Viðtal við heimspekikennara: Atli Harðarson

Í ágúst 2012 tók heimspekitorgið stutt viðtal við Atla Harðarson, heimspekikennara við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi.

Spurning 1: Hvernig er heimspeki byggð inn í skólastarfið í Fjölbrautaskóla Vesturlands?

Atli: Heimspeki er valfag við FVA en hún er ekki skylda á neinni braut við skólann.

Spurning 2: Hvaða markmið setur þú nemendum í heimspekináminu? Er áherslan á að kynnast ákveðnum spurningum/hugmyndum eða á hugarfærni/sköpun/vinnubrögð?

Atli: Áherslan er jöfnum höndum á að kynna hugmyndir og að fá nemendur til að hugsa sjálfstætt.

Spurning 3: Hvaða námsefni notar þú?

Atli: Námsefni er mest glefsur úr klassískum ritum (allt frá Lao Zi, Búdda, Biblíunni og Platoni til kafla úr verkum nýaldar- og nútímaheimspekinga). Einnig hef ég notað bók eftir sjálfan mig sem heitir Afarkostir og bók um heimspekisögu eftir Brian Magee (ísl. þýð. Robert Jack).

Spurning 4: Hver er virkni nemenda? Hvernig vinna þeir í heimspekitímum?

Atli: Stundum hafa áfangarnir verið með fjarkennslusniði og þá hafa nemendur þurft að skrifa hugleiðingar eða pælingar í hverri viku (og það hafa verið einstaklingsverkefni). Þegar um kennslu í hóp er að ræða skiptast á fyrirlestrar, samræður með þátttöku kennara og hópvinna nemenda án þátttöku kennara).

Spurning 5: Hvernig er heimspekinámið metið? Er gefin einkunn? Próf/verkefni/samræða? Annað sem metið er?

Atli: Námsmat er fremur hefðbundið. Gefin er lokaeinkunn á kvarða 1 til 10 og hún byggist á ritgerð, verkefnum, virkni í tímum og prófi/prófum. Ef kennslan er fjarkennsla þá er prófið skriflegt lokapróf en annars eru notuð stutt skyndipróf.

Spurning 6: Annað sem þú vilt taka fram um heimspekikennslu?

Atli: Reynsla mín af heimspekikennslu frá 1986 bendir til að heimspeki sé heppilegt valfag og stundum takist að velja texta sem fá nemendur til að hugsa og pæla og rökræða og sjá eitthvað í nýju ljósi. Mér finnst hins vegar ósennilegt að heimspeki sé heppileg skyldugrein. Trúlega skilur hún ekkert eftir hjá öðrum en þeim ganga til leiks af áhuga og forvitni.