Málþing Félags heimspekikennara 13. apríl 2013 kl. 13-17 í Réttarholtsskóla
Innleiðing grunnþáttanna lýðræði, mannréttindi og jafnrétti í þverfaglegu skólastarfi
Um 40 þátttakendur sóttu málþingið
Brynhildur Sigurðardóttir skráði glósur
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, setti málþingið
Katrín kom að Mennta- og menningarmálaráðuneytinu þegar kallað var eftir því að skólakerfið kæmi í veg fyrir siðrof í samfélaginu. Það vantaði skilgreiningu í aðalnámskrá á því hvernig ætti að vinna með gildi í skólastarfi – og hvaða gildi skipti máli að vinna með. Þetta var veganesti inn í endurskoðun aðalnámskrár.
Hvernig tvinnast grunnþættir menntunar inn í allt skólastarf? Mesta fyrirstaðan var á framhaldsskólastigi þar sem kennarar eru vanir að kenna einangraðar faggreinar. En í gegnum vinnuna þar sem unnið hefur verið að þróun nýrrar námskrár og innleiðingu hennar þá hefur jákvæður andi skapast í kringum hugmyndafræðina og þá vinnu sem felst í innleiðingunni. Katrín nefndi dæmi frá Höfn í Hornafirði þar sem hefð var fyrir lýðræðislegri þátttöku allra aðila í skólasamfélaginu, t.d. skipulögðu nemendur félagslíf og fleira. Í innleiðingarferlinu hafa margir ólíkir aðilar verið kallaðir að borðinu: nemendur, foreldrar og starfsmenn af öllum skólastigum, sveitarstjórnarmenn og fleiri.
Hvaða hlutverki gegnir heimspekin í innleiðingu nýrrar aðalnámskrár? Á hún að vandamálavæða samfélagið með því að spyrja og efast? Hvert er hlutverk heimspeki í skólunum? Hvaða hlutverki gegnir heimspekin í að efla vinnu með siðferðileg viðfangsefni í skólum? Hvernig undirbúa skólar samfélagsþegna til að fást við spurningar eins og til dæmis líffæragjafir: Þarf upplýst samþykki eða neitun? Eða staðgöngumæðrun – hvernig var umræðan um málið í þinginu? Stóðst hún viðmið góðrar siðfræðilegrar samræðu? Katrín hefur fylgst talsvert með vinnu í grunnskólum og þykir athyglisvert hvað nemendur eru tilbúnir að ræða álitamál og taka viðfangsefni fyrir á abstrakt plani.
Grunnþættirnir eru að einhverju leyti afturhvarf til fortíðar, uppruna grunnskóla á Íslandi og skólaspeki Guðmundar Finnbogasonar. Grunnþættirnir eiga að gera skólana að tæki til að skapa betra samfélag. Katrín vitnaði í Jón Sigurðsson og sjálfstæðisbaráttu Íslendinga sem taldi sjálfstæða þjóð þurfa stjórnsýslu, verslun og skóla. Hún benti á, eins og fleiri áttu eftir að nefna á málþinginu, að grunnskólinn er eini staðurinn í samfélaginu þar sem allir koma saman. Þess vegna er gífurlega mikilvægt að nýta tímann þar vel fyrir alla.
Skólinn á ekki að vera undirbúningur fyrir annað skólastig, hann á að vera staður þar sem fólk kemur saman til að læra, námsins sjálfs vegna.
Spurningar í kjölfar setningarerindis Katrínar Jakobsdóttur:
- Eru grunnþættir menntunar góð lýsing á þeim gildum sem íslenskt samfélag vill grundvalla sig á?
- Hefur heimspekin einungis siðferðilegt hlutverk í námi og skóla? Hefur hún líka þekkingarfræðilegt hlutverk, t.d. sem tæki til að kenna gagnrýna hugsun?
Elsa Björg Magnúsdóttir, siðfræðingur
Raunverulegt gildismat
Erindið í heild má lesa á Heimspekitorgi
Grunnþættirnir lýðræði, mannréttindi og jafnrétti eru siðferðileg hugtök sem eru afar mikilvæg.
Elsa segir íslenskt samfélag vera farið að hugsa í víðara samhengi en áður og sést það m.a. í því að áhersluþættir nýrrar námskrár eru í anda áhersluatriða sem aðrar þjóðir, t.d. Evrópusambandið hefur skilgreint sem mikilvæga.
Elsa var síðasta vetur í kennslufræðinámi þar sem vettvangsnám var stór hluti námsins. Mikill hluti námsins fólst í að hún og samnemendur hennar gerðu athuganir á því hvernig skólar væru að innleiða nýja aðalnámskrá. Þá var innleiðing aðalnámskrár stutt á veg komin og fólst helst í endurskoðun skólareglna. Kennarar voru efins um grunnþættina og Elsa hafði eftir þeim að þeir hefðu áhyggjur af því að það sem allir eiga að kenna, kennir enginn. Ef allir eiga að kenna grunnþættina muni því enginn kenna þá.
Grunnþættirnir eru samfélagsleg yfirlýsing um hvaða gildi er nauðsynlegt er að rækta hjá samfélagsþegnum.
