknarfæri í uppeldinu, nú skal barnið tæklað yfir kvöldlestrinum og það tosað með í ferðalag um undur heimspekilegrar samræðu sem fara hér eftir:

Tilraun 1
Mamman (glaðlega): Hvar er hugurinn?
Realistinn (yfirvegaður, án umhugsunar): Hann er í heilanum.
M: Já en gæti verið að hugurinn sé í hjartanu (mamman er sigri hrósandi og tilbúin með mótrök) því þegar þú verður spenntur yfir einhverri hugsun þá fer hjartað að slá hraðar er það ekki?
R: Nei heilinn stjórnar hjartanu. Og hugurinn er auðvitað í heilanum.
M: Jæja en í maganum, ef þú verður kvíðinn færðu þá ekki stundum hnút í magann?
R: Jú. En hugurinn er í heilanum.
M: Af hverju?
R: Af því við hugsum með heilanum.

Tilraun 2
Mamma (Ætlar að bjóða upp á léttar heimspekilegar samræður um siðferðisleg málefni, nú þegar við erum að lesa bók um skrýtinn strák sem er strítt í skólanum): Hvernig heldurðu að honum líði?
Dengsi: Illa. (Þögn)
M: Af hverju er verið að stríða honum?
D: Hann er öðruvísi en hinir. (Þögn)
M: Af hverju þarf að stríða og hrekkja þá sem eru öðruvísi?
D: Veit ekki. (Þögn)
M: Af hverju heldurðu?
D: Veit ekki. (Löng þögn)
M: (Örvæntingarfull, þetta er farið að minna á yfirheyrslu) Ef það væri einhver í skólanum þínum sem þætti skrýtinn, yrði honum strítt?
D: (Umhugsun) Nei. Það er enginn skrýtinn í mínum skóla.
M: ARG
Ætli það sé hægt að koma drengnum í sérkennslu í heimspekilegri hugsun?

Svo gerðist það einn daginn að við eignuðumst nýja heimilisvini. Vini frá fjarlægum heimi sem á fátt sameiginlegt með okkar en er drengnum jafn raunverulegur og strákurinn í næsta húsi. Yfir kvöldlestrinum sitja systkini þung á brún yfir refsigleðinni í húsverði Gryffindor heimavistarinnar og óþolandi kettinum hans frú Norris þótt vissulega væri það óhugnalegt þegar henni var breytt í stein af myrku öflunum. Spennan yfir úrslitaviðureign Gryffindor og Slytherin í Quiddich leik er jafn áþreifanleg og hjá stoltum Manchester aðdáanda í ensku bikarkeppninni. Og skyndilega er ekkert því til fyrirstöðu í jarðbundnum huga að börn þeysist um mismunandi arinstæði með því að henda yfir sig púðri. Siðferðisleg álitamál og barátta góðs og ills eru tilefni heitrar umræðu sem er bæði frjó og áreynslulaus. Þarna kom sérkennslan!
Næst á lestrardagskránni eru bresk börn sem detta út um skápbak inn í vetrarheim og berjast með ljóni og talandi skepnum í harðri orrustu gæskunnar gegn hinu illa. Barnið raunsæja bærir varla á sér fyrr en sögunni er lokið og talar um ævintýraverurnar eins og þær séu aldavinir hans.

Töfrarnir sem eru fólgnir í góðum bókmenntum fyrir börn og unglinga eru langtum viðameiri en að vera góð afþreying eða samvera foreldra og barna. Þegar sagan nær öðrum eins heljartökum á hugum barna neyðast þau til að taka siðferðislega afstöðu og setja sig í spor söguhetjanna. Þarna er uppspretta endalausra vangaveltna og þráðurinn er spunninn enn lengra í leikjum sem eru búnir til eftir fyrirmynd sagnanna.
Það er annars helst að frétta af hinni áhyggjufullu móður að hún hefur grafið sig í kenningar og greinar til að finna haldbærar og vísindalegar skýringar á þessari brennheitu ást vísindahugans á fantasíu. Líklegast féll eplið ekkert alltof langt frá eikinni.

Sigríður Geirsdóttir

Tilvísanir

Fisher, R. (1998). Teaching Thinking. Philosophical Enquiry in the Classroom. London: Cassell.

Hreinn Pálsson. (2002). Valur. Heimspekilegar smásögur. Kennarakver. Reykjavík: Námsgagnastofnun.