Félag heimspekikennara er fagfélag kennara á öllum skólastigum.
Tilgangur félagsins er:
- Að efla samstarf heimspekikennara í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum og þeim sem starfa við æskulýðsstarf á öðrum vettvangi, m.a. með því að vera vettvangur fyrir skoðanaskipti um heimspekikennslu.
- Að vinna að eflingu heimspekikennslu hérlendis með því að vera ráðgefandi aðili gagnvart fræðslu- og skólayfirvöldum um tilhögun heimspekikennslu í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum.
- Að hafa forgöngu um endurmenntunarnámskeið og aðra fræðslustarfsemi eftir því sem við á.
- Að vera þátttakandi í umræðu um skólaþróun og beita sér fyrir auknum þætti heimspekilegra viðhorfa í því samhengi.
Sögubrot
Félag heimspekikennara var stofnað 1996 af starfandi heimspekikennurum á ýmsum skólastigum. Fyrstu starfsárin tók félagið þátt í endurskoðun Aðalnámskráa fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla. Guðrún Hólmgeirsdóttir var fyrsti formaður félagsins. Starfsemi félagsins lá síðan niðri um árabil en sumarið 2009 vaknaði það aftur til lífsins og þá var Ármann Halldórsson kosinn formaður.
Félagið vinnur að ýmsum verkefnum með það fyrir augum að efla heimspekikennslu á öllum skólastigum. Nefndir á vegum félagsins vinna að þróun námskrár og undirbúningi námskeiða og annarra atburða. Fulltrúar félagsins skiluðu álitum til Mennta- og menningarmálaráðuneytis vegna endurskoðunar Aðalnámskrár leik-, grunn- og framhaldsskóla 2011. Einnig skilaði félagið álitsgerð vegna frumvarps á Alþingi 2011 um að gera heimspeki að skyldunámsgrein. Skjöl sem félagið sendir frá sér má nálgast hér.
Haustið 2010 komst Heimspekikaffihúsið á legg fyrir atorku nokkurra meðlima. Félagsmenn byrjuðu að halda heimspekilegar æfingar sumarið 2011 og tilgangur þeirra var að áhugasamir fengju vettvang til að prófa ný heimspekiverkefni og kennsluaðferðir.
Félag heimspekikennara stóð að námskeiði með franska heimspekingnum Oscar Brenifier í Garðaskóla haustið 2010. Í mars 2012 stóð félagið að komu Lizu Haglund frá Södertörn Högskola í Stokkhólmi. Hún hélt opinn fyrirlestur um hlutverk heimspeki í skólunum og í kjölfarið helgarnámskeið í Garðaskóla.
Í ársbyrjun 2011 var heimasíðan Heimspekitorg.is opnuð. Ritstjórn síðunnar er skipuð félagsmönnum. Vorið 2012 fengu fjórir félagsmenn styrk frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu til að semja námsefni fyrir heimspekikennslu í leik- og grunnskólum. Skilyrði af hálfu ráðuneytisins var að efnið væri rafrænt og aðgengilegt á vefnum og því taldi hópurinn upplagt að nýta krafta sína í að byggja upp verkefnabanka Heimspekitorgsins.
—