Hvernig á að innleiða grunnþættina? Á Menntavísindasviði heyrði Elsa tal um að innleiðing grunnþáttanna væri óraunhæf. Það væri auðvelt að tala um þessar hugsjónir en erfitt að ýta þeim í framkvæmd. Að mati Elsu er því innleiðingin lykilatriði. Hið huglæga reynist fólki erfitt því um það eru ekki til skýrir staðlar. Húmanískar greinar eiga stundum erfitt uppdráttar og Elsa nefndi sem dæmi að viðskiptafræðinemar við háskólann kalli heimspekinema iðulega „heimsk-spekinema.“ Hún benti á að þetta væri kaldhæðnislegt í ljósi stöðunnar í íslensku samfélagi. Hrunið var ekki skortur á efnislegum gæðum heldur vanræksla á siðferðilegum gildum.
„Kjarnagreinar“ eru látnar ganga fyrir í skólum. Hver er kjarninn? Elsa færir rök fyrir því að kjarninn sé VIÐ SJÁLF.
Hver er staða húmanískra greina? Eru markmið þeirra loðin? Elsa telur þetta viðhorf stafa af vantrú mannsins á sjálfum sér, hann treysti ekki eigin sýn og flöktandi hugarheimi sínum. Hann trúi því að marktæk þekking sé bara töluleg þekking – þetta er einhvers konar vísindahyggja. Að mati Elsu þarf að ávarpa þetta viðhorf og koma í veg fyrir að það yfirtaki alla aðra hugsun. Þetta er ekki stríð gegn raungreinum, heldur ósk um að litið sé til fleiri átta: „abc“ er jafngilt „123“, stafrófið er jafngilt tölunum. Samfélag sem vill teljast siðvætt þarf að kenna siðferði. Allt snýst um mannleg samskipti. Siðfræði snýst um samskipti, réttlæti, skiptinu gæða. Því þarf samræðu og að kenna fólki að taka þátt í umræðunni. Siðferðileg vandamál spretta upp eins og gorkúlur. Við verðum að læra að takast á við þau, þessa kennslu vantar.
Ný námskrá gerir réttlætiskennd og siðferðisvitund hátt undir höfði. Hvernig innleiðum við grunnþættina? Með því að KENNA þá.
Elsa lýsti dæmi úr eigin kennslu. Sem kennaranemi tók hún við hópi 25 nemenda á aldrinum 16-25 ára. Hópurinn kom úr ýmsum áttum en átti það sammerkt að hafa ekki gengið vel í bóknámi. Fagið heimspeki átti að þjóna mjög ólíkum þörfum nemenda þannig að allir fengju háa einkunn. Fyrri kennari hafði brunað í gegnum ýmis viðfangsefni heimspekinnar á hundavaði. Elsa breytti áherslum þegar hún tók eftir því að mikið vantaði upp á hugtakaskilning nemenda og að þeir skildu hvað heimspeki eða siðfræði raunverulega er. Hún fór hægar yfir, tók færri hugtök fyrir og opnaði fyrir samræðu í nemendahópnum.
Elsu sýnist siðfræðin vera fjarverandi í íslenskum skólum. Litla systirin lífsleikni er líka illa stödd, ágætis tilraun til siðfræðikennslu en ómarkviss námsgrein því áhersla sé lögð á efnisleg atriði eins og umferðarreglur en ekki mannsandann og siðferðileg gildi.
Nám á að mati Elsu að felast í að hver manneskja finni sinn eina sanna tón. Heimspekin er vettvangur fyrir þessa sjálfskoðun. En heimspekin hræðir þá sem þekkja hana ekki – hún er misskilin og um hana ríkir mikil vanþekking. Jafnrétti, lýðræði og mannréttindi eru siðfræði. Elsa segir að við eigum að stuðla að því með markvissum hætti að ungmenni hugsi sjálfstætt og með gagnrýnum hætti þannig að þeim þyki eðlilegt en ekki óþægilegt að tala um siðferðileg álitamál.
Spurning úr sal: Hvernig kennum við siðfræði? Það er eitt að tala um jafnrétti og annað að raungera það. Eigum við bara að láta nemendur tala um gildi eins og jafnrétti? Þarf ekki skólastarfið allt að hafa grunnþættina að leiðarljósi? Það er hætta á að heimspekin detti ofan í eina af skúffunum sem skólarnir hafa einkennst af.
Elsa Björg bregst við: Siðfræðilega samræðan felur í sér ákveðin tæki sem nemendur þjálfa í samræðunni og geta síðan yfirfært á ólíkar aðstæður.
Athugasemd úr sal: Námskráin talar um að nemendur læri um lýðræði, með lýðræði, í lýðræði. Skólastofan á að verða eins og lýðræðissamfélag.
Athugasemd úr sal: Nýja námskráin er frábær, lýsir því hvernig skólinn á að vera og ég hef kennt. Grunnskólakennarar hræðast þegar þeim finnst talað of mikið á menntaskólaplani. Skólinn þarf að verða lýðræðislegri stofnun – það er sýndarlýðræði í gangi þar sem næsta þrep fyrir ofan ræður öllu en þykist vera opið fyrir samræðu. Það þarf að byggja inn lýðræðislega starfshætti í reynd, milli allra aðila skólasamfélagsins: nemenda, kennara, stjórnenda, skólayfirvalda.
