Hugleiðingar í formi síðbúinnar ritfregnar um Lýðræði, réttlæti og menntun eftir Ólaf Pál Jónsson

Í þessari grein reifa ég hugleiðingar um bók Ólafs Páls Jónssonar Lýðræði, réttlæti og menntun frá árinu 2011. Fyrst kynni ég helstu viðfangsefni bókarinnar en get jafnframt bókfræðilegra upplýsinga í neðanmálsgrein (utan blaðsíðufjölda og leturgerðar sem koma fram í lok greinarinnar). Síðan nefni ég athyglisverða og mikilvæga gagnrýni á Aðalnámskrá grunnskóla sem Ólafur Páll setur fram, til handa núverandi umræðu um menntamál. Að lokum nefni ég dæmi um ósvaraða spurningu sem þarft væri að glíma við í kjölfar þeirrar umræðu.

Í bókinni má finna 13 greinar, auk inngangs, sem meðal annars er ætlað að tengja saman hugtökin menntun og lýðræði í heimspekilegu ljósi.1 Utan þeirra viðfangsefna sem nefnd eru í titli leitast Ólafur Páll við að sýna fram á og greina hinn siðferðilega veruleika skólastarfs og menntamála. Bókinni er skipt upp í fjóra kafla sem hver um sig tekur fyrir samnefnt umfjöllunarefni; Lýðræði, réttlæti, menntun og ást og lífsfyllingu.

Nú á tímum, þegar verið er að endurskrifa greinahluta Aðalnámskrár framhaldsskóla, er einkar athyglisvert að lesa tvíþætta gagnrýni sem Ólafur Páll setur fram í bókinni á þáverandi Aðalnámskrá grunnskóla.2 Sé spurt að því hvort lýðræði skipti máli fyrir skóla og hvort skólar skipti máli fyrir lýðræði, heldur Ólafur Páll því fram að í Aðalnámskrá grunnskóla sé „engin tilraun gerð til að … setja hugsjónina um lýðræði í samhengi við markmið skólastarfsins og viðmið um gæði þess“ (16): annars vegar endurspeglast hin almenna lýðræðiskrafa skólans á engan hátt í einstökum námsgreinum og hins vegar getur skilningurinn sem lagður er í lýðræði sem eins konar form stjórnskipunar – hinn algengi skilningur – ekki átt við í skólum.3 Ástæða væri til þess að velta einnig þeirri gagnrýni fyrir sér í ljósi greinahluta Aðalnámskrár framhaldsskóla sem birtist von bráðar. En Aðalnámskrám hinna þriggja skólastiga, það er leik-, grunn- og framhaldsskóla, er ætlað að kallast á sem samverkandi heild.4

Í bókinni kryfur Ólafur Páll fjölmargar áleitnar spurningar á sviði heimspeki menntunar. Ein þeirra sem verður á vegi lesandans er spurningin um hlutverk kennarans. Í huga lesanda er ekki fráleitt að ætla að hlutverk kennarans sé að hjálpa nemendum að finna sitt eigið sjónarhorn á kennsluefnið, en það endurómar hugmyndir Deweys5 um nám sem þekkingarleit. Kennsla sem einungis gengur út á að „þröngva“ sjónarhorni kennarans á efnið upp á nemendur gæti aldrei skapað aðstæður til skapandi hugsunar og virkrar þátttöku nemenda. Í bókinni segir Ólafur Páll kröfuna um lýðræði í menntun snúa að tveimur þáttum, en þá mætti kalla form og inntak:

[A]ð lýðræðislegir samskipta- og samveruhættir eru líklegir til að stuðla að óttalausri tjáningu og skapa vettvang þar sem fólk þorir að segja hug sinn og fær að heyra opinskáar og málefnalegar leiðréttingar og athugasemdir ef því er að skipta (35)

og að nám og þekkingarleit sem verklegt ferli felist nauðsynlega í því „að kveikja einstaklingsbundna reynslu af tilteknum viðfangsefnum svo yfirleitt sé nokkur minnsta von um eiginlegt nám“ (Sama rit). Í framhaldinu segir Ólafur Páll:

Þegar kennarinn spyr sig hvernig hann geti stuðlað að menntandi reynslu
hjá nemendum sínum, verður hann að spyrja sig tveggja spurninga: Hvaða
reynslu hafa nemendur mínir? Og Hvernig get ég tengt námsefnið, sem vísar
á markmið námsins, við reynsluheim þeirra? (36-37)

Þessi framsetning kemur heim og saman við hugmyndina sem reifuð er hér að ofan um þá sýn á hlutverk kennara, að þeir leitist við að hjálpa nemendum að finna eigið sjónarhorn á efnið. Við þessi og fleiri mál glímir Ólafur Páll Jónsson í bók sinni.

Bókin er 209 síður. Meginmál er sett með 11 pt. Caslon-letri á 14 pt. fæti.

Kristian Guttesen

Tilvísanaskrá

Aðalnámskrá grunnskóla – almennur hluti. (2006). Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Aðalnámskrá grunnskóla – almennur hluti. (2011). Reykjavík: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið. (2011). Ný menntastefna – útgáfa aðalnámskrár. Sótt 13. febrúar 2013 af http://www.menntamalaraduneyti.is/frettir/Frettatilkynningar/nr/6004

Ólafur Páll Jónsson. (2011). Lýðræði, réttlæti og menntun: Hugleiðingar um skilyrði mennskunnar. Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Neðanmálsgreinar

1. Ólafur Páll Jónsson. (2011). Lýðræði, réttlæti og menntun: Hugleiðingar um skilyrði mennskunnar. Reykjavík: Háskólaútgáfan. Hér eftir, þegar vitnað er til þessa rits, er látið nægja að geta blaðsíðutals innan sviga.

2. Þess má geta að Aðalnámskrá grunnskóla hefur nú verið endurskoðuð eftir að þessi bók var skrifuð, en ætla má að markmið Ólafs Páls hafi ekki síst verið að hvetja til umræðu í aðdraganda þess.

3. Þetta atriði heyrði undirritaður Kristján Kristjánsson nefna, þ. 30. ágúst 2011, í fyrirlestri um menntunarheimspeki Deweys, í Bratta, húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.

4. Sjá t.d.: http://www.menntamalaraduneyti.is/frettir/Frettatilkynningar/nr/6004 (Skoðað 10. febrúar 2013)

5. Bandarískur heimspekingur sem var uppi á árunum 1859–1952. Hann stofnaði m.a. tilraunaskóla á vegum Háskólans í Chicago þar sem hann lagði mikið upp úr verklegu námi (e. learning by doing). Dewey er töluverður áhrifavaldur í skrifum Ólafs Páls sem kallast víðsvegar á við hann í þeirri bók sem hér er til umfjöllunar.