Næsta kvenhheimspekingakaffi verður tileinkað Onoru O’Neill en það er Salvör Nordal sem kynnir hana næsta fimmtudag, 27. mars., kl. 15 í Árnagarði stofu 301.
Onora O’Neill er fædd á Norður Írland og á að baki glæsilegan akademískan feril. Hú stundaði nám við Oxford háskóla og Harvard háskóla þaðan sem hún lauk doktorsnámi undir leiðsögn hins merka stjórnmálaheimspekings John Rawls. Hún hefur kennt við fjölmarga háskóla í Bretlandi og Bandaríkjunum m.a. kennt um árabil við Cambridge háskóla. Þá hefur hún gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum og verið fulltrúi í bresku lávarðadeildinni frá 1999.
Onora O’Neill er einna þekktust fyrir túlkun sína á þýska heimspekingnum Immanuel Kant, en hún hefur skrifað tvær bækur um hann, Acting on Principle: An Essay on Kantian Ethics, 1975 og Constructions of Reason: Explorations of Kant’s Practical Philosophy, 1990. Á síðustu árum hafa skrif hennar í heilbrigðis- og lífsiðfræði vakið verðskuldaða athygli til að mynda bókin Autonomy and Trust in Bioethics frá 2002 og bók um upplýst samþykki og erfaðupplýsingar sem nafnið Rethinking Informed Consent in Bioethics frá 2007, meðhöfundur þeirrar bókar er Neil Manson. Þá hefur hún fjallað mikið um traust í ræðu og riti á undanförnum árum, til að mynda í útvarpsfyrirlestrum á BBC sem birtust í bókinni A Question of Trust árið 2002.