Spurning úr sal: Hvernig eiga nemendur að nýta sér námið? Nemandinn er stór hluti af náminu og það er einstaklingsbundið hvað hver nemandi tekur til sín. Er öllum nemendum gefið tækifæri til að taka til sín nám?
Elsa Björg bregst við: Nemendur mínir voru mjög óöruggir þegar ég tók við hópnum – en voru orðnir mjög öruggir og vildu fá að tala í samræðunum undir lok námskeiðsins.
Spurning úr sal: Það er ójöfnuður meðal námsgreina í skólanum. Það hallar á þetta húmaníska.
Elsa Björg bregst við: Litið er á siðfræðinga sem dæmandi siðapostula. Málið snýst ekki um það, heldur að virkja nemendur og skólasamfélagið í siðferðilega samræðu.
Spurning úr sal: Skoðaðir þú hvar lífsleiknikennarar eru að kenna heimspekilega?
Elsa Björg bregst við: Ég skoðaði skóla þar sem vettvangsnámið fer fram. Lífsleiknin er frábært fag en ég vildi sjá að markvissar væri farið í siðfræði.
Spurning úr sal: Það er lítill munur á því hvernig ég kenni lífsleikni, myndlist eða samfélagsfræði – ég kenni öll þessi fög sem krítísk fög. Spurnarfærni sem nemendur læra í heimspeki færist yfir í aðrar námsgreinar að sögn samstarfsmanna minna.
Elsa Björg bregst við: Stærðfræðin er tæki. Heimspekin er á sama hátt tæki sem kennir nemendum að spyrja „hvers vegna?“ og þar með þjálfum við nemendur í að spyrja spurninga, þora að spyrja og kunna að forma spurningar.
Athugasemd úr sal: Það er mjög praktískt að kenna heimspeki og grunnhugtök eins og Elsa hefur tilgreint.
- Eiga grunnþættir menntunar greiðari leið inn í húmanískar greinar en raunvísindagreinar?
- Bera heimspekikennarar einhverja ábyrgð í innleiðingu grunnþáttanna, umfram aðra kennara?
- Gegnir lífsleiknin sérstöku hlutverki í vinnu skólanna með grunnþætti menntunar?
Ingimar Ólafsson Waage, heimspekikennari í Garðaskóla
Hver eru viðhorf grunnskólakennara til lýðræðis í skólastarfi?
Ingimar byrjaði á því að rifja upp að námskráin talar um að nemendur læri um lýðræði, með lýðræði, í lýðræði. Þessi nálgun hefur í för með sér nýja vídd: skapgerðar- og viðhorfamenntun. Hann sagði frá því að í grunnskólum Garðabæjar, þar sem hann starfar, eru í gangi umræðuhópar allra kennara í bænum um grunnþætti menntunar sem liður í innleiðingu nýrrar aðalnámskrár. Sú vinna er gott framhald af því sem Elsa Björg lýsti sem „skammt á veg komið innleiðingarferli“.
Ingimar sagði í erindi sínu frá mastersritgerð sem hann hefur nýlokið við. Í rannsókn sinni greindi hann hugtakið lýðræði og telur það mótsagnakennt:
- vald fjöldans – heimskra manna ráð
- átakalýðræði – rökræðulýðræði
- efnislegar þykkar vs. formlegar þunnar kenningar um lýðræðið (Þessi aðgreining kemur frá Carr og Zyngier, verkefnið GlobalDoingDemocracy Project)
Dewey: lýðræði sem gagnvirkni milli einstaklings og samfélags. Lýðræði er veruháttur: Skapgerðareinkenni fremur en form stjórnskipunar. Virkur vilji einstaklingsins til þess að lifa með öðrum manneskjum. Athafnir okkar markast af athöfnum annarra. „Þar sem er hugsun, þar er spenna.“ Reynslunám. Lýðræðið krefst gagnkvæmni: við segjum skoðun okkar og hlustum á skoðanir annarra. Sjónarmið togast stöðugt á og við lifum í þessu reiptogi.
Rannsókn Ingimars var megindleg viðhorfakönnun meðal kennara í tveimur sveitarfélögum. Mælitækið takmarkast af því að svörin eru huglæg og gefa einungis vísbendingar. Ekki er víst að svör þátttakenda í slíkri rannsókn gefi rétta mynd af raunverulegum viðhorfum – þess vegna eru svörin notuð sem vísbendingar frekar en endanleg svör. Spurningum í könnuninni var skipt í fjóra efnisflokka:
- skilningur kennara á lýðræðishugtakinu
- áhrif nemenda á skólastarfið
- lýðræðisleg virkni nemenda
- áhrif kennara á lýðræðislegan þroska nemenda
Þátttakendur: Allir kennarar í tveimur sveitarfélögum, annað á höfuðborgarsvæðinu en hitt á landsbyggðinni.
