Félagi heimspekikennara barst bréf frá Henry Alexander Henryssyni sem starfar í haust sem gestafræðimaður hjá Vísindavef Háskóla Íslands. Henry Alexander hefur áhuga á að stækka heimspekihluta Vísindavefsins og kallar eftir samstarfi við heimspekikennara við þá uppbyggingu. Í bréfi sem við birtum hér að neðan biður hann kennara sem hafa nýtt Vísindavefinn í kennslu eða hafa áhuga á að gera það að koma til samstarfs um uppbyggingu á spurningum og svörum um heimspekileg efni. Einnig óskar hann eftir hugmyndum um hvernig hægt sé að nýta Vísindavefinn í kennslu. Heimspekitorgið veit til þess að heimspekikennarar hafa nýtt efni á Vísindavefnum með nemendum og við hvetjum viðkomandi til að setja sig í samband við Henry.
Bréf Henry Alexanders Henryssonar dagsett 19. september 2012:
Ágætu heimspekikennarar,
Vísindavefurinn hefur á undanförnum árum birt hátt í 300 svör um heimspeki sem gerir vefinn eitt helsta gagnasafn um heimspeki sem til er á íslensku. Vefurinn stendur nú fyrir átaki í að svara enn fleiri spurningum heimspekilegs eðlis en nokkrir tugir spurninga bíða enn fræðimanna við Háskóla Íslands. Fleiri og fjölbreyttari spurningar mættu þó gjarnan berast Vísindavefnum á næstunni um heimspeki. Þetta misseri mun ég starfa sem gestafræðimaður við Vísindavefinn og vil gjarnan komast í samband við heimspekikennara sem gætu hugsað sér að nota vefinn í kennslu. Hlutverk vefsins í kennslustofunni gæti ekki síst verið að hvetja nemendur til þess
að leita að nýjum og ferskum heimspekilegum spurningum og senda inn. Mætti þá til dæmis hugsa sér að nemendurnir sjálfir myndu svara spurningunum í framhaldinu eftir bestu getu og bera svo svör sín saman við svarið sem birtist á vefnum. Hver veit nema að þeirra svar eða hluti úr því muni rata
inn á vefinn í framhaldinu.
Ég vil endilega hvetja þá kennara sem hafa áhuga á að nýta sér Vísindavefinn við kennslu að setja sig í sambandi við mig, netfangið er hah@hi.is, og við getum þá rætt frekara fyrirkomulag.
Með góðri kveðju,
Henry Alexander Henrysson
—