Heimspekikennarar á yngri skólastigum velta oft fyrir sér sömu spurningunum: Hvernig er hægt að virkja nemendur? Hvernig er hægt að koma í gang heimspekilegri umræðu í skólastofunni? Er ástæða til að kenna um sögu heimspekinnar, löngu dauða kalla, í grunnskóla og framhaldsskóla? Hvernig á að meta árangur af heimspekikennslunni, hvenær hefur hún heppnast vel og hvenær ekki? Allar spurningarna mætti draga saman í eina: Hvað er eiginlega heimspekikennsla?
Félag heimspekikennara fékk Pál Skúlason prófessor til að ræða þessa spurningu. Páll gerði greinarmun á náttúrulegum heimspekingum og skólaheimspekingum. Sumir virðast vera heimspekingar að upplagi, náttúrulegir heimspekingar. Það er fólk sem getur ekki látið vera að leitast við að skilja veruleikann og móta eigin sýn á hann. Páll minnti á Brynjólf Jónsson sem skrifaði Sögu hugsunar minnar og hann hvatti áheyrendur til að lesa Einar Benediktsson sem heimspeking. Skólaheimspekingar fjalla um annarra manna sýn á tilveruna.
Öll fög eiga sér sögu og hefðir. Í heimspeki þarf að vera sér vitandi um söguna, sérstaklega um upphaf hennar í Grikklandi. Í umræðum var Páll spurður hvort kennarar sem kæmu úr öðrum fögum gætu þá ekki kennt heimspeki, hvort nauðsynlegt sé að hafa grunn í heimspeki. Páll svaraði að það væri víst nauðsynlegt og hvatti kennara til að sækja sér endurmenntun, fara á námskeið og lesa sér til.
Páll benti á að við kennum með því að líkja eftir okkar eigin kennurum. Hann hvatti áheyrendur til að rifja upp kennara sem þeir hefðu helst lært hjá og skoða fyrirmyndir sínar. Hann minnti á að heimspeki er ekki fyrirliggjandi safn fróðleiksmola sem hægt er að miðla á einfaldan hátt heldur er hún fag sem er ástundað, iðkun heimspekinnar er mikilvæg. Sá sem ætlar að kenna heimspeki verður sjálfur að iðka heimspeki. Fólk sem ætlar að kenna heimspeki verður að gerast heimspekingar sjálft. Þetta er samt ekki auðvelt. Alltaf hafa einhverjir skopast að heimspekingunum fyrir að vilja reyna eitthvað sem ekki sé hægt að gera. Heimspekikennarar þurfi að búa sig undir að verða fyrir því. Maður kennir með því að vera fyrirmynd, maður kennir sjálfan sig. Iðkun heimspeki er sjálfkrafa kennsla. Hvað er þá að iðka heimspeki? Páll stakk upp á aðferð til að skoða það með því að leggja fyrir heimaverkefni. Það var í þremur liðum:
- Ímyndið ykkur að þið séuð Sókrates, Plató eða Aristóteles (Sókrates, sá sem stóð á torginu og rökræddi við hvern sem var en boðaði ekki eigin kenningu; Plató, sá sem setti fram stóra kenningu um eðli veruleikans; Aristóteles, þessi jarðbundni sem byrjaði hverja rannsókn á að skoða hvað aðrir hefðu sagt um málið). Hverjum viljið þið helst líkjast?
- Greinið hvað er líkt og ólíkt með þessum þrem fyrirmyndum og hvað er líkt með þeim og ykkur sjálfum.
- Skrásetjið niðurstöðuna og sendið vini.
Skúli Pálsson