Niðurstöður: Skilningur kennara á lýðræðishugtakinu
- Langflestir kennarar tengja hugtakið lýðræði við jafnrétti og mannréttindi
- Færri tengja lýðræði við frelsi og þátttöku
- Mjög fáir tengja lýðræði við samræðu, hlustun, rökræðu og umburðarlyndi
Ingimar túlkar þessar niðurstöður þannig að kennarar taki lýðræðinu sem gefnum hlut, frekar en fyrirbæri sem þarfnist þátttöku, viðhalds og næringar.
Niðurstöður: Áhrif nemenda
- nemendur semja bekkjarreglur og fá að kjósa um mál sem varða alla
- nemendur fá sjaldan að hafa áhrif á skipulag kennslu og námsmat í skólanum
Niðurstöður: Lýðræðisleg virkni nemenda
- kennarar telja nemendur mjög virka í kennslustundum og geta tjáð sig opinskátt
- færri kennarar telja nemendur gagnrýna
Samkvæmt könnun Ingimars virðast kvenkennarar lýðræðislegri en karlarnir. Þær leyfa oftar kosningar og eru opnari fyrir umræðu nemenda í kennslustundum.
Niðurstöður: Áhrif kennara á lýðræðislega virkni nemenda
- Margir hvetja nemendur til að hlusta á skoðanir hver annarra
- Margir kennarar forðast að ræða umdeild mál, trúmál eða stjórnmál í kennslustundum. Kennarar virðast óttast innrætingu.
Áhugaverð neikvæð fylgni: kennarar sem forðast að ræða umdeild mál, stjórnmál eða trú eru síður líklegir til að
- hvetja nemendur til að mynda sér skoðanir, kynna mismunandi sjónarmið, veita nemendum tækifæri til að tjá sig, hvetja nemendur til að hlusta á ólíkar skoðanir hvers annars…?
- nemendur þeirra eru ólíklegir til að taka virkan þátt í umræðum, tjá sig opinskátt, virða skoðanir, ræða umdeild mál.
Ingimar túlkar niðurstöður könnunarinnar þannig að í hugum kennara tengist lýðræði fremur hugsjónum en framkvæmd. Þeir hafa tilhneigingu til að taka lýðræðinu sem fyrirfram gefnu. Þetta kallar Ingimar hálf-þykka lýðræðishugmynd. Nemendur hafa áhrif á umhverfisþætti en ekki á innihald kennslunnar.
Ingimar tengdi niðurstöður könnunar sinnar við vinnu sína með umræðuhópum kennara í Garðabæ. Kennarar virðast jákvæðir í garð lýðræðis í skólastarfi en þeir hafa tilhneigingu til að forðast viðfangsefni sem eru umdeild og viðkvæm því þeir óttast innrætingu. Hugsjónabundinn samfélagslegur og siðferðilegur skilningur á lýðræðishugtakinu dugar skammt ef ekki er leitað persónubundnu og tilvistarlegu leiðanna að markinu.
Að mati Ingimars er nauðsynlegt að virkja nemendur til samræðu í kennslustundum – þar sem orðið og námið færist til nemandans frá kennaranum.
Spurning úr sal: Er ekki erfitt þegar kennarar þurfa að skilgreina lýðræðishugtakið með því að velja aðeins þrjá þætti úr listanum sem var gefinn, að velja ekki mannréttindi og slík grundvallargildi?
Ingimar bregst við: Þeir urðu að velja 3 atriði. Þetta kallar fram andstæður en skekkjan er áberandi mikil, huglægu gildin fá mikið vægi en framkvæmdaratriði eins og samræða og hlustun fá mjög lítið vægi.
Spurning úr sal: Hvernig er hægt að hjálpa kennurum að skilja hugtakið lýðræði dýpri skilningi?
Ingimar bregst við: Kennarar líta svo á að gagnrýnin hugsun og siðfræði fljóti með t.d. íslenskukennslu. Þetta viðhorf dugar ekki, það þarf að kenna samræðufærni og gagnrýna hugsun sérstaklega.
Spurning úr sal: Ef lausnin við því að kennarar forðast að ræða trúmál og stjórnmál er að nemendur fái að tjá sína skoðun, verður þá populismi ofan á? Þarf ekki að stilla umræðuna af og spyrja spurninga eins og „ertu að hugsa nógu gagnrýnið?“
Spurning úr sal: Hvernig væri hægt að velja önnur hugtök en jafnrétti, mannréttindi og frelsi í skilgreiningu á lýðræði?
Viðbrögð úr sal: Hvað er forsendan fyrir því að allt hitt virki? Það er hlustun. Hlustun hafði samt mjög lítið vægi í svörum kennaranna.
Spurningar í kjölfar erindis Ingimars Waage og umræðu um það:
- Hættan á innrætingu? Um hvað snýst umræða í kennslustofunni? Að kennarar segi skoðun sína eða að nemendur segi skoðun sína?
Jóhann Björnsson, heimspekikennari í Réttarholtsskóla
Kennslustund í lýðræði eða lýðræðisleg kennslustund?
Jóhann hefur visku sína frá nemendum og miðlar í fyrirlestrinum orðum nemenda sinna.
Aðalnámskrá segir að börn eiga að læra til lýðræðis. Það er ekki erfitt fyrr en á að læra um lýðræði í lýðræði með lýðræði.
