Fréttir af aðalfundi

Laugardaginn 25. maí sl. var aðalfundur Félags heimspekikennara haldinn í Verzlunarskóla Íslands. Morgunninn hófst með að Hildigunnur Sverrisdóttir hélt námskeið fyrir félagsmenn undir yfirskriftinni „Skapandi dvelur manneskjan – er hægt að kenna henni það?“ Hildigunnur er aðjúnkt og fagstjóri í arkitektúr. Hún kennir við Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands og hefur unnið með gagnrýna kenningu og verufræði. Á næstu dögum verður birt greinargerð um námskeið Hildigunnar hér á Heimspekitorgi.

Sigurlaug Hreinsdóttir var kosin fundarstjóri og stýrði hún umræðum á aðalfundi. Kristian Guttesen, formaður Félags heimspekikennara, flutti skýrslu stjórnar fyrir starfsárið 2012-2013. Hápunktar voru málþingin tvö sem haldin voru á árinu. Þá bar Kristian einnig upp hugmynd um að félagið sæktist eftir samstarfi við Hannesarholt, sjálfseignarstofnun um eflingu jákvæðrar, gagnrýninnar hugsunar í íslensku samfélagi, sem fundurinn samþykkti. Skýrslu formanns má lesa í heild sinni hér. Ársreikningur var lagður fram og samþykktur af félagsmönnum með breytingum. Brynhildur Sigurðardóttir lagði fram tillögu að lagabreytingu þess efnis að í stjórn félagsins skuli sitja fjórir eða fleiri stjórnarmeðlimir, en það er til samræmis við núverandi fyrirkomulag. Var breytingin samþykkt, sjá hér. Einar Kvaran flutti tvær skýrslur, þar sem hann kynnti afrakstur verkefna sem tengjast félaginu en á ólíkan hátt þó. Annars vegar kynnti hann verkefni sitt sem kallast Frostaskjólsverkefnið en Félag heimspekikennara var bakhjarl þess verkefnis á styrkumsókn hans hjá Forvarnarsjóði, en þá skýrslu má lesa hér. Hins vegar kynnti hann afrakstur vinnu þeirra Elsu Haraldsdóttur en þau hafa unnið fyrir félagið að samningu efnis um heimspekikennslu undir samnefndum flipa á Heimspekitorgi, sjá hér. Brynhildur Sigurðardóttir flutti skýrslu ritstjórnar Heimspekitorgs. Hún greindi m.a. frá því að Verkefnabanki Heimspekitorgsins er fullmótaður og kominn á sérsíðu (http://verkefnabanki.wordpress.com/), en skýrslu ritstjórnar má nálgast hér. Þrjár ályktanir voru lagar fram:

  1. Brynhildur Sigurðardóttir lagði fram ályktun varðandi miðla félagsins, sjá hér.
  2. Íris Reynisdóttir lagði fram ályktun um samstarf við Menntamiðju, sjá hér.
  3. Brynhildur Sigurðardóttir lagði fram ályktun um að Félag heimspekikennara greiddi fyrir heimasíðu Verkefnatorgs.

Allar ályktanir voru samþykktar af félagsmönnum.

Kosning stjórnar: Jóhanna Guðrún Ólafsdóttir og Ingimar Ólafsson Waage hafa látið af sínum embættum. Tvö framboð bárust ritara og voru þau Kristín Hildur Sætran og Sævar Finnbogason kosin í stjórn Félags heimspekikennara. Sigurlaug Hreinsdóttir og Elsa Björg Magnúsdóttir gáfu kost á sér áfram en formaður, Kristian Guttesen var í fyrra kosinn til tveggja ára.

Eitt erindi barst ritara undir liðnum „Önnur mál“ frá Þórdísi Hauksdóttur. En á síðasta aðalfundi var samþykkt að hún yrði talsmaður félagsins við borgaryfirvöld um innleiðingu heimspekikennslu í grunnskólana. Hún bað um að fá áfram að þjóna félaginu á þann hátt. Samþykkt var að hún ynni að þessu verkefni í samvinnu við stjórn.