Einar Kvaran heimspekingur fékk síðastliðið sumar styrk frá Forvarnarsjóði Reykjavíkur til að vinna verkefnið Frívaktin í félagsmiðstöðinni Frostaskjóli. Verkefnið hefur það að markmiði að nýta heimspekilega samræðu í forvarnarskyni og kanna hversu öflugt tæki slík samræða er í þessu samhengi. Einar fékk Félag heimspekikennara til samstarfs við undirbúning umsóknar um verkefnið. Eftir að styrkur var veittur snemma hausts 2012 var skipuð verkefnisstjórn sem í sitja fulltrúar úr stjórn félagsins og Frostaskjóli auk Einars. Elsa Haraldsdóttir hefur nú gengið til samstarfs við verkefnastjórnina og hér að neðan segja þau Einar og Elsa frá stöðu verkefnisins:
Forvarnarverkefnið Frívaktin, fór af stað í júlí á síðasta ári þegar Forvarnarsjóður Reykjavíkur veitti verkefninu styrk til að standa fyrir heimspekilegum samræðum með ungu fólki, í félagsmiðstöðinni Frostaskjóli. Um er að ræða samvinnuverkefni Félags heimspekikennara og Frostaskjóls.
Sú hugmynd sem lagt var upp með var að gera könnun hjá væntanlegum þátttakendum verkefnisins um það hvað þá langaði mest að ræða. Samræðustjórnendur myndu síðan skipuleggja samræðurnar með hliðsjón af niðurstöðum könnunarinnar. Fljótlega kom upp sú hugmynd að það gæti styrkt verkefnið ef nemendur í heimspekikennslu kæmu að því, t.d. við að útbúa könnunina og taka þátt í samræðustjórnun. Heimspekikennaranemar við Háskóla Íslands tóku vel í þessa tillögu og úr varð að nokkrir þeirra tóku þátt í verkefninu.
Þróunin varð á þann veg að kennaranemarnir tóku virkan þátt í gerð og úrvinnslu könnunar sem lögð var fyrir nemendur Hagaskóla í desember. Til að stuðla að frekari þátttöku þeirra og til þess að þeir gætu fengið vinnu sína metna var ákveðið að setja af stað málstofu í tengslum við verkefnið.
Í stuttu máli er efni málstofunnar að rannsaka gildi og hlutverk heimspekilegrar samræðu í forvarnarstarfi. Þátttakendum málstofunnar gefst m.a. tækifæri á að hafa Frívaktina sem rannsóknarvettvang. Gengið hefur verið frá flestum praktískum atriðum varðandi málstofuna og hefst hún í byrjun mars. Þrátt fyrir að málstofan hafi ekki verið auglýst sérstaklega er þegar búið að tryggja góða þátttöku. Eitt af markmiðum málstofunnar er að þátttakendur fái tækifæri til að birta umfjöllun um efni málstofunnar á opinberum vettvangi, t.d. á heimasíðu Félags heimspekikennara, heimspekitorg.is.
Búið er að kynna Frívaktina vel fyrir nemendum Hagaskóla, bæði í könnuninni og með heimsóknum í bekki. Í byrjun mars mun síðan fara af stað tilraunahópur sem stefnt er að því að hittist í nokkur skipti. Í aprílbyrjun er stefnt að því að höfða til stærri hóps og stíla markvisst inn á þau atriði sem nemendahópurinn taldi vera mikilvægustu umræðuefnin samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar.
Í lokin er rétt að geta þess að Frívaktin fékk góða kynningu á starfsdegi félagsmiðstöðva í Reykjavík. Nokkrir þeirra sem sóttu þessa kynningu hafa skráð sig í málstofuna sem gæti hugsanlega verið fyrsta skrefið í þá átt að fleiri félagsmiðstöðvar tengist verkefninu í framtíðinni.
Mars 2012, Einar Kvaran og Elsa Haraldsdóttir