Samkvæmt aðalnámskrá skal efnisval og inntak náms mótast af grunnþáttunum, starfshættir og aðferðir eru undir áhrifum grunnþáttanna, vinnubrögð kennara eiga að mótast af grunnþáttunum þannig að stuðlað sé að sjálfstæði, frumkvæði og þróun í skólastarfi.
Er mögulegt að skólastarf sé lýðræðislegt? Er æskilegt að skólastarf sé lýðræðislegt? Jóhann hefur fjallað um það með nemendum sínum hvernig eigi að svara þessum spurningum:
- Baráttan um krútt skólans: Á lýðræði handa nemendum að hafa raunverulegt gildi í skólastarfi eða á það að þjóna sama tilangi og flughermir er fyrir flugmenn?
- Jóhann tekur efnið fyrir í heimspekitímum:
- kostur við að kjósa krútt skólans: skemmtilegt fyrir svo marga
- galli við að kjósa krútt skólans: mögulegt að sá sem er kosinn vilji ekki vera kosinn, þetta sé gert til að gera grín að viðkomandi
- meirihlutinn á að hafa vægi – meirihlutinn vildi kosningarnar. Hvert á vægi minnihlutans að vera?
- Niðurstöður meirihlutans í bekknum voru færðar til skólastjóra af Jóhanni sem dæmi um skemmtilegt verkefni í heimspekitíma. Var verkefnið þá eins og flughermir fyrir flugmenn? Var þetta bara æfing í lýðræði en ekki raunverulegt lýðræðislegt verkefni?
- Á skólastarf að vera lýðræðislegt? Jóhann leggur ýmis dæmi fyrir nemendur sína og biður þá um að meta hvort þau séu:
- Lýðræðislegt og gott fyrir skóla
- Lýðræðislegt og slæmt fyrir skóla
- Lýðræðislegt og gott fyrir nemendur
- Lýðræðislegt og slæmt fyrir nemendur
- Ólýðræðislegt og gott fyrir skóla
- Ólýðræðislegt og slæmt fyrir skóla
- Ólýðræðislegt og gott fyrir nemendur
- Ólýðræðislegt og slæmt fyrir nemendur
- Sæmi um verkefni: Er það lýðræðislegt að vera latur?
- Nemandi a: leti er ólýðræðisleg vegna þess að lýðræðið krefst virkni og leti er óvirkni
- Nemandi b: Já, en er ekki lýðræðislegt að fá að vera latur?
- Þá kemur Sartre skólastjóri í heimsókn…: sérhver nemandi skilur að hann er frjáls í öllum aðstæðum, kemst aldrei undan því að velja, er fullkomlega ábyrgur fyrir vali sínu, hann er öðrum ávallt fyrirmynd. Og það er okkar kennara að aðstoða nemendur við að gera sér grein fyrir þessu.
Spurning úr sal: Gengur það ekki gegn frelsinu að vera alltaf fyrirmynd?
Jóhann bregst við: Jú, það eru alltaf mótsagnir.
Athugasemd úr sal: Það er mikilvægt að benda á hlutverk ábyrgðarinnar.
Spurning úr sal: Er ekki mikilvægt að gera greinarmun á hvað er ákveðið: formið eða innihaldið? T.d. form stundatöflu og megin inntak. Til dæmis að innan stundatöflunnar hafi nemendur ákveðið val. Kennarar (og aðrir) fyllast óöryggi ef það er ekkert form.
Spurning úr sal: Veltir þú fyrir þér mun á strákum og stelpum í þessari samræðu?
Jóhann bregst við: Nei, þetta er ný skeð, þetta á eftir að koma betur í ljós því í Réttarholtsskóla eru t.d. kynskiptir heimspekibekkir.
Spurning úr sal: Samhengi – kennarar þora ekki að lifa í lýðræði, hvert er orsakasamhengið á milli þess að sumir þora en aðrir ekki? Tengist þetta valdsambandi kennara og stjórnenda?
Jóhann bregst við: Í Réttarholtsskóla höfum við prófað að setja alla kennara í að stjórna samræðuverkefnum en það hafa ekki allir treyst sér í það.
Athugasemd úr sal: Margir kennarar hafa áhyggjur af því að opna samræðu í kennslustundum sínum af ótta við að þá muni þeirra eigin skoðanir lita um of skoðanir nemendanna. Þeir virðast líta svo á að í samræðunni eigi þeir að segja sína skoðun. En að mínu mati er það hlutverk kennara að fá nemendurna til að segja sínar skoðanir og hlusta á hver aðra. Ef kennari einbeitir sér að þessu og leiðbeinir nemendum sínum með spurningum sem opna fyrir gagnrýna rannsókn þeirra þá ætti hann ekkert að þurfa að hafa áhyggjur af innrætingu. Það sama gildir eflaust um stjórnendur og kennara.
Spurningar í kjölfar erindis Jóhanns Björnssonar og umræðu um það:
- Jóhann tekur umdeildustu málin í skólanum og gerir þau að viðfangsefnum í heimspekitímum (sbr. rannsókn IW) – gerir þetta hann að lýðræðislegum kennara? Gerir það skólann þar sem hann starfar lýðræðislegri?
