Ritstjórn heimspekitorgsins tók stutt viðtal við Hjalta Hrafn Hafþórsson, heimspeking sem starfar á leikskólanum Múlaborg. Hér að neðan segir hann stuttlega frá heimspeki í starfi leikskólans.
Spurning 1: Hvar ert þú að kenna heimspeki? Hvernig er heimspeki byggð inn í skólastarfið? Hvaða áfangar eru kenndir? Er heimspeki valgrein eða skylda á ákveðnum brautum?
Hjalti Hrafn: Ég kenni heimspeki á leikskólanum Múlaborg. Á seinasta skólaári ári (2011-2012) fóru öll börn af elstu deildinni í heimspekitíma aðra hverja viku. Á skólaárinu sem er að ljúka núna (2012-2013) var ég að vinna á yngri deild og var ekki með formlega tíma. Heimspekinám hjá ungum börnum getur hinsvegar oft átt sér stað óformlega í gegnum leik og samræðu og heimspekin er aldrei langt undan hjá mér.
Spurning 2: Hvaða markmið setur þú nemendum í heimspekináminu? Er áherslan á að kynnast ákveðnum spurningum/hugmyndum eða á hugarfærni/sköpun/vinnubrögð? Er kennt um ákveðna heimspekinga og/eða kenningar?
Hjalti Hrafn: Markmiðið sem ég setti mér á skólaárinu 2011-2012 þegar ég var með formlega tíma var að öll börnin gætu fært rök fyrir skoðunum sínum. Það markmið náðist ekki í öllum tilfellum svo ég aðlagaði mig að reynslunni og lagði eftir það áherslu á að börnin næðu valdi á samræðunni. Það er oft stórt skref fyrir 5 ára börn að geta talað saman og skipst á skoðunum, það er mikil vinna og mikil æfing.
Þegar börnin hafa náð valdi á samræðunni er oft næsta skref að átta sig á mótsögnum. Með opnum spurningum eða Sókratískri samræðu er oft hægt að leiða börnin í mótsögn við sjálf sig. Það er stórt skref að fá þau til að átta sig á mótsögninni og takast á við hana.
Þriðja skrefið er að fá þau til að ná þeim áfanga að segja „af hverju“ þau halda eitthvað, það er að segja að færa rök fyrir skoðun. Oft gerist það í framhaldi af því að þau átta sig á mótsögn. Þá skipta þau um skoðun og leiða nýja skoðun af þeim forsendum sem fram komu í samræðunni á undan, eða af einhverju í þeirra reynsluheimi. En jafnvel allra einföldustu röktengsl er ekki á færi allra barna í þessum aldursflokki.
Spurning 3: Hvaða námsefni notar þú?
Hjalti Hrafn: Barnabækur, teiknimyndir, tölvuleiki, ljósmyndir, spil. Ekkert formlegt námsefni í rauninni bara efni sem ég finn og vekur áhuga hjá börnunum og er hægt að leiða þau út í samræðu með.
Spurning 4: Hver er virkni nemenda? Hvernig vinna þeir í heimspekitímum?
Hjalti Hrafn: Mjög góð í flestum tilfellum en þessi aldur verður fljótt þreyttur á að sitja svo ég lærði snemma að hafa tímanna stutta eða brjóta þá upp með leik.
Spurning 5: Hvernig er heimspekinámið metið? Er gefin einkunn? Próf/verkefni/samræða? Annað sem metið er?
Hjalti Hrafn: Nei það er ekkert metið nema hvað ég punkta kannski eitthvað hjá mér varðandi málþroska fyrir foreldraviðtölin.
Spurning 6: Annað sem þú vilt taka fram um heimspekikennslu?
Hjalti Hrafn: Samræðan er grunnurinn sem ég er að vinna með. Samræðan er meira en bara það að tala saman, hún byggist á skoðanaskiptum og að færa rök fyrir skoðunum sínum. Í fyrra vann ég með samræðuna í skipulögðum tímum í anda Matthew Lipman núna reyni ég meira að færa samræðuna út í leikinn. Ég legg einnig meiri áherslu á að börnin tali saman frekar en að þau séu að tala við mig. Það eru stöðugt að koma upp aðstæður sem bjóða upp á samræðu. Með örfáum opnum spurningum er oft hægt að leiða börn út í samræðuna og leiðbeina þeim til þess að komast að eigin niðurstöðum eða sameiginlegum niðurstöðum.
Út frá þessum vinnuaðferðum fór ég þróa lýðræðisnám fyrir börn. Það gengur út á að fá þau til að átta sig á sjálfum sér sem hluta af samfélagi og taka sameiginlegar ákvarðanir sem samfélag. Ég hef prófað mig áfram með þetta og byggt mikið á hugmyndafræði John Dewey. Þetta gerist í leiknum og í daglegu starfi en ekki í afmörkuðum tímum. Samræðuaðferðin er lykilatriði varðandi lýðræðislega ákvarðanatöku af þessu tagi.