Á morgun stendur Félag heimspekikennara fyrir málþingi um innleiðingu tveggja grunnþátta í þverfaglegu skólastarfi, annars vegar lýðræði og mannréttindi og hins vegar jafnrétti.
Félag heimspekikennara er fagfélag kennara á öllum skólastigum og er meginmarkmið þess að efla samstarf heimspekikennara í skólum og þeirra sem starfa við æskulýðsstarf á öðrum vettvangi, sem og að vinna að eflingu heimspekikennslu hérlendis með því að vera ráðgefandi aðili gagnvart fræðslu- og skólayfirvöldum um tilhögun heimspekikennslu í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum.
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, setur málþingið. Dagskrána má sjá neðst í þessari færslu.
Í gær fimmtudaginn 11. apríl 2013 mættu tveir fulltrúar Félags heimspekikennara, þau Elsa Björg Magnúsdóttir og Jóhann Björnsson, í ítarlegt og skemmtilegt viðtal á Útvarpi Sögu um efni og tildrög málþingsins. Hægt er að hlusta á viðtalið hér.
Dagskrá málþingsins sem hefst á morgun laugardaginn 13. apríl kl. 13, og er öllum opið og ókeypis, er sem hér segir:
- Elsa Björg Magnúsdóttir: Raunverulegt gildismat?
- Ingimar Waage: Viðhorf kennara til lýðræðis í grunnskólastarfi
- Jóhann Björnsson: Kennslustund í lýðræði eða lýðræðisleg kennslustund?
- Kristín Dýrfjörð: Er ekki bölvað vesen að tengja grunnþáttinn lýðræði öðrum grunnþáttum?
- Ólafur Páll Jónsson: Lýðræði og mannréttindi sem grunnþáttur: Viðmið, markmið eða aðferð?
- Sigurlaug Hreinsdóttir: Samhljómur lýðræðisins