- Hvað geta kennarar lært af nemendum sínum um lýðræði?
Kristín Dýrfjörð, lektor við Háskólann á Akureyri
Grunnþátturinn lýðræði
Erindið í heild má lesa á vef Kristínar Laup – síðu um leikskóla
Allir skólar eru pólitískir í raun og veru – og skólamenn pólitískar persónur (Jón Sigurðsson 1842)
Kristín byrjaði á því að skilgreina leikskólann sem fólk út um allt að gera alls konar ólíka hluti og bar þessa hugmynd saman við mynd Raphael af skóla heimspekinganna í Aþenu.
Lýðræði er, að mati Kristínar, sá grundvöllur sem allt skólastarf hlýtur að grundvallast á. Börn eiga rétt á eigin skoðunum og að fá að koma þeim á framfæri. Samkvæmt nýrri námskrá eiga börn rétt á að hafa áhrif á námskrá og viðfangsefnin í skólanum sínum.
Leikskólinn er fyrsta skólastigið.
Lýðræðislegur skóli: Áhersla á jafnrétti og mannréttindi, að hver og einn beri ábyrgð á sjálfum sér. Skóli sem hefur áhuga á að endurnýja sig og vinna gegn mismunun. Lítur á alla aðila sem þátttakendur í samfélagi en ekki afmörkuð brot af skólanum.
Sumir telja það blekkingu að tala um lýðræðislega skóla því kennarar og stjórnendur verði að hafa ákveðið agavald.
Börn í leikskóla eru aldrei ein með sjálfum sér, það er alltaf einhver sem horfir á. Þau eru samt ekki valdalaus. Lýðræðið felst í að hlusta á orð, tóna, myndir, snertingu, fas, látbragð og svigrúm. Skap barns og atburðir hafa áhrif á framvindu og ákvarðanatöku í skólanum. Lýðræðið er ástunda með því að hlusta á alla aðila og taka ákvarðanir út frá því sem birtist.
Lýðræðið er viðvarandi skilgreint of þröngt en eftir hrun hefur umræða um hugtakið dýpkað eitthvað. Áhersla á hlustun hefur komið inn í umræðuna. Martha Nussbaum hefur sett fram kenningu um nauðsynleg skilyrði lýðræðis. Kristín sá í greiningu hennar mjög sterk tengsl við leikskólastarf. Kjarni mennskunnar – listi með nauðsynlegum skilyrði sem hver manneskja hefur rétt til – skilyrðin væru þá kjarni mennskunnar:
- Hver manneskja hafi möguleika til að þroska skynfæri, hugmyndaflug og hugsun – að hafa möguleika á að leita að merkingu í lífinu á eigin hátt. Þetta gera börn til dæmis í rannsóknarverkefnum sínum: Hvernig á að byggja Eiffel turn?
- Tilfinningar. Börn tóku myndir af tilfinningum hver annarra. Að geta tengst hlutum, að geta elskað þá sem bera umhyggju fyrir okkur og annast okkur, að geta elskað, saknað, syrgt, átt langanir og þrár og sýnt þakklæti, réttláta reiði …, að þurfa ekki að búa við hræðslu og angist.
- Að geta lifað í sátt og samlyndi við náttúruna (tengsl) – sjálfbærni, jafnrétti.
- Að geta leikið, hlegið og tekið þátt í endurnærandi athöfnum.
Nussbaum spyr:
- standa allir skólar jafn vel vörð um þau réttindi sem kjarni mennskunnar byggir á?
- hvaða tækifæri eru börnum búin til að ímynda sér, hugsa og íhuga og nota hugann í tengslum við eigin reynslu
- fá börn fjölbreyttan efnivið til þess að hugsa?
- er börnum gert kleift að vinna að verkefnum byggðum á eigin reynslu? Eða getur verið að það sé reynsla og val kennara sem ráði mestu um þau verkefni sem unnið er að í skólanum á hverjum tíma?
Spurning úr sal (viðbragð við spurningu til fyrri fyrirlesara): sést ekki í þessu leikskólastarfi hvernig grunnþættirnir fléttast inn í allt skólastarf?
Svar úr sal: Jú.
Spurning úr sal: Af hverju líta grunnskólakennarar ekki til leikskólans þar sem lýðræðið er inngróið?
Kristín bregst við: Já, kannski aldursfordómar en líka söguleg skýring. Leikskólinn á rætur að rekja í kenningar um tilvist barnsins en grunnskólinn er upprunnin í stofnunum samfélagsins (kirkju).
Athugasemd úr sal: Athyglisvert hvernig í grunnskólanum sést tvennt: agaleysi og lítið lýðræði. Þetta umhverfi er fullt af spennu og allir til í átök. Um leið og börn finna að þau geta haft mótandi áhrif þá slaknar á þessari spennu og agavandamálið hverfur.
Athugasemd úr sal: Grunnurinn að gagnrýninni hugsun er skapandi hugsun. Hlustun er verkfæri hugsunarinnar, hún verður að vera virk.
Spurningar í kjölfar erindis Kristínar Dýrfjörð og umræðu um það:
- Hvernig tengist hugmynd Nussbaum um kjarna mennskunnar grunnþáttum menntunar?
- Er lýðræði leikur? Hvernig leikur er það þá?
Ólafur Páll Jónsson, dósent við Háskóla Íslands
Lýðræði og mannréttindi sem grunnþáttur menntunar: Viðmið, markmið eða aðferð?
Hvert er lokatakmark menntunar? Hvernig ætlum við að komast þangað? Ætlum við að rjúka af stað í gamla farartækinu okkar? Eða ætlum við að lötra áfram, kanna hvaða hindranir birtast og brjótast yfir þær á leiðarenda?
Grunnþáttunum er ætlað að undirstrika meginatriði í almennri menntun og stuðla að meiri samfellu í skólastarfi (úr Aðalnámskrá). Grunnþættirnir eiga að birta eitthvað sem sátt er um að gildi sem almenn menntun. Almenn menntun er kannski best skilgreind í Lýðmenntun Guðmundar Finnbogasonar.
Grunnþættir eiga að tengjast hæfni, viðhorfum og gildum.
- Lýðræði og mannréttindi sem hæfni. En það er takmarkandi að hugsa bara í þá átt. Hæfnin vísar til getu, er tveggja sæta vensl (a hefur hæfni til x), hæfni er jafnan tengd einhverju ákveðnu verki/sviði/tegund athafna… og gildi hæfni ræðst af markmiði sem er annað en sjálf hæfnin.
- Lýðræði og mannréttindi sem viðhorf. En það er takmarkandi að hugsa bara í þá átt. Viðhorf felur ekki í sér athafnir, eiga ekki við um skipulag, eiga ekki við um stöðu fólks.
- Lýðræði og mannréttindi sem gildi. En… Hvað eru gildi? Hvernig tengjast gildi athöfnum? Geta gildi einkennt skipulag?
Grunngildi skólastarfs:
- Aristóteles: „Sérhver list og rannsókn, sérhver athöfn og val, virðist stefna að einhverju góðu. Því var hinu góð vel lýst sem markmiði alls“ (Aristóteles, 1094a1–3).
- Í samtímanum er hugsað um gildi sem tæknilegt fyrirbæri (A hefur gildi fyrir B = A er mikilvægt fyrir B).
- Er kostur á öðru skynsemishugtaki en hinu tæknilega? Tæknilega skynsemishugtakið vs. gildishlaðna skynsemishugtak Forn-Grikkja, þ.e. skynsemishugtak þeirra gerði ráð fyrir að um markmið mætti spyrja hvort þau væru góð eða skynsamleg án þess að líta á markmiðin sem leiðir að æðri markmiðum.
- von Wright: Grísk vísindi mótuðust af þeirri viðleitni að finna í skynsamlegri skipan náttúrunnar reglur fyrir sanngjarnri samfélagsskipan, að finna mælikvarða fyrir hið góða líf og jafnframt hvaða takmörk maðurinn ætti að virða til að sleppa við refsingu.
- • Skv. tæknilega skynsemishugtakinu þá verða skynsemisdómar afstæðir við markmið sem sjálf eru handan skynseminnar – ekki hægt að spyrja um gildi markmiðsins sjálfs. Hvað er skynsamlegt markmið fyrir stofnunina skóla? Gríska, gildishlaðna skynsemishugtakið leysir þennan vanda. Þá svörum við spurningunni „hvað er gott gildi fyrir skóla?“ með „Já,“ ef það er gott gildi fyrir manneskjuna. Til að skilja hvað er góður skóli þá verðum við að skilja hvað er gott líf í samfélaginu og hvernig hjálpar skólinn okkur að nálgast það. Wollstonecraft: grunngildin finnast á tilfinningum sonar og föður, umhyggju manna hver fyrir öðrum.
Skóli sem lýðræðislegt samfélag: Þekkingarsamfélag (miðlun og sköpun, sköpun afurða) og Lærdómssamfélag (menntun og þroski, efling vits)
Spurning úr sal: Extrovert og introvert manneskjur hafa karakter og persónuleika. Extrovertar leita út á við í karakter sínum og persónuleika – og öfugt. Sérðu tengingu við karakter/personleika og innra/ytra?
Ólafur Páll bregst við: Við þurfum hvoru tveggja, ef við beitum bara að hinu tæknilega (hæfninni) vantar hið innra, til hvers við ættum að vera að þjálfa hæfnina.
Spurning úr sal: Er rétt að skipunin um lýðræðið komi að ofan? Ættu kennarar ekki að uppgötva gildi lýðræðis sjálfir?
Ólafur Páll bregst við: Námskráin þarf að vera hæfilega óljós, gefa stefnu en um leið veita þátttakendum frelsi til útfærslu.
Spurning úr sal: Útópían? Er hún þversögn lýðræðisins?
Ólafur Páll bregst við: Já, það sést til dæmis í samanburði á Platón (allur í útópíunni) og Aristótelesi (bendir á jörðina).
Spurningar í kjölfar erindis Ólafs Páls Jónssonar og umræðu um það:
- Hversu skaðlegt er það fyrir þróun námskrár ef áherslan er öll á hina tæknilegu hæfni og skilgreiningu grunngilda vanti?
- Hvert er lokatakmark menntunar? Hver er hin góða manneskja? Hvert er hið góða samfélag?
Sigurlaug Hreinsdóttir, heimspekikennari
Samhljómur lýðræðisins
Erindið í heild má lesa á Heimspekitorgi
Hver er samhljómur lýðræðisins sem virðist svo fullt af togstreitum?
Dýpsta aðgreiningin innan hóps manneskja er kyngreining, hún er augljós, djúp og var fyrsta aðgreiningin sem var tekin til rannsóknar sem slík.
Lýðræðið er byggt á hugsjónum um mannréttindi og jafnrétti.
Heimspekileg samræða er lýðræðisleg samræða. Sameiginlegur skilningur er byggður upp.
Sigurlaug hefur kennt fólki sem tilheyrir jaðarhópum og hafa lítið traust til annarra manneskja og samfélagsins. Nel Noddings telur lýðræðið líklegasta formið til að stuðla að hamingju manna. Til að eiga möguleika á hamingju verður maður að TILHEYRA. Það hlýtur að vera grunnskilyrði í lýðræðinu að allir tilheyri samfélaginu, vinsemd sé sýnd og allir séu velkomnir.
Allir Íslendingar sækja grunnskólann. Hvernig sköpum við þar andrúmsloft þar sem öllum finnst þeir tilheyra?
- Sigurlaug gagnrýnir kröfuna um skýrleika – það verður að hlusta á hið óskýra líka og fá stuðning í hópnum til að draga hugsunina betur fram. Krafan um skýrleika er heftandi en ósk um sameiginlegan skilning er hlýleg.
- Það er ekki nóg að hlusta á orðin, þarf líka að hlusta á músíkina, látbragð, tilfinningarnar og líðanina…
Refurinn kenndi litla prinsinum samskipti í bók Saint-Exupéry. Hann sagði: „Maður sér ekki vel nema með hjartanu.“ Þurfa kennarar að hlusta með hjartanu? Sigurlaug sagði frá dæmi af geðlækninum Fisher sem svaraði óvenjulegri spurningunni úr sal á fyrirlestri hjá sér. Kona í salnum spurði „hvað ef einhver tekur orkuna mína þegar ég sef?“ Áheyrendur fengu hnút í magann því þeim fannst spurningin óviðeigandi eða vandræðaleg. En af miklu innsæi og nærgætni svaraði Fisher spurningunni á þá lund að hann lét spyrjandann heyra að hann hefði heyrt spurninguna og beindi honum inn á þá braut að leita sér persónulegrar aðstoðar. Geta kennarar hlustað með hjartanu á sama hátt og geðlæknirinn sýndi á þessum fyrirlestri?
Samhljómur lýðræðisins:
- er ekki orðin sjálf heldur það sem liggur á milli orðanna.
- intersubjective – það sameiginlega sem hópurinn á. Frumafl sem stuðlar að meiri nánd (intersubjective contact)
Sigurlaug hefur áhyggjur af því að heimspekin takmarkist of mikið af rökhugsuninni. Það er mikilvægt að tilfinningarnar komist að í heimspekilegri samræðu, annars verður gildi samræðunnar aldrei fullkomlega lýðræðislegt.
Spurning úr sal: Takk fyrir erindið. Það er afar viðeigandi lokapunktur eftir fyrri erindi málþingsins. Hvaða gildum ætlum við að beina að fólki?
Sigurlaug bregst við: Hópurinn á að vera hópur, ekki samsafn einstaklinga.
Athugasemd úr sal: Kennarinn þarf hugrekki til að þora að hlusta á tilfinningar nemenda og bregðast við þeim.
Spurning úr sal: Gengur það upp að tjá óskýrar/ómótaðar hugmyndir? Er það liður í að veita öllum aðgengi að heimspekilegri samræðu?
Athugasemd úr sal: Þú leggur áherslu á þátt tilfinninga í að staðfesta það grunngildi að við getum ekki án hver annarra verið.
Athugasemd úr sal: Alltof margir hafa ekki fengið að tilheyra og treysta því ekki sínum eigin hugmyndum. Skólarnir þurfa að staðfesta að hver og einn fái að vera áreiðanleg heimild.
Athugasemd úr sal: Að mínu mati er það ekki rökhugsunin sem útilokar tilfinningarnar. Það eru aðrar tilfinningar sem útiloka tilfinningarnar. Hræðsla, hroki, reiði og afbrýðisemi leyfa annarra manna tilfinningum ekki að komast að.
Spurningar í kjölfar erindis Sigurlaugar Hreinsdóttur og umræðu um það:
- Er hægt að ímynda sér heimspekilega samræðu án tilfinninga samræðenda?
- Er hægt að þjálfa tilfinningaleg viðbrögð eða úrvinnslu á þeim?
- Er hugtakið „sjálfsleiðrétting“ hjálplegt til mótvægis við kröfuna um skýrleika sem Sigurlaug réttilega bendir á að geti verið þrúgandi og hamlandi í samræðunni?
Brynhildur Sigurðardóttir